144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:31]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015. Það verður að segjast eins og er að það hefur verið ansi mikill barningur hjá stjórnarmeirihlutanum að koma þessu fjárlagafrumvarpi saman og breytingartillögum við 2. umr. Málinu hefur verið frestað þrisvar sinnum en núna hafa breytingartillögur meiri hlutans litið dagsins ljós og margt þar sem ber að þakka. Þó að það vanti að sjálfsögðu margt þar inn og maður hefði viljað sjá forgangsröðunina öðruvísi að mjög mörgu leyti þá ber líka að þakka það sem er þó í rétta átt þar sem menn hafa séð að sér varðandi upphaflegar hugmyndir og stefnu ríkisstjórnarinnar í fjárlögum ríkisins.

Mig langar fyrst að byrja að ræða menntakerfi okkar og hvernig við stöndum að menntamálum þjóðarinnar. Ég hef vissulega áhyggjur af því að við séum þar að taka ranga stefnu. Ég hef miklar áhyggjur af framhaldsskólum vítt og breitt um landið og hvernig þeir munu fóta sig í framtíðinni. Forsvarsmenn framhaldsskóla í landinu, heimamenn og sveitarstjórnarmenn höfðu gífurlegar áhyggjur af fjárlagafrumvarpinu eins og það leit upphaflega út. Nú hefur eitthvað verið komið til móts við það og lagað svokallað gólf í framhaldsskólum. Menn fá greiðslur til þess að halda því lágmarksgólfi sem þarf til að reksturinn sé ekki í járnum eða í mínus. En eftir standa skólar, sem ég nefndi fyrr í dag í ræðu, eins og Fjölbrautaskóli Snæfellinga sem er líka með dreifnám eða fjarnám og er með framhaldsdeild á Patreksfirði, og aðrir slíkir skólar sem eru í svipaðri stöðu og bjóða upp á dreifnám eða fjarnám. Þeir eru langt í frá komnir í örugga höfn með sín mál og mikil óvissa er um framhaldið.

Ég vil vitna aðeins í skólameistara Fjölbrautaskóla Snæfellinga, Jón Eggert Bragason, í erindi sem hann sendi okkur þingmönnum og lýsti áhyggjum sínum yfir stöðu framhaldsskóla síns og framhaldsskóla almennt og áhrif fjárlaga á framtíð þeirra. Hann spyr hvort að með þeim aðgerðum sem koma fram í fjárlagafrumvarpinu, þar sem skortir á viðbótarfjármagn til þessara skóla, þurfi að loka alfarið á dreif- og fjarnámsnemendur. Hann segir að þeir nemendur séu mjög hagstæðir þar sem þeim standi einungis til boða að velja að fara inn í þá hópa sem ákveðið hefur verið að kenna á hverjum tíma og þar með batni nýtingin. Hann nefnir að viðbótarkostnaður við framhaldsdeildina á Patreksfirði sé áætlaður um 20 millj. kr. árið 2014 en viðbótarfé frá ráðuneytinu sé rúmlega 11 millj. kr. Hann spyr hvers vegna þetta sé svo. Ef Framhaldsskóli Snæfellinga ætlar að starfrækja deildina á Patreksfirði er ekkert val í huga skólameistara, sú mönnun sem er þar í dag má ekki vera minni, það má ekki skera niður kennslu eða starfsstöður þar ef standa á undir þeim lágmarkskröfum sem gerðar eru til skólans. Í deildinni sækja nám jafnt nemendur með sértæka námsörðugleika sem og toppnemendur og allir eiga rétt á námi við hæfi. Skólameistarinn segir líka, með leyfi forseta:

„Launakostnaður vegna deildarinnar 2014 er áætlaður 12 millj. kr. en hann skiptist annars vegar á þá sem starfa á Patreksfirði og hins vegar eru 3,5 millj. kr. til kennara Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði vegna stofnsamnings við skólann.“

