144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:29]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Það er gjarnan sagt og er ábyggilega rétt að fjárlagafrumvarpið sé mikilvægasta frumvarp ríkisstjórnar á hverju ári. Nýlega, var það ekki í gær eða fyrradag, þurfti ríkisstjórnin í Svíþjóð að segja af sér vegna þess að fjárlagafrumvarpið þar var fellt. Ríkisstjórn sem getur ekki komið fjárlagafrumvarpi í gegn hefur engar forsendur fyrir að sitja áfram, vegna þess, eins og einhvern tíma var sagt, að peningar eru forsenda þess sem gera má og fjárlagafrumvörp og fylgifrumvörp þess um tekjuöflun ríkisins eru því lýsandi fyrir áherslur ríkisstjórnar hverju sinni.

Það má með sanni segja að áherslur þessarar ríkisstjórnar séu skýrar. Þær voru það fyrir ári og þær voru það fyrir einu og hálfu ári þegar fyrstu verk hennar voru að lækka veiðigjöld á útgerðina, sem aldrei hefur gengið betur, lækka virðisaukaskatt á gistiþjónustu og leggja um leið upp í skemmtiferðina með náttúrupassann.

Nú erum við hér með annað fjárlagafrumvarp hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssonar og nú eins og í fyrra eru áherslurnar skýrar. Álögur lækka á þá sem hafa efni á að borga, álögur hækka á þá sem minna hafa á milli handanna. Kostnaðarhlutdeild sjúklinga er aukin og verður hvorki meira né minni en 1,9 milljarðar þegar búið verður að breyta reglugerð um gjaldtöku sérfræðilækna, en því hefur nú verið frestað fram yfir áramót til að halda lokinu á verðbólgunni, sem hefur vissulega gengið vel. Vegið er að jafnrétti til náms þegar nemendum 25 ára og eldri er vísað frá bóknámi, og svo hefur ýmislegt fleira verið gert sem ég mun koma að síðar.

Það er líka eftirtektarvert, virðulegi forseti, hve seint við erum á ferðinni með 2. umr. Við vorum að vísu seinna á ferðinni í fyrra en þá var fjárlagafrumvarpið heldur ekki lagt fram fyrr en 1. október. Nú var það lagt fram annan þriðjudag í september, sem munar einum þremur vikum, þannig að það er svolítið ævintýralegt hvað það dregst að koma þessu saman, enda gerðist það nú í fyrsta skipti, ég held bara í sögunni, að annar stjórnarflokkurinn var með fyrirvara við fjárlagafrumvarpið sem hlýtur að vera með endemum.

Áður en ég held lengra vil ég lýsa vonbrigðum mínum með það sem hefur komið fram hér í umræðunni og kemur fram í nefndarálitum minni hlutans að fjárlaganefnd hefur að einhverju leyti snúið aftur til fyrri tíma með það að úthluta smásporslum, ef svo má að orði komast, beint úr nefndinni í stað þess að hafa skiptingu hinna svokölluðu safnliða utan pólitíkurinnar, utan stjórnmála. Þessu var breytt á síðasta kjörtímabili og útgangspunkturinn við að færa þessa úthlutun frá fjárlaganefnd var að fjárlaganefnd og fagnefndir gerðu tillögu um einstaka fjárlagaliði en sjóðir og félagasamtök, menningarráð landshluta, vaxtarsamningar sveitarfélaga og ráðuneytis sæju um dreifingu til einstakra verka eftir ákveðnum viðmiðum.

Mikil vinna var lögð í það á síðasta kjörtímabili að koma þessu nýja fyrirkomulagi á. Auðvitað voru ekki allir á einu máli um þessa ráðstöfun enda sjá allir í hendi sér að það getur verið freistandi fyrir alþingismenn að lofa hinum og þessum fjárhagslegum stuðningi. Það er líka svo að landsmenn hafa misjafnan aðgang að alþingismönnum og þeir sem þess nutu sakna þess að geta ekki tekið upp símann og hringt í sína konu eða sinn mann og komið áhugamáli sínu á framfæri.

