144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:31]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þegar við störfum í stjórnmálum og tölum um stjórnmálin erum við oft að ræða fyrst og fremst tæknileg úrlausnarefni og praktísk mál. Við deilum líka um hugmyndir og við deilum um aðferðafræði, hvernig við eigum að ná þeim hugmyndafræðilegu markmiðum sem okkar hreyfingar eða við sjálf teljum æskileg. Við í minni hlutanum höfum gagnrýnt fjárlagafrumvarp þessa árs og raunar gagnrýndum við fjárlög síðasta árs líka fyrir mjög skarpa hugmyndafræðilega breytingu frá þeirri stefnu sem var tekin í tíð fyrri ríkisstjórnar. Ég ætla að fara nánar yfir það á eftir.

Það sem mér finnst ekki síður áhugavert við að hafa hlustað á umræðuna í dag og í gær er sú keppni sem stendur yfir, það má kalla hana túlkunarstríð. Þetta er keppnin um að skrifa söguna, skrifa söguna um efnahagsbata Íslands. Þannig hef ég orðið vör við að fulltrúar meiri hlutans vísa gjarnan til fyrri ríkisstjórnar þegar þeir eru gagnrýndir fyrir niðurskurð núna og segja: Hér var nú ansi mikið skorið niður á síðasta kjörtímabili. Eins og það hafi verið eitthvert sérstakt áhugaefni eða val síðasta meiri hluta, jafnvel sérstök skemmtun, og aldrei eru nefndar ástæðurnar. Aldrei eru nefndar ástæðurnar fyrir því að hér var skorið niður á síðasta kjörtímabili, því að það sem núverandi meiri hluti vill helst forðast að ræða er hrunið árið 2008. Og þeir sem ræða um hrunið 2008 eru jafnvel sakaðir um að dvelja í fortíðinni og vilji ekki líta fram á veg. Ég hef því stundum á tilfinningunni þegar þessi keppni um að skrifa söguna stendur yfir að margir mundu gjarnan vilja hafa það svo að Íslandssagan hefði bara hafist hér 1. febrúar 2009. Þá tók síðasta ríkisstjórn við og fór að skera niður af skepnuskap sínum, hér ríktu þá talsverðar hörmungar, en síðan hafi núverandi meiri hluti komist til valda og þá hafi hvort tveggja gerst í senn, að hér hafi orðið algjör viðsnúningur í ríkisfjármálum og efnahagsmálum og um leið hafi uppbygging verið hafin.

Ég hlýt að vilja skjóta inn orði í þetta túlkunarstríð. Ég tek auðvitað eftir því að í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar stendur, með leyfi forseta, að annað árið í röð stefni í hallalausan ríkisrekstur og að þetta sé allt mjög ánægjuleg þróun. En það er ekki farið lengra aftur í sögunni. Hvers vegna ætli það sé nú? Það er ekkert farið yfir þá sögu sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir fór aðeins yfir í síðustu ræðu á undan mér, að þegar síðasta ríkisstjórn tók við var um það bil 200 milljarða halli á ríkissjóði og með þrotlausri vinnu, ekki bara síðustu ríkisstjórnar heldur alls Íslands, alls samfélagsins, þar sem allir tóku á sig niðurskurð og auknar byrðar, af því að sú aðferðafræði sem valin var var að fara blandaða leið niðurskurðar og aukinnar tekjuöflunar. Við getum ekkert sleppt þeirri sögu.

Ríkissjóður og samfélagið allt varð fyrir gríðarlegu áfalli haustið 2008 og segja má að hver einasti skattgreiðandi, hver einasti borgari í landinu hafi orðið fyrir forsendubresti, það er nú vinsælt orð að nota í sumum málum. Eftir að hafa fylgst með þessu túlkunarstríði, þeim átökum um hvernig eigi að skrifa söguna, hefði ég talið að við ættum öll að geta samglaðst yfir þeim árangri að við séum þó hingað komin eftir sex ára þrotlausa vinnu við að koma ríkissjóði á réttan kjöl. Þó að við deilum um aðferðafræði, þó að við deilum um forgangsröðun, þó að við deilum um hugmyndafræði ættum við að geta gefið öllum, ja, getum við ekki sagt „kredit“, svo ég sletti, með leyfi forseta, biðst afsökunar á því, við ættum að geta gefið öllum kredit fyrir það að hafa þó náð hingað og ættum ekki að vera feimin við að rekja þá sögu eins og hún var.