Færri nemendaígildi þýða eðlilega minna námsframboð og þetta er spurning um sjálfstæði þessa skóla og margra annarra sem er í raun og veru stillt upp við vegg við þessar aðstæður. Okkur þingmönnum sem vorum á ferð í kjördæmum okkar í kjördæmaviku í haust var gerð grein fyrir því að framhaldsskólarnir væru í mjög erfiðri stöðu. Fulltrúar þeirra lögðu málið eiginlega upp þannig að það yrði mikil byggðaröskun og byggðabrestur á mörgum stöðum ef menn mundu ekki bæta meiri fjármunum í rekstur framhaldsskólanna. Því hefur verið mætt að vissu marki, eins og ég nefndi í upphafi, með að setja þetta gólf, en það er því miður ekki nægjanlegt fyrir marga skóla. Þetta eru byggðarlög sem eru veik fyrir og mega ekki við óvissu í þessum efnum. Þetta skiptir gífurlega miklu máli. Það er ágætt að taka sem dæmi, eins og ég hef nefnt hér, Patreksfjörð í Vesturbyggð. Þar er mikill uppgangur núna í atvinnulífinu, sem betur fer, og fjöldi nemenda í deildinni þar hefur verið að aukast. Á þá að refsa þessum stöðum fyrir að farið er að ganga betur? Nemendur vilja stunda nám í heimabyggð, það styrkir byggðina, undirstöðurnar og vilja fólks til að búa áfram þar í stað þess að flytja með unglingunum sínum og ýtir líka undir menntunarstig í viðkomandi byggð. Þetta styður allt hvert annað. Þess vegna skilur maður algjörlega áhyggjur heimamanna og vonar að þetta verði tekið til endurskoðunar milli 2. og 3. umr., svo alvarlegt er málið.

Við þingmenn fengum mjög góða kynningu frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki þegar við vorum þar í kjördæmaviku. Sá skóli, eins og aðrir framhaldsskólar, hefur fengið ákveðna innspýtingu, en hann sinnir líka víðtæku hlutverki, er með fjarnám og dreifnám á Blönduósi, Hólmavík og Hvammstanga. Þessir skólar eru mjög fjölbreyttir og hafa verið í nánu samstarfi við sveitarfélög, stofnanir og fyrirtæki og eru til mikillar fyrirmyndar. Það kom fram í máli forsvarsmanna skólans á Sauðárkróki að þeir hefðu miklar áhyggjur af hvítbókinni, að 25 ára nemendum og eldri yrði ekki lengur heimilt að vera í námi í framhaldsskólunum. Það þýðir mikla fækkun fyrir þann skóla ef það verður að veruleika, eins og blasir við að óbreyttu, að nemendur 25 ára og eldri í bóknámsbrautum hafi ekki lengur aðgang að framhaldsskólunum eftir áramót.

Hvað á að gera gagnvart þeim nemendum sem þá hrökklast úr námi, hvert eiga þeir að fara? Þetta eru oft nemendur sem hafa einhverra hluta vegna ekki getað lokið framhaldsnámi, búa í þessum byggðarlögum og hafa áhuga á að búa þar áfram. Eiga þeir að fara um langan veg til að sækja einkaskóla með tilheyrandi kostnaði? Hvað þýðir það? Hafa þeir efni á því? Eru ekki meiri líkur en minni á því að ef nemendur hafa tök á því að greiða þann mikla aukna kostnað og fara frá heimili sínu að þeir komi ekki aftur? Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að nemendur 25 ára og eldri hafi aðgengi að framhaldsskólunum áfram, sérstaklega úti á landi þar sem þetta er svo mikið byggðamál. Það er líka dýrt og ómarkvisst að kosta annað skólakerfi við hlið framhaldsskólanna og er tilfærsla á fjármunum. Svo spyrja menn líka í skólakerfinu: Verður það nám sem þá fer fram annars staðar nægur undirbúningur fyrir háskólanám? Þessar spurningar eiga allar rétt á sér.

Skóli eins og Fjölbrautaskólinn á Sauðárkróki hefur verið mjög metnaðarfullur og boðið upp á ýmsar nýjungar í starfi sínu eins og slátrarabraut, plastiðnir, fisktæknibraut, hestabraut, kvikmyndabraut og framhaldsskólabraut. Þetta er mikið úrval, mikið námsframboð sem hætt er við að breytist þegar fyrrnefndur nemendahópur hefur ekki lengur aðgengi að þessum skólum. Hætta er á því að ekki verði hægt að bjóða upp á slíkar námsleiðir eins og verið hefur og hefur verið að vaxa fiskur um hrygg.