Vinnulag af því tagi stuðlar að hvoru tveggja ójafnræði og spillingu. Þess vegna var það einkar gleðilegt þegar breyting varð á starfsháttum fjárlaganefndar á síðasta kjörtímabili. Í þessum efnum á þingið að nýta krafta sína til eftirlits með því hvernig fjármunum er ráðstafað og bæta vinnulag ef þörf er á. Sannast að segja finnst mér það ótrúlegt og beinlínis sorglegt að meiri hluti fjárlaganefndar hafi látið freistast til að snúa aftur á fyrri vegu.

Nú ætla ég að víkja að ýmsum þáttum í fjárlagafrumvarpinu. — Virðulegi forseti, hvað hef ég langan tíma?

(Forseti (ÞorS): Þingmaðurinn hefur 33 mínútur og 54 sekúndur.)

Eftir?

(Forseti (ÞorS): Já.)

Sem sagt ekki 14,1? Það er nú ágætt.

Já, nú ætla ég að víkja að ýmsum þáttum í fjárlagafrumvarpinu og breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar og þá líka breytingartillögum sem koma frá minni hlutanum.

Fyrst ætla ég að nefna það sem viðkemur börnum sérstaklega. Þar ber fyrst að nefna barnabæturnar. Ríkisstjórnin græddi nefnilega 300 millj. kr. á fjáraukalögum í ár, það var afgangur af barnabótaliðnum vegna þess að viðmiðunarfjárhæðum og tekjuskerðingum var ekki breytt þannig að fjárhæðin nýttist til fulls. Þegar fjárlög voru samþykkt í fyrra var fjárlagaliðurinn ekki lækkaður eins og hagræðingarhópurinn hafði á prjónunum, en með því að hækka ekki viðmiðunarfjárhæðir á móti varð hagræðingarhópnum að ósk sinni og barnabætur voru skertar um 300 millj. kr. á þessu ári. Á vordögum felldi stjórnarmeirihlutinn tillögu sem hefði gert það að verkum að peningarnir nýttust til fulls. Virðulegi forseti, það var aðeins nokkrum vikum eftir að birst hafði skýrsla þar sem fram kom að 12 þús. börn á Íslandi — og ég endurtek 12 þús. börn — búa við fátækt.

Í umræðum um fjáraukalögin fyrir nokkrum dögum fagnaði hv. formaður fjárlaganefndar því sérstaklega að tekjur fólks hefðu hækkað svo að færri fengju nú barnabætur en fyrr þar sem þær væru tekjutengdar. Hv. þm. Willum Þór Þórsson flutti lærðan fyrirlestur um tekjutengingu og sveiflujöfnun af því tilefni. En nú leggur stjórnarmeirihlutinn til að barnabætur hækki um þúsund milljónir til mótvægis við hina illræmdu hækkun á virðisaukaskatti á mat. Með þessari hækkun ná barnabætur ekki raunvirði þess sem þær voru ákveðnar í samþykktu fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013. Það er því töluvert rangnefni að kalla þær mótvægisaðgerð. Mér finnst þetta léleg frammistaða hjá ríkisstjórninni.

Samkvæmt frumvarpinu á að draga saman um 56 millj. kr. hjá fjórum stofnunum vegna sérstakra verkefna. Og hvaða verkefni eru það, forseti? Það eru úrræði fyrir þolendur kynferðisofbeldis og markvissar forvarnaaðgerðir. Eins hryllilegt og það nú er eru flestir þolendur kynferðisofbeldis börn. Og það á að skera þetta niður og það á að skera niður vegna þessa úrræðis 10 milljónir hjá ríkissaksóknara og 3 milljónir hjá ríkislögreglustjóra, 30 milljónir hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, 10 milljónir hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum, og loks er liðurinn sem ber heitið Ýmis löggæslu- og öryggismál skorinn niður um 3 milljónir. Í mínum huga er enginn vafi á því að þetta bitnar á þeim sem minnst mega sín. Minni hluti fjárlaganefndar leggur til að þessar stofnanir fái sömu fjárveitingu fyrir þessum verkefnum og á síðasta ári, þ.e. alls 56 millj. kr. Ég vona sannarlega að þingmeirihluti hér á Alþingi samþykki það.