Ég ætla þó ekki að nota tíma minn til að ræða þetta en það hlýtur þó að vekja athygli þeirra sem fylgjast með stjórnmálum og þeirra sem hyggjast skrifa sögu framtíðarinnar. Það er áhugavert að skoða hvernig nákvæmlega er talað um þessi mál, og það er ekki boðlegur málflutningur að mínu viti að vitna til ósambærilegra aðstæðna. Þegar núverandi meiri hluti er gagnrýndur fyrir niðurskurð er ekki boðlegt að svara því með því að vísa til ósambærilegra aðstæðna á síðasta kjörtímabili.

Þegar við skoðum hugmyndafræðina sem er áhugavert að ræða af því að í fjárlagafrumvarpi hverrar ríkisstjórnar og fjárlögum birtist stefna, pólitísk stefna, ber fyrst að horfa á tekjuöflunina. Þar höfum við horft á það að tekjustofnar samfélagsins hafa verið veiktir. Með tekjuöflunarfrumvörpum þessa árs eru lagðar auknar byrðar á almenning. Hvernig sem við horfum á þau mál er ekki hægt að líta fram hjá því að verið er að hækka virðisaukaskatt á matvæli, nauðsynjavörur, og afnám vörugjalda. Lækkun efra þreps virðisaukaskatts dugir ekki til að koma til móts við sérstaklega tekjuminni fjölskyldur sem verja meiru hlutfallslega í mat en tekjumeiri fjölskyldur. Tekjustofnarnir hafa verið veiktir, almenningur tekur á sig auknar byrðar og menn segja að byrðunum hafi að einhverju leyti verið létt af breiðu bökunum og þar hljótum við að nefna veiðigjaldið, sem var fyrsta verk þessarar ríkisstjórnar. Þegar það var fyrst lækkað svo um munaði varð almenningur í landinu af tekjum upp á 6,5 milljarða, líklega meira á ársgrunni, allt að 8 milljörðum á ársgrundvelli. Líklega er þetta 18 milljarða tekjumissir allt í allt. Þetta hefur gerst á sama tíma og við höfum horft upp á stórútgerðina greiða sér út arð, milljarðaarð. Þetta var fyrsta aðgerð ríkisstjórnarinnar og þar með fóru þeir fjármunir frá almenningi í landinu í hendur fárra, þeirra fáu sem hafa sérstakt einkaleyfi til að nýta hina sameiginlegu auðlind þjóðarinnar.

Annar tekjustofn, sem var ekki bara veiktur heldur hreinlega aflagður, er auðlegðarskatturinn, auðlegðarskattur sem skilar í ár í síðasta sinni, alla vega í bili, 10 milljörðum. Í staðinn fyrir að breyta útfærslunni til að koma til móts við þá gagnrýni sem hafði verið sett fram á framkvæmd auðlegðarskattsins var sá tekjustofn afnuminn. Þarna sjáum við auðvitað skýran hugmyndafræðilegan mun, því að einn liðurinn í því að vinna gegn ójöfnuði í heiminum er einmitt það sem við getum kallað prógressíf eða framsækin skattlagning. Auðlegðarskatturinn er hluti af þeirri hugmyndafræði og snýst um sérstaka skattlagningu á þá sem eiga hreinar eignir umfram ákveðin mörk. Ef við horfum bara á hina alþjóðlegu þróun er þetta einmitt það sem þjóðir heimsins ættu að vera að gera, þ.e. að skoða fjármagnstekjuskatt og auðlegðarskatt, ekki bara innan sinna landamæra ef við getum sagt sem svo, heldur á alþjóðavísu. Það er í raun og veru eina leiðin til þess að vinna að auknum jöfnuði í heiminum öllum, það er að skoða hvernig við getum útfært slíkar leiðir þvert yfir landamæri.

Bent hefur verið á það, af því að evrusvæðið og Evrópusambandið hefur gengið í gegnum kreppu, að hluti af þess vanda sé einmitt að skattlagningin sé bundin þjóðríkjunum, hún fari ekki þvert yfir landamæri, og að skoða þurfi aukna samræmingu í þessu, meðal annars til að ná fram auknum jöfnuði sem er eftirsóknarverður í sjálfu sér. Það er eitt af því mikilvæga sem kannski varð hálfgert tabú hér á landi í hinum mikla uppgangi, hinum meinta uppgangi fyrir hrun, það var að ræða það að jöfnuður væri eitthvað sérstaklega eftirsóknarverður í sjálfu sér, hann er það. Hann er það sem hluti af ákveðinni samfélagsgerð, og hluti af því að tryggja jöfnuð er að reka skattkerfi sem hefur jöfnunaráhrif.