Svo er líka til umhugsunar að ekki eru allir skólar sem bjóða upp á dreifnám eða fjarnám undir sama hatti. Skólar eins og á Hvammstanga, Hólmavík, Búðardal og Blönduósi fá framlag af sóknaráætlun en um það er ekki að ræða í skólanum á Patreksfirði. Auðvitað er þá minna hægt að gera fyrir þá fjármuni sem eru í sóknaráætlun í önnur verkefni. Það er búið að skera niður sóknaráætlun mjög mikið eins og við þekkjum, og þá sitja þessir skólar ekki við sama borð. Þarna eru ákveðnir skólar sem treysta því að þeir fái áfram fé úr sóknaráætlun, þó að það sé ekki í hendi. Það þurfti að berjast fyrir því við síðustu fjárlög að halda þessum skólum á floti. En það tókst og það er vel. Ég tel að stjórnarliðar hafi ekki bara átt heiðurinn af því heldur líka við í minni hlutanum sem börðumst með oddi og egg fyrir því að þetta nám, fjarnám og dreifnám sem skiptir landsbyggðina gífurlega miklu máli, gæti haldið áfram.

Af hálfu meiri hluta fjárlaganefndar eru lagðar fram breytingartillögur um að lagðir verði fjármunir í háskólana, t.d. Landbúnaðarháskóla Íslands, Hólaskóla og Háskólann á Bifröst og fleiri háskóla og lýsi ég ánægju minni með það, það er gott. En við skulum samt ekki gleyma því að vandinn er ekki leystur eins og með Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Þar skortir framtíðarsýn, bæði faglega og fjárhagslega. Það er í raun og veru óásættanlegt fyrir samfélagið þar að vera í einhverju limbói og óvissu. Við verðum að fara að búa þannig um málefni skólans að þar sé öryggi til framtíðar í því hvernig staðið verður að uppbyggingu hans og rekstraröryggi og því fagi sem þar er undir, bæði rannsóknum og menntun í landbúnaði, það er gífurlega mikilvægt. Skólinn hefur sýnt það undanfarin ár að þar er mikill metnaður á ferðinni.

Ég vil nefna framlag til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða. Skerðing á framlagi til jöfnunar örorkubyrða almennra lífeyrissjóða veldur því að skerða þarf lífeyrisgreiðslur til félagsmanna Alþýðusambandsins og félagsmanna annarra sjóða. Það er enn á ný verið að mismuna gagnvart þeim sjóðum sem njóta ríkisábyrgðar. Þessu var frestað um hálft ár í breytingartillögum meiri hlutans en síðan á þetta að skella á. Ég lýsi mikilli óánægju með það og gífurleg óánægja er líka hjá þeim sem skerðingin bitnar á. Breytingin mun koma verst niður á sjóðum með þunga örorkubyrði, t.d. sjóðum verkamanna og sjómanna, og leiða til allt að 4,5% skerðingar á lífeyri sjóðfélaga. Það er óásættanlegt. Þetta gengur þvert á samkomulag sem var gert árið 2005 við aðila vinnumarkaðarins og gert án samráðs við þá og er ekki til fyrirmyndar. Því miður skortir víða samráð þar sem það á að vera en síðan er kannski samráð þar sem það á ekki við og ætti ekki að vera.

Varðandi almannatryggingar var gert ráð fyrir því í frumvarpinu að bætur almannatrygginga hækkuðu um 3,5% samkvæmt verðlagsvísitölu. Þar sem verðbólgan er í hjöðnun hefur verðlagsvísitalan lækkað og nú ætlar ríkisstjórnin ekki að bæta bætur almannatrygginga nema um 3%. Mér hefði fundist góður bragur á því að öryrkjar fengju að njóta þess að verðbólgan er í hjöðnun og upphaflegar tillögur í fjárlagafrumvarpinu fengju að standa en ekki að þær yrðu trappaðar niður í 3%. Við vitum að öryrkjar búa við mjög lélega framfærslu og er okkur ekki til sóma og þarf að gera þar miklu betur. Það er ekki ríkisstjórninni til sóma að geta ekki unnt öryrkjum að fá 3,5% hækkun, sem er vísitölutengd og ekki til að hrópa húrra fyrir. Nú á að lækka hana. Við vitum að lyf og hjálpartæki og kostnaðarþátttaka almennings í lyfjakostnaði, þetta hefur allt hækkað og verið þung byrði á öryrkjum jafnt sem öðrum sjúklingum sem þurfa að kaupa mikið af lyfjum og nýta sér hjálpartæki. Það er umhugsunarefni að kostnaðarþátttaka almennings í lyfjum hefur aukist um 1,9 milljarða frá því sem var þegar síðasta ríkisstjórn skildi við. Í tillögum okkar í stjórnarandstöðunni leggjum við til að 1,9 milljörðum verði bætt við í þennan málaflokk.