Minni hluti fjárlaganefndar leggur einnig til að framlag til rekstrar Landspítalans verði 250 millj. kr. hærri en meiri hlutinn leggur til. 50 millj. kr. af þeim 250 millj. kr. eru sérstaklega eyrnamerktar BUGL, Barna- og unglingageðdeildinni, en eins og við vitum annar sú stofnun því miður ekki eftirspurn.

Í umræðum hér í gærkvöldi fagnaði hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson þessari breytingartillögu sérstaklega og vakti athygli á þörf flóttamannafjölskyldu þar sem þrjú börn á aldrinum 7 til 11 ára eiga við erfiðleika að stríða vegna þeirra hörmungaratburða sem þau hafa þurft að upplifa. Þegar ég hlustaði á þetta minntist ég þess að eitt af ákvæðum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem við höfum undirritað og fullgiltum fyrir þremur árum, held ég, fjallar einmitt um börn sem flóttamenn.

Í 22. gr. sáttmálans segir:

„Börn sem telja sig vera eða eru talin flóttamenn eiga rétt á vernd og stuðningi hvort sem þau eru ein eða í fylgd foreldra eða annarra.“

Við þurfum að skilja það og vita að börn flóttamanna geta, eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson nefndi hér, átt við mikla erfiðleika að stríða og þá þurfum við að hafa stofnanir sem geta hjálpað þeim.

Í framhaldi af þessu vil ég einnig halda á lofti annarri breytingartillögu minni hlutans um 50 millj. kr. viðbótarfjárveitingu til Útlendingastofnunar. Það kom fram í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar hér í morgun að við höfum ekki staðið okkur nógu vel í þessum málum á undanförnum árum og það hefur tekið langan tíma að fara yfir mál hælisleitenda og úrskurða í þeim. Á þessu ári var veitt tímabundin fjárveiting til að vinda ofan af málafjöldanum sem bíður afgreiðslu, styttri afgreiðslutími er hælisleitendum til hagsbóta, en auk þess sparar það mikinn kostnað og fram kom í máli hv. þingmanns í morgun að hann getur skilað sér tvö- til sexfalt. Það er því dýrara fyrir ríkissjóð að skera þessa fjárveitingu niður en að halda henni inni. Því standa vonir til að Alþingi samþykki þessa breytingartillögu minni hlutans, annað væri einfaldlega óskynsamlegt út frá stöðu ríkissjóðs.

Næst ætla ég að víkja að heilbrigðiskerfinu. Fram kom hér í gær að þingflokkur Pírata hefur látið gera skoðanakönnun á því hvernig fólk vill forgangsraða í ríkisfjármálunum. Þá kemur í ljós að 90% svarenda setja heilbrigðismál í fyrsta eða annað sæti, 77% reyndar í fyrsta sæti, og vilja að í meðferð ríkisfjármála sé forgangsraðað í þágu heilbrigðiskerfisins. Þá er fyrst að taka fjárveitingar til Landspítalans. Ég vil nefna góðu fréttirnar fyrst en það er fjárveiting til að fullgera tillögu að hönnun á sjúkrahúsi og meðferðarkjarna spítalans. Það hýtur að vera merki um að loksins sé engum blöðum um það að fletta að ráðist verði í þær endurbætur og nýbyggingar sem nauðsynlegar eru til að halda uppi fullkominni heilbrigðisþjónustu. Vonandi næst samkomulag innan skamms um fjármögnun spítalans þannig að hægt verði að ráðast af fullum krafti í þessa mikilvægu framkvæmd.

Húsnæði spítalans er gamalt, það er úrelt, það er skemmt og það er dýrt að halda því við. Það er ekki bara dýrt í viðhaldi heldur er ekki hægt að koma við þeim starfsaðferðum sem tíðkast nú til dags á sjúkrahúsum. Og það á sannarlega ekki bara við um aðstöðu sjúklinga og aðstandenda þeirra heldur ekki síður starfsfólks. Þá er ég ekki eingöngu að tala um lækna eða hjúkrunarfólk heldur alla aðra starfsmenn. Núverandi húsnæði gerir ekki kleift að nýta nýjustu tækni sem notuð er við læknisaðgerðir og rannsóknir heldur á þetta einnig við um lyfjaafgreiðslu, flutninga hvers konar innan spítalans, svo að ekki sé talað um ferðir á milli húsa. Þetta á við um þrif og hvað eina.