Ég gæti haldið áfram lengi að ræða veikta tekjustofna. Það var auðlindagjaldið og orkugeirinn í formi raforkugjalda sem var fellt niður, sykurskatturinn, sem núna á að fella niður, og ég heyrði í umræðu um tekjuöflunarfrumvarp hv. þingmenn Framsóknarflokksins segja: Sykurskattur er góður en við borðum allt of mikinn sykur. Það þarf bara að framkvæma þetta öðruvísi. Svarið er þó ekki að mínu viti að fella hann niður heldur skulum við framkvæma þetta öðruvísi. Við skulum bara skoða hvað er að, hvað fólki finnst vera að við framkvæmdina og finna þá leiðir til að framkvæma þetta.

Svo er það ferðaþjónustan sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir gerði líka að umtalsefni. Auðvitað er það áhugavert eftir að hafa heyrt fólk hér á innsoginu á síðasta kjörtímabili andmæla hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustuna upp í 14% samþykkja núna hækkun upp í 11% og væntanlega upp í 14% á næsta ári. Þær tekjur á þó ekki að nýta sérstaklega til að styrkja Framkvæmdasjóð ferðamannastaða heldur eru nú komnar upp hugmyndir, sérstæðar nokkuð, jafnvel einstæðar, um náttúrupassa, sem minna einna helst á einhverja vísindaskáldsögu þar sem hver og einn á að hafa sérstakt auðkenni og getur hvenær sem er lent í því að náttúruvarðliðið stoppi viðkomandi og biðji um auðkennið. Munið þið ekki eftir vísindaskáldsögunni sem þið hafið lesið þar sem allir voru komnir með strikamerki? Þetta minnir mig nánast á það. Í dag birtist í fréttum um Þingvelli, þangað fer enginn í lautartúr nema hann geti sýnt náttúruvarðliðinu strikamerkið og sýnt fram á að hann hafi borgað 1.500 kr. til þriggja ára til að fá að eiga þar lautardvöl. (Gripið fram í: … veiðimenn að borga tvöfalt …) (Gripið fram í: Miklu meira.)

Þetta eru hugmyndir meiri hlutans um tekjustofna. Og af því að ég nefndi hér söguna áðan erum við að horfa á aukna skattlagningu á almenn matvæli, við erum að horfa á aukna skattlagningu á bókaútgáfu sem berst í bökkum og hefur gert það allt frá hruni. Við erum að horfa á aukna skattlagningu á tónlistargeirann sem á í nógum vandræðum fyrir í því að berjast við það að finna sér stað og fóta sig í tæknivæddum heimi þar sem nýjar miðlunarleiðir hafa tekið við af hinum hefðbundnu. Og svo almenningur í landinu sem á að borga þetta passagjald. Þetta eru breiðu bökin. Stundum finnst mér, af því að við erum að tala um að skrifa sögu, að ef ég mundi horfa á þá sögu frá hruni og hingað til þá liði mér núna eins og ég hefði verið að horfa á mynd, svo hefði einhver sett á „rewind“ — svo að ég sletti aftur — og ég væri að horfa á allt fara til baka, stundum finnst mér markmiðið hreinlega vera það að snúa því við sem gert var áður, jafnvel til að gera það aftur, eins og með virðisaukaskatt á ferðaþjónustu.

