144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:12]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi háskólana þá segi ég alveg eins og er að ég held að 300 þúsund manna þjóð hafi ekki efni á að hafa sjö háskóla eða hvað þeir eru margir. Ég tel að það verði að líta nákvæmlega til þess að til að við getum veitt þá háskólaþjónustu sem við viljum, sem við viljum náttúrlega hafa góða, þurfi að líta það mjög alvarlegum augum hvort ekki sé hægt að gera þetta einfaldara en það hefur verið. Ég veit að það hafa verið gerðar tilraunir til þess. Væntanlega — ég segi væntanlega af hyggjuviti mínu — næðist mest út úr því að sameina Háskólann í Reykjavík Háskóla Íslands. Ég held að það sé alveg ljóst að það eru ekki allir jafn hrifnir af því og ég. Ég held að við þurfum að skoða þetta. Við þurfum að fara mjög alvarlega í þessa umræðu.

Til dæmis með háskólann á Hvanneyri þá hef ég það eftir mjög áreiðanlegum heimildum að það hafi aldrei staðið til þar að leggja starfsemina niður á Hvanneyri heldur einmitt að efla hana. Það er synd að það hafi farið út um þúfur.

Samspil við aðra löggjöf ætti ekki að vera svo erfitt. Það kemur fram í bréfinu sem við þingmenn fengum frá stjórn Ríkisútvarpsins að (Forseti hringir.) ef það á að breyta hlutverki Ríkisútvarpsins þá verður að gera það með umræðu og breytingu á lögum um Ríkisútvarpið.