Mikil hagræðing yrði að því að geta nýtt alla þá spítalatækni sem til er og það er ekki bara hagræði heldur mundi það gera starfsemina öruggari. Það er til dæmis miklu öruggara að skammta lyf með nýjustu tækni, því að vélmenni gera síður mistök en mannshöndin og mannsaugað. Sótthreinsum hvers konar yrði fullkomnari, en við þurfum að muna að sýkingar, sérstaklega þær sem eru kallaðar spítalasýkingar, eru mikið vandamál á spítalanum. Einnig má nefna sem dæmi afföll sem verða af fatnaði á spítalanum, jafnvel þó að hann sé merktur sem eign spítalans. Tæknin hefur einnig séð við því vandamáli í spítalarekstri. Það er því enginn vafi á því að endurbætt húsnæði þar sem hægt er að koma við nýjustu tækni mun skila sér í mun skilvirkari rekstri á spítalanum. Ég nefni þetta hér því að það hefur verið dregið í efa í þessum sal að svo sé og finnst mér það bera vott um lítinn skilning á þeim flókna rekstri sem rekstur sjúkrahúsa er. En það er fagnaðarefni að nú er stigið skref í átt að þessu mjög svo áríðandi verkefni.

Forseti. Það er gjarnan sagt að aldrei hafi meiri peningar verið veittir til Landspítalans. Það má vel vera, en það leysir ekki rekstrarvanda spítalans ef fjárveitingin er ekki nógu há. Minni hluti fjárlaganefndar leggur til að fjárveitingar til spítalans verði 1.650 millj. kr. á árinu 2015. Þar af eru 400 millj. kr. til viðhalds. Ég held að þessi aukning megi ekki minni vera og velti reyndar fyrir mér hvort hún sé nógu mikil. Tillaga minni hlutans um rekstrarfé er aukning upp á 1.250 millj. kr., sem er 250 millj. kr. hærri en tillaga meiri hlutans. Þá eru 200 millj. kr. ætlaðar til að bregðast við afleiðingum af verkfalli lækna en biðlistar hafa óumflýjanlega lengst og munu enn lengjast ef verkfallið dregst á langinn. Þessu verður að bregðast við. Svo talaði ég um 50 millj. kr. sem eru eyrnamerktar BUGL hér fyrr í máli mínu.

Ég skil það sem svo að þessi 1 milljarður sem meiri hlutinn leggur til sé til að bæta rekstrargrunninn en ekki til að greiða niður hallann á árinu 2014. Það skiptir miklu máli að svo sé, halli spítalans var einmitt 1 milljarður og stafaði af því að spítalinn greiddi dýr lyf, að upphæð 220 millj. kr., sem Sjúkratryggingar töldu ekki eiga heima hjá sér, þannig að spítalinn varð að greiða þessi lyf, ég held að þetta sé fyrir tvo sjúklinga. Mér skilst líka að sú ákvörðun hafi verið tekin með vitund og vilja heilbrigðisráðuneytisins.

Eðlilegt er að gera ráð fyrir aukningu í starfsemi spítalans, annað er vart raunhæft. Aukning á dagdeildum árið 2014 er 4%, fjöldi skurðaðgerða hefur aukist um 2,6% og starfsemi á bráðadeild um 2%. Og engin ástæða er til að ætla að ekki verði sama aukning á næsta ári.

Loks eru inni í hallanum 560 millj. kr. á þessu ári vegna launagjalda á árinu 2014 sem samið var um og hefur ekki fengist fullbætt. Auðvitað verður spítalinn að fá þessa peninga inn í sinn rekstrargrunn. Þess vegna skiptir það mjög miklu máli að sú viðbót sem núna fer inn, viðbót við það sem getið er um í fjárlögunum, verði inni í rekstrargrunninum, ekki til að greiða halla þessa árs.