Þetta er tekjuöflunin og hver er afleiðingin af því? Jú, það kemur fram í ágætu minnihlutaáliti hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur. Ef við skoðum fjögurra ára ríkisfjármálaáætlun sem fylgir frumvarpinu þar sem fjallað er um þróunina næstu árin hvað varðar hlutfall frumgjalda ríkissjóðs af vergri landsframleiðslu, sem er sem sagt mælikvarði á samneyslu þjóðarinnar og stærð opinbera geirans samanborið við einkageirann, fáum við ákveðnar vísbendingar, getum við sagt, hversu mikið velferðarsamfélag er um að ræða. Þar þurfum við líka að hafa í huga áður en lengra er haldið að hlutfall frumútgjalda af landsframleiðslu hefur lengi verið nokkru lægra á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum og í öðrum velferðarsamfélögum. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 28,2% samneyslu 2014, þá með óreglulegum liðum að undanskilinni skuldaniðurfærslunni. Sambærilegt hlutfall er um og yfir 30% annars staðar á Norðurlöndum. Og munurinn á Íslandi og öðrum ríkjum í þessu samhengi sést skýrast þegar skoðaðar eru tölur um útgjöld ríkja til velferðarmála og birtist mynd þar sem Ísland er með næstlægsta hlutfall slíkra útgjalda meðal þjóða þar sem slíkar upplýsingar voru fyrirliggjandi innan OECD á árinu 2013. Hér erum við að tala um útgjöld til velferðarmála. Að vísu má skýra þetta að hluta með því að ekki teljast allar íslenskar lífeyrisgreiðslur til opinberra velferðarútgjalda í þessum tölum. En þó að við tökum tillit til þess þá er Ísland eigi að síður með talsvert lægra hlutfall velferðarútgjalda en önnur Norðurlönd.

Það átakanlega er þó ekki þessi staða heldur hvert á að stefna samkvæmt fjögurra ára áætlun, því að þar kemur fram að stefnt sé að því að lækka þetta hlutfall úr 28,2% árið 2014 í 24,5% árið 2018. Það þýðir róttæka breytingu á því samfélagi sem við þekkjum. Það er ekki bara ég sem segi það, það er beinlínis sagt í fjárlagafrumvarpinu: „Framangreint útgjaldahlutfall er lágt í sögulegu samhengi og verður varla lækkað frekar nema með endurskoðun á þjónustuhlutverki ríkisins og helstu bótakerfum.“ Samneyslan verður komin svo langt niður að við munum þurfa að endurskoða alla þjónustu ríkisins, þá þjónustu sem við eigum nóg með að sinna núna og erum fremur að upplifa að við sinnum ekki nægilega vel núna. Hvernig verður það þá eftir fjögur ár?

Þetta er stórmál að mínu viti því að þetta sýnir hina skörpu hægri stefnu, ekki aðeins í því hvernig tekjur eru innheimtar heldur líka hvert eigi að stefna með velferðarútgjöldin. Þau á að keyra niður. Þau á að keyra niður sem hlutfall af samneyslunni og þar skilja svo sannarlega leiðir milli minni hlutans á Alþingi og meiri hlutans. Ég tel að þetta ætti kannski að vera stóra umræðuefnið hér, þessi áætlun til lengri tíma. Ég tel að almenningur hafi ekki enn áttað sig á hvaða stefnu núverandi ríkisstjórn er að taka.

Þetta var um stóru línurnar en mér finnst rétt að ræða aðeins einstök mál og einstaka útgjaldaliði sem vissulega taka, svo því sé haldið til haga, ákveðnum breytingum til batnaðar samkvæmt tillögum meiri hluta fjárlaganefndar og tækju enn meiri breytingum til batnaðar ef fylgt væri einnig tillögum minni hluta fjárlaganefndar sem hér liggja fyrir. Til að mynda hefur meiri hluti fjárlaganefndar hrakist til baka með það að skera niður vinnustaðanámssjóð, sem var algjörlega óskiljanleg ráðstöfun í fjárlagafrumvarpinu, þar sem 150 milljónir voru teknar út úr vinnustaðanámssjóði, sjóði sem hefur verið krafa um. Ég átti á síðasta kjörtímabili mörg samtöl við ekki síst þingmenn Sjálfstæðisflokksins um það mál þar sem mjög var rekið á eftir því. Mér fannst það óskiljanleg ráðstöfun að hann skyldi þurrkaður út úr fjárlagafrumvarpinu. Nú hefur meiri hlutinn lagt til að hann verði settur til baka, sem er gott, en ég velti fyrir mér af hverju í ósköpunum við göngum í gegnum þennan hráskinnaleik. Af hverju í ósköpunum er þetta þurrkað út í byrjun? Er þetta einhver valdabarátta milli einstakra ráðherra og þingmanna? Eða er þetta hluti af leikritinu sem manni finnst maður stundum vera staddur í þar sem sagan er skrifuð um það hvernig þingið nær að gera ákveðnar úrbætur á fjárlagafrumvarpinu, jafnvel með því að settar eru fram fullkomlega óskiljanlegar ráðstafanir, eins og þessi, í engu samráði við verkalýðshreyfinguna og aðila vinnumarkaðarins, sem einmitt höfðu mikið frumkvæði að því að stofnað var til þessa sjóðs?

