144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:09]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hún fór yfir sviðið vítt og breitt. Það sem vakti sérstaka athygli mína var umræða hennar um málefni háskólanna þar sem hún lýsti þeirri skoðun að hún hefði til að mynda viljað sjá sameiningu Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri og Háskóla Íslands ganga í gegn undir þeim formerkjum að starfsemin á Hvanneyri í Borgarfirði yrði efld.

Mér fannst hv. þingmaður að vissu leyti gagnrýna hvernig fjármunum væri skipt, að það væri ekki nógu skýr framtíðarsýn eða stefna á bak við það hvernig fjármunum er skipt milli skóla í þeim framlögum sem renna til háskólastigsins. Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins um hennar sýn í þessu máli, hvað hún telji skynsamlegt að gera. Nú hefur minni hlutinn á þingi lagt fram ákveðna tillögu þar sem er meðal annars reynt að rétta við hlut Listaháskóla Íslands hvað varðar húsnæðismál og líka lagðir fjármunir í að efla samstarf skólanna. Mig langar að spyrja hv. þingmann um framtíðarsýnina.

Hitt sem mig langar að nefna hér er mikilvægt mál að mínu viti. Það er samspil fjárlaga við aðra lagasetningu. Í umræðunni um fjárlög hittum við forstöðumenn stofnana sem bentu á lögbundið hlutverk stofnananna sem þeir stýra, fara með. Þeir sögðu: Hér eru skyldur mínar útlistaðar í lögum. Síðan er okkur skammtaður rammi í fjárlögum sem dugir ekki til þess að við getum uppfyllt þessar skyldur. Hvort á að vega þyngra, hin almenna lagasetning eða fjárlögin? Hvernig eigum við nákvæmlega að meta skyldur okkar? Væri hægt að loka Landspítalanum í desember ef fjármunirnir væru búnir? — Við mundum líklega aldrei fallast á það. Eigi að síður upplifir maður að það sé það sem hv. þingmenn margir hverjir segi, að það þurfi hreinlega að gera og stofnanir þurfi að sníða sér stakk eftir vexti, eins og það er orðað. (Forseti hringir.) Aðeins um samspil laga og fjárlaga.