Hér hafa orðið allnokkrar umræður um læknaverkfallið. Ríkisvaldið getur ekki lengur setið hjá og látið sem þetta alvarlega ástand komi því ekki við. Vissulega er þetta erfitt verkefni en það þýðir ekki að það þurfi ekki að leysa. Þegar lausn finnst í þessu máli, sem hlýtur að gerast og ég vona að verði fyrr en seinna, verður ríkisvaldið svo að vera tilbúið að bæta heilbrigðisstofnununum upp þann kostnað sem af því mun hljótast.

Menntamálin, forseti. Þar er komið að annarri undirstöðu velferðarkerfisins sem vegið er að í fjárlagafrumvarpinu sem við höfum til umræðu. Á síðasta kjörtímabili, þegar efnahagskerfið hrundi og fjöldi manns missti atvinnu, tóku skólarnir fullan þátt í því með stjórnvöldum að róa lífróður og tóku við fleiri nemendum án þess að fá að fullu greitt fyrir það úr ríkissjóði. Þetta gerðu bæði framhaldsskólarnir og háskólarnir í landinu. Í munni þeirra sem nú eru ábyrgir fyrir menntamálum þjóðarinnar hljómar það svo að síðasta ríkisstjórn hafi lækkað greiðslur með hverjum nemanda og nú skuli framlög með hverjum nemanda í framhaldsskólum hækkuð. Hvernig er það gert? Jú, með því að fækka þeim sem fá aðgang að skólunum, vísa þar með öllum sem eru 25 ára og eldri frá bóknámi og bjóða þeim í staðinn að fara í skóla þar sem eru skólagjöld upp á 225 þús. kr. á önn. Það eru ekki litlir peningar, virðulegi forseti. Jafnvel þó að Lánasjóður íslenskra námsmanna láni til þessa kostnaðar þá eykur það byrðar þessa fólks í framtíðinni. Þetta er enn ein dagskipunin úr mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Önnur var sú að stytting náms til stúdentsprófs skyldi öll vera í framhaldsskólunum, engin fjölbreytni eða val nemenda og foreldra skal gilda þar.

Í viðtali við rektor Menntaskólans í Reykjavík í Ríkisútvarpinu í morgun kom í ljós að mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur ekki greitt peninga til skólans sem fjárlaganefnd hafði úthlutað honum en var sett á einhvern safnlið í ráðuneytinu. Mér finnst þetta allt saman mjög undarlegt.

Aðeins að háskólunum, forseti. Vissulega er það fagnaðarefni að nú við 2. umr. hækka framlög til háskólanna um 617 millj. kr. Skiptingin á milli skólanna vekur hins vegar upp spurningar, ekki síst spurningar um það hvort ekki sé tímabært að líta heildrænt á háskólastigið og athuga hvort þar megi ekki breyta og bæta. Ég veit að það má helst ekki minnast á það en skólarnir sem innheimta skólagjöld standa betur að vígi en ríkisháskólarnir að því leyti að til kennslu er úthlutað eftir sömu reglum til allra skólanna en nemendur í einkaskólunum svokölluðu greiða skólagjöld. Skólarnir fá því meira með hverjum nemanda og í raun meira úr ríkissjóði þar sem Lánasjóður íslenskra námsmanna lánar fyrir skólagjöldunum. Auðvitað er þetta þyngri byrði fyrir nemendur í framtíðinni en samt sem áður er þetta ójafnræði, tel ég vera, á milli skólanna á hverjum tíma í dag.

Nú má enginn skilja mig svo, virðulegi forseti, að ég sé að leggja til að nemendur við ríkisháskóla greiði skólagjöld, það er mjög fjarri mér. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að taka ætti til rækilegrar athugunar hvort framlag ríkisins með hverjum nemanda í ríkisháskóla eigi ekki að vera hærra en með hverjum nemanda í hinum svokölluðu einkaskólum.