Þessi breytingartillaga bætir hins vegar ekki úr öllum vanda framhaldsskólans, því að þar erum við að horfa á óvænta stefnumörkun sem ekki var kynnt í hvítbók hæstv. menntamálaráðherra, sem er sú ráðstöfun sem lögð er til að nemendur yfir 25 ára aldri eigi ekki lengur aðgang að framhaldsskólanámi, þ.e. bóklegu framhaldsskólanámi, sem mun hafa gríðarleg áhrif á framhaldsskóla, ekki síst úti á landi þar sem stór hluti nemenda er yfir 25 ára aldri.

Við sáum nýlega tölur um það að við hefðum tekið nokkur skref fram á við, stór skref í því að hækka hlutfall þeirra sem hafi lokið námi á framhaldsskólastigi, en eins og hv. þingmenn muna varð talsverð umræða hér fyrir um það bil tíu árum eða svo um hversu stórt bilið væri orðið í íslensku samfélagi á milli þeirra sem einungis hefðu lokið grunnskólaprófi, hlutfall þeirra var mjög hátt. Við höfðum líka tiltölulega hátt hlutfall þeirra sem höfðu lokið háskólaprófi, en mjög stórt bil var á milli í raun og veru, þ.e. að það væri mjög hátt hlutfall þeirra sem hefðu einungis lokið grunnskólaprófi. Ráðist var í mikla vinnu við þessi mál á árunum 2005, 2006, 2007 í menntamálaráðherratíð Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sett niður markmið, farið í samstarf með aðilum vinnumarkaðarins og þessu héldum við áfram. Það var nefnilega ekki sett á „rewind“ hjá síðustu ríkisstjórn og látið eins og allt sem á undan hefði verið gert væri á einhvern hátt ómark. Reynt var að halda áfram. Við réðumst í átak með aðilum vinnumarkaðarins, sem hét Nám er vinnandi vegur, og það sem kemur fram í nýjustu fréttum um þau mál er að hlutfall nemenda sem hafa lokið námi á framhaldsskólastigi fer hækkandi, og það fer hækkandi í miðri kreppu. Ég vil meina að það hljóti að vera beintengt þeim hundruðum nemenda sem luku námi í gegnum það verkefni, sem var ráðist í með Vinnumálastofnun, með framhaldsskólunum. Allir lögðu á sig ómælda vinnu til að skapa úrræði, menntunarúrræði sem hentuðu atvinnuleitendum sem ekki væru endilega á hinum hefðbundna skólaaldri, og þá sáum við hvað framhaldsskólarnir gátu gert. Ég held að þessi ráðstöfun sé alveg einstaklega illa ígrunduð í ljósi þess.

Ekki er hægt að segja: Ja, framhaldsskólarnir henta bara best fyrir 16–20 ára hópa. Mér finnst það lýsa vanþekkingu á því sem til að mynda framhaldsskólarnir gerðu í umræddu átaki, þar sem þeir sýndu fram á að þeir gátu tekið við hópum á öllum aldri sem þeir bjuggu til sérleiðir fyrir. Þeir voru ekki endilega að blanda þeim aldurshópum saman, og ég get alveg tekið undir þau rök að það getur verið heppilegt að gera það ekki. En skólarnir, af því að þeir hafa yfir svo miklu fagfólki að búa, gátu þetta. Mér finnst illa ígrundað að segja að þetta henti ekki og þess vegna eigi bara að henda því fólki út. En það er nú eins og annað sem manni finnst stundum ekki nægilega ígrundað og það á svo sem líka við um aðrar ráðstafanir í málefnum framhaldsskólans eins og til að mynda að hverfa frá því sem ákveðið var í lögum fyrir tíð síðustu ríkisstjórnar líka og var haldið áfram með og ekki sett á „rewind“, svo að ég fái að sletta hérna enn einu sinni.

(Forseti (ValG): ) Forseti vill biðja hv. þingmann, jafn vel máli farinn og hann er, að velja íslenskt orð fyrir „rewind“.