Ríkisstjórnin ætlar ekki að bregðast við því ákalli að hætta við að stytta atvinnubótatímabilið. Hvað á að gera við það fólk sem fer af atvinnuleysisbótum við það? Núna um áramót getur verið að um 600–700 missi þann rétt sinn. Það er fólk sem stendur mjög illa félagslega og fjárhagslega og eini möguleikinn hjá því er fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélögum, sem er lægri greiðsla á mánuði en atvinnuleysisbætur þó að þær séu ekki háar. Það er líka verið að skera niður í vinnumarkaðsaðgerðum sem snúa að þessu fólki og ég tel að við þurfum að bæta þar úr. Fólk í þessum hópi sem er eldra en 25 ára hefur ekki lengur möguleika á að afla sér menntunar með ódýrum hætti í framhaldsskólum og framlag til framhaldsfræðslu fyrir fólk með litla formlega menntun er núna skert umtalsvert. Ég trúi ekki öðru en að fjárlaganefnd og ríkisstjórnin muni endurskoða þetta því að þetta skiptir máli varðandi þá kjarasamninga sem fram undan eru hvernig menn skilja við þetta mál.

Síðan ætla ég að fjalla aðeins um sóknaráætlanir landshlutanna. Miklar væntingar voru bundnar við sóknaráætlanir og þær stóðust, það var mikil ánægja með þær þvert á flokka og um allt land. Það hefur verið gífurleg ánægja með hvernig tekist hefur til við það verkefni að færa meira vald heim í hérað og að menn fái fjármuni til að vinna með í nærumhverfi sínu. En árið 2013 var fé til sóknaráætlunar komið niður í 400 millj. kr., á síðasta ári var það skorið niður í 15 millj. kr. og með barningi var hægt að berja inn í síðustu fjárlögum 85 millj. kr. svo að það stóð í um 100 millj. kr. Núna er sama sagan að í fjárlagafrumvarpi voru ætlaðar 15 millj. kr. til verkefnisins og síðan var bætt við 85 og það stendur áfram í 100 millj. kr. En þetta er verkefni sem mikil ánægja hefur verið með og hefur virkilega styrkt byggðirnar. Að óbreyttu er verið að hverfa frá því fyrirkomulagi að samstarfsvettvangur sveitarfélaga og hagsmunaaðila landshlutanna hafi bein áhrif á langtímaverkefni. Það veldur miklum áhyggjum. Nú er verið að ræða um að tvinna saman vaxtarsamninga, menningarsamninga og sóknaráætlun, og ég veit ekki hvort það sé það sem gera þarf ef menn bæta ekki fjármunum í þessi verkefni. Ef hræra á þessu öllu saman í einn pott og nægir fjármunir fylgja ekki verkefnunum er það gífurleg afturför. Þessi verkefni hafa notið trausts og eru góð framkvæmd á byggðastefnu þar sem lögð er áhersla á tilfærslu á ábyrgð og umsýslu til landshlutasamtaka og sveitarfélaga. Ég held að það séu ekki neinar raddir neins staðar sem óska eftir því að þetta verði allt sett undir sama hatt. Fyrst og fremst er óskað eftir meiri fjármunum í þessi verkefni og að þau fái að þróast áfram eins og verið hefur.