Ég hlýt að víkja aðeins að Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri. Sú staða er enn óleyst. Fyrir einhverjum missirum og ekki mörgum voru viðræður uppi um sameiningu þess skóla við Háskóla Íslands. Þær viðræður tel ég að ætti að taka upp aftur, ekki til að fella niður skólahald á Hvanneyri heldur einmitt til að efla alla starfsemi þar. Mig langar í því sambandi að rifja upp að í apríl síðastliðnum barst okkur þingmönnum bréf frá 23 háskólakennurum við Landbúnaðarháskóla Íslands og þar sagði meðal annars, með leyfi forseta:

„Fjármál Landbúnaðarháskóla Íslands hafa verið í kreppu allt frá stofnun hans árið 2005. Það er löngu tímabært að stokka verkefni hans upp til að tryggja faglega framtíð þeirra á öflugri vettvangi en verið hefur. Að þessu hafa rektor og menntamálaráðherra unnið ötullega að undanförnu í góðu samráði við yfirstjórn Háskóla Íslands. Við teljum að landbúnaðarvísindi og tengdar greinar eigi ekki að vera í einhverju sérhólfi, þeim sæmir best að vera við hlið annarra mikilvægra fræðigreina til að tryggja nýsköpun og árangur við lausn þeirra verkefna sem bíða okkar í náinni framtíð. Þetta er líka sú leið sem okkar helstu samstarfsstofnanir í nágrannalöndunum hafa fetað á síðustu árum.“

Kennararnir halda áfram:

„Við mótmælum því að stefnumörkun um framtíð Landbúnaðarháskóla Íslands sé rekin með hræðsluáróðri, fordómum, þröngsýni og almennri vanþekkingu á faglegum forsendum háskólarekstrar. Við viljum að stefnumörkun þar til bærra stjórnvalda um framtíð háskólastigsins sé fylgt og skorum á rektor og menntamálaráðherra að hvika hvergi frá settum markmiðum um sameiningu Landbúnaðarháskólans og Háskóla Íslands um metnaðarfulla uppbyggingu á starfsstöðvum skólans.“

Miðað við röggsemi hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra í öðrum efnum ætla ég að lýsa furðu minni yfir að hann hafi látið undan þeim öflum sem börðust gegn þessari sameiningu, en líklega er það ekki sama hver mótmælir hverju sinni.

Þá að Ríkisútvarpinu. Það virðist ætlun þessarar ríkisstjórnar að skerða starfsemi Ríkisútvarpsins eins og henni er framast unnt. Búin hefur verið til áætlun um hvernig lækka eigi útvarpsgjaldið um 15% frá því sem það er nú í tveimur skrefum. Því er haldið fram að hér sé um mikla og góða breytingu að ræða vegna þess að nú eigi Ríkisútvarpið að fá allt útvarpsgjaldið. Svona málflutningur misbýður mér og ég er þreytt á honum, virðulegi forseti.

Stjórn Ríkisútvarpsins skrifaði okkur þingmönnum bréf þar sem segir, með leyfi forseta:

„Gangi þessar fyrirætlanir eftir blasir við stórfelld breyting á hlutverki, þjónustu og starfsemi Ríkisútvarpsins með stórtækari niðurskurðaraðgerðum en áður hafa sést hjá félaginu. Augljóst má vera að sú þjónusta sem Ríkisútvarpið veitir tæki stakkaskiptum við þessa breytingu með samdrætti á öllum sviðum. Þá er ljóst að áætlanir um úrbætur á tilteknum þáttum í starfseminni eru óframkvæmanlegar en nýir stjórnendur og stjórn hafa hug á að efla þjónustu við landsbyggðina, bjarga efni í gullkistu Ríkisútvarpsins og gera aðgengilegt þjóðinni, efla framboð á vönduðu barnaefni á íslensku, leggja aukna áherslu á innlenda framleiðslu og bæta dreifikerfið um land allt.“

Nú kveður við frá stjórnarmeirihlutanum eins og svo oft áður að alltaf sé verið að greiða peninga til Ríkisútvarpsins. Þess er hins vegar sjaldan getið að þegar Ríkisútvarpið varð ohf. var það látið taka með sér allar lífeyrisskuldbindingar starfsmanna og það er ekki lítill pakki. Og það eru ekki mörg fyrirtæki í landinu, held ég, sem sitja uppi með allar lífeyrisskuldbindingar inni í sínum reikningum.