Já, tilbakaspilun, það var ekki spólað til baka, ekki var spólað til baka, virðulegi forseti. Ég tek þessari áminningu forseta með auðmýkt. Það var ekki spólað til baka heldur haldið áfram að vinna eftir þeirri hugmyndafræði að skólarnir ættu að hafa faglegt svigrúm til þess að geta verið fjölbreyttir. En nú á að spóla til baka í eitthvað sem var gert. Vitnað er til skýrslna frá árunum 2003 og 2004, miklu lengra aftur, og farið í það að segja skólunum að stytta námstímann og allir færu í sama mót. Við hlustuðum á skólameistara Menntaskólans í Reykjavík lýsa þessu í morgun, að hér væri í raun og veru snúið af stefnu fjölbreytni og aukins svigrúms á því skólastigi.

Síðan eru það háskólamálin. Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir fór svo sem vel yfir þau mál í ræðu sinni, ég ætla því ekki að nota tíma minn í það. Þó langar mig að nefna það, af því að minni hlutinn leggur til ákveðnar tillögur um húsnæðismál Listaháskólans, þau mál eru í ólestri. Ég furða mig á því, af því að ég spurði hæstv. menntamálaráðherra í fyrra um hvert ætti að fara í þeim efnum, hvert ætti að stefna, og þá svaraði hæstv. menntamálaráðherra að til að geta fundið í raun og veru framtíðarlausn á húsnæðisvanda Listaháskólans þyrfti að ljúka kostnaðarúttekt og hún kostaði 4 milljónir og þeir fjármunir væru ekki til og það ætti að tryggja þá í fjárlögum. En ráðherrann hefur ekki tryggt þá í fjárlögum og heldur ekki meiri hluti fjárlaganefndar því að ekki er króna sett í þetta verkefni, ekki króna. Húsnæðisframlag Listaháskólans tímabundið til þriggja ára er meira að segja þurrkað út. Það virðist því ekki vera pólitískur vilji til að leysa þessi mál. Skólinn er dreifður úti um alla borg í húsnæði sem jafnvel er talið heilsuspillandi. Þetta er eini háskólinn sem kennir þær greinar sem þar eru kenndar. Hann fær ekki mikið út úr þeim útreikningum sem liggja til grundvallar þeim viðbótum sem settar eru til annarra háskóla og byggja á hækkun á reikniflokkum.

Því er borið við að ekki liggi fyrir nákvæmlega hvernig þeir skilgreina reikniflokkana í Listaháskólanum. Þá er náttúrlega ekki hægt að hækka framlögin þegar menn vita ekki hvað þeir kostar. Þetta finnst mér heldur ekki boðlegt, virðulegi forseti. Og mér finnst það ekki í lagi að þetta húsnæðisframlag sé þurrkað út og ekki gerð nein tilraun til að setja aukafjármuni í það að ljúka þeirri kostnaðarúttekt sem var farið af stað með. Fyrir liggja ýmis gögn um þau mál og stóð valið milli þess að skoða annars vegar það húsnæði sem skólinn nýtir að hluta í Laugarnesi og hins vegar það sem skólinn nýtir að hluta á Sölvhólsgötureit. Þessu þarf að ljúka. Ég trúi ekki öðru, og af því að hv. formaður fjárlaganefndar er í salnum og hefur upplýst það að fjárlaganefnd hyggist skoða tillögur minni hlutans með opnum huga, þá held ég að þetta hljóti að vera ein þeirra tillagna sem nefndin skoðar ítarlega.

Mig langar líka að nefna menninguna. Ég er aðeins búin að ræða hina auknu skattheimtu sem lögð er til á bækur og tónlist. Boðaðar eru mótvægisaðgerðir með nokkrum milljónum í Bókasafnssjóð höfunda og nokkrum milljónum í tónlistarsjóð. Mér finnst þetta ekki veigamiklar mótvægisaðgerðir. Ég get alveg gefið plús fyrir það að meiri hluti fjárlaganefndar leggi til þessar viðbætur (Gripið fram í: Já.) í Bókasafnssjóð. Þetta er samtengt og þetta lýtur að starfsumhverfi hinna skapandi greina.