Síðan er það sameining lögregluembætta og sýslumannsembætta. Menn eru ekki nógu öruggir með hvernig sú sameining gengur fyrir sig, hvort nægt fjármagn fylgi þannig að staðið verði við að löglærðir aðilar verði á þeim stöðum þar sem verður ekki sitjandi sýslumaður. Viðkomandi sveitarfélög hafa áhyggjur af þessu, eðlilega, því að þetta liggur ekkert fyrir. Það er ekki nógu ljóst í fjárlagafrumvarpinu hvort búið sé að tryggja nægar fjárveitingar til sameiningarinnar svo að hægt sé að standa við þær væntingar og þau loforð sem hafa komið frá stjórnvöldum og ráðherra í þessum málefnum. Áfram stendur því sú krafa að tryggt verði nægt fjármagn til sameiningarinnar svo tryggja megi stöðu löglærðra fulltrúa á þeim starfsstöðvum sem eru fyrirhugaðar. Ég tek undir þær áhyggjur því að landsbyggðina munar um hvert einasta starf. Það er auðvitað alltaf verið að horfa í hvert einasta starf sem krefst menntunar og skapar fjölbreytni og annað því um líkt, en ríkisvaldið hefur haft tilhneigingu til að draga saman. Sett eru á stofn störf í útibúum stofnana, hvort sem þær heita Vinnumálastofnun, Fiskistofa, Hafrannsóknastofnun eða eitthvað annað, og menn eru alltaf að berjast um að halda einu, tveimur, þremur störfum og togast á um þau. Síðan segja stjórnvöld: Þetta er allt of lítil eining til þess að hún standi undir sér, og réttlæta þar með að leggja hana af aftur. Heimamenn eru alltaf að reyna að fá fram samlegðaráhrif opinberra starfa með að hafa þau störf oftar en ekki undir einu þaki til að þar myndist ákveðin fagþekking og samlegðaráhrif á mismunandi sviðum. En það er orðin föst rútína að slást þurfi um þau opinberu störf sem komin eru út á land. Það er sorglegt, sérstaklega þegar hæstv. atvinnuvegaráðherra ákveður að flytja Fiskistofu í heilu lagi með manni og mús til Akureyrar. Ég tel það vera mjög óvönduð vinnubrögð. Við sem erum fylgjandi því að flytja opinber störf út á land viljum að vel sé staðið að því, undirbúið vel og ekki gert þannig að allt fari í uppnám. Mér finnst mjög einkennilegt að verið sé að taka fjármuni af byggðaáætlun í þetta verkefni, ég verð að segja alveg eins og er. Ég geri þá kröfu að vandað sé til verka þegar opinber störf eru flutt út á land og að lágmarki að ráðherrar verji þau störf sem komin eru út á land en ekki þurfi eilíflega að slást fyrir þeim.

Við höfum mikið rætt hér um fjarskipti og háhraðatengingar. Það er vissulega ánægjuefni að í breytingartillögum meiri hlutans séu lagðar til 300 milljónir í fjarskiptasjóð og þar sé um að ræða fyrsta áfanga framkvæmda við fyrirhugaða fjarskiptaáætlun. En ég fæ ekki séð að sú mikla umræða sem varð um t.d. Vestfirði á þessu ári hafi orðið til þess að búið sé að tryggja að þar verði hringtenging á ljósleiðara. Ég ætla ekki að hrósa hæstv. ríkisstjórn fyrir þetta framlag að fullu fyrr en ég sé það hvernig það verður framkvæmt og hvernig það skilar sér í veruleikanum. Ég veit að þeir þingmenn sem hafa verið í forsvari fyrir þetta mál hafa haft metnað til að klára það, en spurningin er alltaf þessi: Verða nægir fjármunir í fjárhagsáætlun hvers árs til að ljúka háhraðatengingu? Við þingmenn höfum heyrt frá kjósendum okkar og fólki vítt og breitt um landið að góð háhraðatenging sé orðin ein af undirstöðum þess að búseta sé trygg á mörgum stöðum. Við megum ekki draga lappirnar í þeim efnum, það liggur mikið við og skiptir miklu máli að verja peningum í hringtengingu ljósleiðara og að allir hafi gott aðgengi að háhraðatengingum. Ég legg traust mitt á að hv. þm. Haraldur Benediktsson fylgi því máli eftir, ekki skortir stuðning frá mér sem hef flutt tillögu sem lýtur að þessu, um að hraða háhraðatengingum. Ég vona að hægt verði að ljúka því verkefni með reisn innan skamms tíma.