Að lokum vil ég líka taka undir það sem kemur frá stjórn Ríkisútvarpsins:

„Ef það er vilji Alþingis að gjörbreyta hlutverki Ríkisútvarpsins og skyldum, þá er eðlilegt að fram fari umræða og þá með tilheyrandi breytingum á útvarpslögum …“

Þá eru það framkvæmdir við ferðamannastaði, forseti. Þá er enn einu sinni ástæða til að rifja upp flumbruganginn með virðisaukaskatt á gistingu sem lá svo mikið á að lækka; nú á að hækka hann aftur og svo aftur á næsta ári ef ég skil rétt. Áformin um náttúrupassann, það undraverk, sem hefur tekið 18 mánuði að semja um við ferðaþjónustuna; þær samningaviðræður enda með því að Samtök ferðaþjónustunnar eru á móti fyrirbrigðinu og fregnir berast af því að einungis Icelandair sé sammála hæstv. ráðherra. Það er vegna þessara miklu samningaviðræðna sem einungis 148 millj. kr. eru áætlaðar í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Þá er líklega ætlunin að ríkisstjórnin samþykki á ríkisstjórnarfundi aukafjárveitingu á næsta ári, eins og hún gerði í ár. Hæstv. ráðherra segir að það sé ekkert mál ef ríkisstjórnin er á einu máli, og hún kærir sig kollótta um að í lögum um fjáraukalög segir að þau eigi að vera fyrir óvæntum útgjöldum. Í þessum efnum reynir minni hluti fjárlaganefndar að hafa vit fyrir ráðherranum og leggur til 600 millj. kr. viðbótarframlag til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Og þá er kannski rétt að geta þess í leiðinni að það munu liggja inni umsóknir upp á 2 milljarða fyrir framkvæmdir úr þessum sjóði.

Það er margt fleira sem hægt er að ræða. Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að greiddar verði húsaleigubætur fyrir 400 millj. kr. á næsta ári. Það eru engir útreikningar á bak við það hvernig það dugir til og þær verða tekjutengdar, þannig að það er margt óljóst í þeim efnum. Kannski fréttum við meira af því við 3. umr.

Lyf ýmist hækka eða lækka í fjárlögunum. Þau lækka á einum stað og hækka á öðrum stað og mér telst til að þegar búið er að leggja saman og draga frá einhverjar þrjár tölur sé niðurstaðan sú að lyfjakostnaður sem fer út til fólksins muni hækka um 145 millj. kr.

Enn er staðið við það að stytta atvinnuleysisbótatímabilið, stytta það um sex mánuði, eins og það hlýtur nú að vera hjálplegt fyrir þá sem eru í þeim ömurlegu aðstæðum að vera atvinnulausir.

Tilfærsla með Isavia er mjög einkennileg, að taka eigi arð af því félagi til að flytja á flugvelli úti á landi. Ég efast um að ríkisstjórnin og fjárlaganefnd hafi lagaheimild til að ákveða hluti af þessu tagi. Þó að það geti verið skynsamlegt þurfa menn að haga sér innan þess regluverks sem gildir hjá okkur.

Síðan er það Fiskistofuævintýrið. Þannig vill til að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur borist bréf frá starfsmönnum Fiskistofu þar sem þeir biðja um að nefndin fari ofan í þetta mál og skoði það. Það var mikið að gera á fundinum hjá okkur í morgun þar sem við fengum kynningu á sparisjóðaskýrslunni og síðan voru þingflokksfundir hjá einhverjum þingflokkum, eða einhverjum þingflokki, þannig að ekki tókst að fara ofan í það. En það bíður nefndarinnar að fara yfir þetta erindi frá starfsmönnum Fiskistofu sem telja einfaldlega á sér brotið. Þá erum við líka með hér inni, eða það er víst væntanlegt hingað inn til þingsins, frumvarp frá forsætisráðherra sem heimilar ráðherra að taka gerræðisákvarðanir af þessu tagi upp á sitt eindæmi. Síðan er þetta náttúrlega gífurlega kostnaðarsamt.