Mig langar að spyrja, því að ég man það svo ósköp vel og kannaði nú hvort minni mitt væri nokkuð að svíkja mig, því að í áramótaávarpi sínu árið 2013 sagði hæstv. forsætisráðherra að menntamálaráðherra og ríkisstjórnin hefðu að undanförnu unnið með markvissum hætti að sóknaráætlun fyrir listir, menningu og annað nýsköpunarstarf sem birtast mundi á nýja árinu. Og ég geri ráð fyrir að hann hafi verið að meina árið 2014, en við erum einmitt stödd í desember árið 2014. Hann sagði þar einnig að skapandi greinar hefðu alla möguleika á að verða ein af meginstoðum íslensks atvinnulífs. Það er alveg rétt. Þær eru nú þegar ein af meginstoðum íslensks atvinnulífs, hafa ekki bara möguleika til þess heldur eru það og velta jafn miklu og áliðnaðurinn svo að dæmi sé tekið.

Ég hef lagt fram fyrirspurn, lagði hana raunar fram í október, virðulegi forseti, um stöðu þessarar sóknaráætlunar. Svör hafa ekki borist. Ég spyr því enn einu sinni um viðbótarframlög í þessa sjóði, sem vissulega er gott að fá viðbótarframlög í en duga engan veginn til að teljast einhverjar mótvægisaðgerðir gegn því að leggja aukna skatta á bækur og tónlist. Ég spyr bara: Hvar er sóknaráætlunin? Hvar er sóknaráætlunin sem átti að koma á nýju ári? Ég veit alla vega hvar hún er ekki. Hún er ekki í þessu fjárlagafrumvarpi, það er algjörlega á hreinu.

Ég verð líka að nota minn litla tíma hér til að ræða aðeins Ríkisútvarpið, sem nánast allir hv. þingmenn hafa gert að umtalsefni. Af því að við erum alltaf að skrifa söguna held ég að mikilvægt sé að sögunni sé haldið til haga. Menn hafa farið með ýmislegt hér um þau mál og því rétt að rifja upp að Ríkisútvarpið var opinber stofnun allt til ársins 2007 þegar því var breytt í opinbert hlutafélag. Þá var gjaldtöku í kringum Ríkisútvarpið líka breytt og hætt að innheimta afnotagjöld og útvarpsgjaldið, eins og við þekkjum það núna, fyrst innleitt árið 2008. Sú breyting var auðvitað mjög umdeild og ég ætla ekki að fara í að rifja upp alla þá sögu sem talsvert var deilt um hér í þingsölum. En útvarpsgjaldið átti frá upphafi að renna óskert til Ríkisútvarpsins ohf.

Eins og ég sagði var sú breyting umdeild en þó ber að líta til þess að það að hafa almannaútvörp eða þjóðarútvörp sem opinber hlutafélög tíðkast víða, til að mynda í Noregi og Svíþjóð, þannig að þegar ég tók við embætti menntamálaráðherra, þó að ég hefði verið á móti breytingunni, þá spólaði ég ekki til baka, virðulegur forseti, heldur horfði fremur til þess hvernig hægt væri að byggja upp á því formi sem fyrrverandi meiri hluti hefði komist að að væri æskilegastur.

Síðan gerist það að hér verður hrun, sem helst má ekki ræða, og þáverandi ríkisstjórn grípur til þess ráðs að taka þessa mörkun á tekjustofninum úr sambandi haustið 2008. Það var eðlileg ráðstöfun á þeim tíma. Þó að ég telji að útvarpsgjaldið eigi að vera markaður tekjustofn fyrir Ríkisútvarpið má líka til sanns vegar færa að á þeim tíma var ákveðið efnahagslegt neyðarástand á Íslandi og ráðist var í niðurskurð á öllum sviðum samfélagsins og eðlilegt að Ríkisútvarpið væri hluti af þeim aðgerðum.

Þegar lög um Ríkisútvarpið voru samþykkt vorið 2013 með atkvæðum þingmanna úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokknum var samþykkt að þeirri mörkun yrði komið aftur á. Þá ákvörðun byggðum við meðal annars á því að hafa kynnt okkur slík mál hjá öðrum Evrópulöndum þar sem álit manna var samdóma um að mjög mikilvægt væri fyrir almannaútvarp að vera að einhverju leyti eins óháð og hægt væri með því að hafa fyrirsjáanlegan og sjálfstæðan tekjustofn. Þó að framlög til Ríkisútvarpsins birtist alltaf á fjárlögum ætti að vera ákveðinn fyrirsjáanleiki í því hvernig þau væru ákveðin og þau ættu þar af leiðandi að vera beintengd hinu innheimta útvarpsgjaldi.