Í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða fara ekki háar fjárhæðir og er okkur til skammar hvernig við förum með það mál. Framlagið í fjárlagafrumvarpinu, rúmar 145 millj. kr., dugar auðvitað skammt. Á síðasta ári var líka farið af stað með mjög lága upphæð í þennan sjóð. Menn þurftu að bæta þar í á síðasta ári í fjáraukalögum. Vandræðagangurinn í þessu máli hefur reyndar verið með ólíkindum. Nú virðist ráðherra vera komin með niðurstöðu um náttúrupassa svokallaðan, en með honum held ég að sé verið að hella olíu á eld, miðað við umræðuna í þjóðfélaginu, það verði aldrei sátt um slíkt. Útfærslan er auðvitað ekki komin nákvæmlega hjá hæstv. ráðherra en ég held að erfitt verði að ná þeim tilgangi sem þar er boðaður. Ef menn eiga að fara að borga fyrir það að fara inn í þjóðgarðinn okkar á Þingvöllum og á fleiri staði held ég að ímynd landsins verði ekki sú sem við óskum eftir og fæli ferðamenn frá, enda hafa ferðamálasamtök verið andvíg þessari útfærslu og vilja frekar hækka gistináttagjaldið og ná tekjunum með öðrum hætti.

Varðandi Vegagerðina þá eru samgöngumál málaflokkur sem stendur mér nærri og ég hef miklar áhyggjur af nýframkvæmdum á næsta ári og fram undan. Samgönguáætlun er ekki enn þá komin fram eða forgangsröðun þar. Ég nefni framkvæmdir sem hafa beðið mjög lengi eins og Dýrafjarðargöng og að ljúka Vestfjarðavegi 60, Dynjandisheiði, framkvæmdir á Vestfjörðum sem hefur dregist allt of, allt of lengi að ráðast í. (Gripið fram í: Hvað með Árneshrepp?) Ég tala nú ekki um Árneshrepp …(VigH: Við lögðum fram … um Gjögur. ) Það var ekkert gert við flugvöllinn á Gjögri þótt þar lægi tilbúinn malarbingur til þess að malbika á síðasta ári. (Gripið fram í.) Betra er seint en aldrei, hv. formaður fjárlaganefndar. Nú á að gera þetta, vonandi er sá haugur ekki orðinn ónýtur og undirlagið ónýtt þegar það stendur svona óhreyft og kostnaður verður miklu meiri en annars hefði verið. Ég er ansi hrædd um það. (Gripið fram í.) Jarðvegurinn sígur og það er óvíst nema þetta verði miklu dýrara þegar upp er staðið, fyrir utan að það er ekkert í hendi að ná þessum arði frá Isavia, til að nota í framkvæmdir, þó að ég sé algjörlega fylgjandi því að fara þá leið. Ég er ánægð með það ef það næst en það er ekki í hendi. En maður verður að vona hið besta því að flugvellir víða um land eru mjög illa hirtir. Ég nefni flugvöllinn þar sem ég þekki til á Þingeyri, ekki hefur verið hægt að nota hann lengi að neinu gagni vegna þess að burðarlagið þar er hálfónýtt og þannig eru fleiri flugvellir í vandræðum. En að áfram sé tekið fé úr nýframkvæmdum Vegagerðarinnar í samgöngumálum er til skammar. Við vitum að ekki voru ekki miklir fjármunir til ráðstöfunar á síðasta kjörtímabili vegna hrunsins en samt voru þá settir um 3,5 milljarðar í Vestfjarðaveg 60. Það var ein stærsta framkvæmdin á síðasta kjörtímabili. En núna þegar árar betur draga menn lappirnar, samgönguáætlun liggur ekki fyrir og algjör óvissa er um allar nýframkvæmdir, útboð og annað, menn vita ekkert hvar þau mál standa, ekki neitt. Það er vissulega þörf á að setja fjármuni í viðhald vega, tengivega og héraðsvega, og ég er hlynnt því en það á að gera af myndarskap en ekki kroppa í fé úr nýframkvæmdum í þá þætti. Auðvitað þarf að gera ráð fyrir fjármunum í viðhald vega. Þeirri ríkisstjórn sem kýs að afsala sér tekjum upp á tugi milljarða er ekki vorkunn. Við sem vorum þingmenn á síðasta kjörtímabili bundum auðvitað vonir við að þegar við værum komin yfir erfiðasta hjallann gætum við af miklum krafti byggt upp innviði samfélagsins, samgöngur, menntamál, heilbrigðismál. En þessi ríkisstjórn dregur lappirnar, afsalar sér tekjustofnum og stendur að einni mestu tekjutilfærslu á stuttum tíma milli þjóðfélagshópa. Fjárlagafrumvarpið ber þess merki að þar er grjóthörð hægri stefna að verki þó að hér séu innan um einstaka félagslega sinnaðir þingmenn og kannski í hjarta sínu jafnaðarmenn sem hafa haft ákveðin áhrif til batnaðar í frumvarpinu. En hin sjónarmiðin eru ráðandi í stærstu dráttum og fjárlagafrumvarpið ber þess merki.

