144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:14]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Jú, ég er alveg hjartanlega sammála þessari nálgun og vil þakka hv. þingflokki Pírata fyrir að hafa látið gera þessa könnun. Það er gott að fá svona könnun inn í fjárlagaumræðuna núna sem sýnir vilja landsmanna um hvernig á að forgangsraða í þágu heilbrigðiskerfisins og menntakerfisins. Fólk vill að innviðirnir séu sterkir vegna þess að fólk veit og þekkir það á sér og ættingjum sínum og öllum hve miklu máli heilbrigðisþjónusta skiptir þegar veikindi eru annars vegar. Þá er þetta það dýrmætasta sem maður á, heilsa okkar sjálfra, heilsa barnanna okkar og foreldra, og við vitum að við viljum að þessi mál séu í lagi. Og þó að núna hafi verið settir þarna inn fjármunir, bæði í rekstrargrunn Landspítalans og hönnun nýs Landspítala, kemur ekkert fram um framhaldið með uppbyggingu á nýjum Landspítala eins og þörf er á. Fjármunir í rekstrargrunninn eru allt of litlir. Landspítalinn hefur verið rekinn með miklu tapi vegna þess að það hefur verið áætlað of lítið fjármagn í hann.

Fyrir hrunið var Landspítalinn í mjög slæmri stöðu. Svo kemur hrun í ofanálag og þá leggjast allir á eitt við að reyna með stjórnvöldum að vinna sig í gegnum þá erfiðleika með það að leiðarljósi að þegar betur áraði yrði þessi stofnun sett í forgang sem og heilbrigðismál og heilbrigðisstofnanir alls staðar á landinu, ekki bara Landspítalinn. En svo er því miður ekki og ég óttast að við séum komin á þannig stað að það verði erfitt að vinda ofan af því og við séum að missa frá okkur allt of margt hæft fólki í heilbrigðisstétt alveg frá A til Ö, ekki bara lækna heldur annað hæft starfsfólk, því að þetta er allt ein samfelld keðja fólks sem styður hvert annað.