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að ræða hér um verðlagsbreytingarnar sem menn kalla. Í fjárlagafrumvarpinu voru verðlagsbætur og það allt upp á 3,5%. Nú hefur þjóðhagsspá breyst og nú eru þessar verðlagsbætur 3% og þá lækkar fjárlaganefnd alla þá liði sem eiga að gilda um þetta og segir: Þetta eru bara verðlagstölur, þetta er bara einhver statistík. En það er ekki svoleiðis, að því er ég best skil, vegna þess að mér sýnist að niðurstaða fjárlagafrumvarpsins sé enn sú sama. Þess vegna er búið að taka þá peninga sem voru í þessum verðlagsbótum og setja þá eitthvert annað. Því miður hefur ekki þurft að fást við þetta fyrr vegna þess að hlutunum hefur alltaf verið öfugt farið. Fjárlagafrumvarpið er byggt á þjóðhagsspá og síðan þegar kemur fram í nóvember kemur önnur spá og þá er verðbólgan hærri. Þess vegna hefur það verið gert, að minnsta kosti svo lengi sem ég man, og ég man nú allnokkur ár aftur í tímann, að þessir liðir hafa verið hækkaðir, þannig að þegar komið er inn í 2. umr. þá er ljóst að afkoma ríkissjóðs er verri en leit út fyrir þegar frumvarpið var lagt fram.

Nú er dæmið öfugt en þá ætlum við ekki að halda þessu inni hjá því fólki sem minnstar hefur tekjurnar í þessu landi, heldur ætlum við að taka þessar verðlagsbreytingar, sem er hægt að klípa þarna af, og færa þær yfir til gæluverkefna, ef svo mætti orða. Það er ekki til eftirbreytni þykir mér.

Ég ætla ekki að ræða um skuldaniðurfærsluna en hátt í 20 milljarðar eiga að koma þar inn. Ég hef rætt hana áður hér í þinginu og það er alveg ljóst að þar eru aftur peningar að fara til fólks sem ekki þarf á þeim að halda. Aðrir sem þurfa á að halda, eins og leigjendur eða þeir sem eru í búsetufélögum, fá ekki neitt út úr hinni miklu skuldaniðurfærslu.

Áður en ég lýk ræðu minni, virðulegi forseti, vil ég aðeins minnast á viðbrögð stjórnarmeirihlutans við því sem við sem tilheyrum þeim stjórnmálaflokkum sem voru í ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili höfum fram að leggja. Viðbrögð stjórnarmeirihlutans núna eru alltaf þessi: Af hverju gerðuð þið þetta ekki á síðasta kjörtímabili? Ástæða þess er einfaldlega sú að á síðasta kjörtímabili var ríkisstjórnin í rústabjörgun. Ríkissjóður var á barmi gjaldþrots og koma þurfti í veg fyrir það. Í stórum dráttum má segja að tvær leiðir hafi verið til að koma í veg fyrir það og þær voru báðar notaðar, önnur að hækka skatta og hin að skera niður ríkisútgjöld.

Virðulegi forseti. Hallinn á ríkissjóði var 216 milljarðar árið 2008. Það er ekki lítið að rétta það við. Það var því ekkert annað en ótrúlegt að tekist hafi að skila hallalausum fjárlögum fyrir árið 2014 og fjáraukalögum með afgangi, að vísu með einhverjum bókhaldsbrellum en ég ætla ekki að fara út í þær hér.

Ríkisstjórnin sem sat á síðasta kjörtímabili sagði ávallt að niðurskurði yrði skilað til baka þegar efni yrðu til í ríkissjóði. Það var gert með fjárlögunum fyrir árið 2013. Þau fjárlög hafa stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar kallað kosningafjárlög. Þeir lækkuðu tekjustofnana sem áttu að standa undir ýmsu sem þar var eins og fjárfestingaráætluninni og þeir sögðu í fjárlagaumræðu fyrir ári að ekki væri hægt að bera saman við samþykkt fjárlög 2013 og miðuðu alltaf við árið 2012. Ég verð að segja að þeir kunna margar barbabrellurnar sem nú sitja í ríkisstjórn. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það.