Svo er það Ríkisútvarpið okkar, hvað ætlum við að gera með það? Ætlum við virkilega að ganga svo hart að þeirri stofnun að hún geti ekki risið undir þeim skyldum sem við höfum lagt á herðar henni um almannaþjónustu, öryggishlutverk og að standa undir menningarhlutverki í landinu og vera lýðræðisventill? Ég tel að Ríkisútvarpið hafi veitt í gegnum tíðina gífurlegt aðhald og verið lýðræðinu hollt. Ég spyr mig hvað gerist ef við missum þá stofnun niður í það að hún rísi ekki undir því hlutverki sem við gerum til hennar, að hafa gagnrýna, öfluga fréttastofu sem greinir málin hlutlægt og getur líka boðið upp á afþreyingu, létta afþreyingu sem og menningu okkar, fróðleik og allt það sem Rás 1 og Rás 2 hafa upp á að bjóða. Fyrir það þarf ekki að greiða meira en 19.400 kr. á ári, sú upphæð mun standa undir því að stofnunin geti unnið áfram og byggt sig upp eins og stjórn Ríkisútvarpsins hefur gefið út með sinni ályktun. Hvaða virðingu berum við eiginlega fyrir okkur sjálfum og sem þjóð? Höldum við að aðrir fjölmiðlar muni ganga inn í það hlutverk sem Ríkisútvarpið hefur þjónað í öll þessi ár? Ég held að hjá fólki vítt og breitt um landið muni rísa svo mikil mótstaða gegn þessu að menn verði að draga í land og fara ekki þá leið að skera niður gjaldið sem þýðir bara uppsagnir og niðurskurð og að stofnunin verður ekki söm eftir það. Ég held að menn verði, hollvinir Ríkisútvarpsins, hvar í flokki sem þeir standa, að slá skjaldborg um Ríkisútvarpið. Það er ekki víst hvort hægt verði að reisa stofnunina við ef hún á að vera skorin niður við trog í þessum fjárlögum og í framhaldinu. Auðvitað eru það blautir draumar margra sjálfstæðismanna og framsóknarmanna að losa sig hreinlega við þessa stofnun. Ég ætla ekki að bera það upp á einhverja ákveðna, en ég hef heyrt þær raddir vítt og breitt í mínu kjördæmi að Ríkisútvarpið sé svo gagnrýnið á núverandi stjórnvöld að þau verði bara að losa sig við þennan fjölmiðil. Menn segja það bara óhikað. (Gripið fram í: Láttu ekki ljúga að þér.) Ég læt ekki ljúga að mér, ég hlusta á fólk. Ef ástandið er orðið þannig að við treystum ekki því að almenningur megi fá lýðræðislega umfjöllun og að mál séu rannsökuð ofan í kjölinn og fréttaflutningur af þeim erum við komin á stað sem ég vil ekki vera á. Þá erum við ekki lengur lýðræðislegt þjóðfélag. Ríkisútvarpið er sú stofnun í okkar þjóðfélagi sem sameinar okkur sem þjóð, varðveitir tungumál okkar og (Forseti hringir.) menningu og er stolt okkar og hún ætti að vera það fyrir alla þingmenn hér inni.