Þetta var mjög mikilvægt skref og ég tek fram að Finnar höfðu farið þá leið að setja sitt ríkisútvarp á fjárlög og snúið við af þeirri leið af því að hún kom einmitt fram í því að framlögin voru aldrei fyrirsjáanleg, almannaútvarp Finna var stöðugt pólitískt bitbein sem er ekki ætlunin með almannaútvarpi sem á að vera grunnstoð í lýðræðislegu fjölmiðlaumhverfi, sem er ekki síst þörf á í jafn fámennu samfélagi og við búum í hér á Íslandi, 320 þús. manns, þar sem fjölmiðlaumhverfi er mjög erfitt og ótryggt og erfitt er að reka einkarekna fjölmiðla á Íslandi. Þá er almannaútvarp ekki galli í þeirri mynd heldur einmitt mikilvægt akkeri í fjölmiðlaumhverfinu.

Ég hef áhyggjur af því og deili þeim áhyggjum með stjórn Ríkisútvarpsins þar sem sitja fulltrúar tilnefndir af öllum flokkum á Alþingi, líka Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, og sendu frá sér harðorða ályktun um að það gangi hreinlega ekki að lækka útvarpsgjaldið eins og núverandi meiri hluti hyggst gera. Og ég tek undir þau orð. Það gengur ekki. Útvarpsgjaldið eins og það hefur verið núna er alls ekki hátt, það er í meðallagi í krónutölu. Ég er ekki að miða við hina frægu höfðatölu. Ef við lítum til höfðatölunnar þá er íslenska almannaútvarpið með ótrúlega lág framlög á sama tíma og við gerum gríðarlegar kröfur til almannaútvarpsins um að það standi undir hlutverki sínu. Þess vegna held ég að það sé ein mikilvægasta breytingin sem þyrfti að gera á fjárlagafrumvarpinu að hækka þessa tölu aftur, hækka útvarpsgjaldið á nýjan leik í það sem það er núna og að upphæðin renni óskert til Ríkisútvarpsins sjálfs.

Ég velti fyrir mér því skilyrði sem hv. fjárlaganefnd setur hér við aukna fjárveitingu til Ríkisútvarpsins, sem mér finnst sérkennilegt í ljósi þess að samkvæmt lögum er Ríkisútvarpið opinbert hlutafélag með sjálfstæða stjórn, sem ber ábyrgð á rekstrinum og tekur allar ákvarðanir um fjárhagsmálefni Ríkisútvarpsins. Hér er fjárlaganefnd að setja Ríkisútvarpinu ákveðin skilyrði um tiltekna endurskipulagningu. Það minnir á annað opinbert félag sem er getið um í áliti hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur, Isavia, en stjórn þess félags hefur gert verulegar athugasemdir við að meiri hluti fjárlaganefndar sé að skikka það félag til að greiða tiltekna upphæð út í arðgreiðslur. Formaður stjórnar Isavia hefur bent á að það sé hlutverk stjórnar í hlutafélagi að gera tillögur um arðgreiðslur og það sé þar af leiðandi eitt af verkefnum stjórnar Isavia. Það getur eiginlega ekki verið eðlilegt að meiri hluti fjárlaganefndar sé beinlínis að leggja stjórninni línurnar í þessum efnum. Til hvers erum við þá með opinber félög með stjórnir ef slíkar ákvarðanir eiga svo að liggja á borði einstakra þingnefnda?

Öll þessi mál, þ.e. tilhögun hinna opinberu hlutafélaga og nákvæmlega hvert hlutverk fjárlaganefndar er — ég tók nú eftir því í meirihlutaálitinu að meiri hlutinn telur mjög mikilvægt að endurskoða þurfi vinnulag við gerð fjárlaga og að skilgreina þurfi betur hlutverk nefndarinnar eftir að frumvarpið er lagt fram, ég tek bara hjartanlega undir það. Ég tel að skilgreina þurfi betur hlutverk nefndarinnar gagnvart stjórnum opinberra hlutafélaga og ég reikna með að meiri hlutinn hljóti þá að vera mér sammála um það.

Við höfum rætt talsvert mikið um heilbrigðisþjónustuna og það kemur ekki á óvart. Samkvæmt þeirri könnun sem þingflokkur Pírata lét gera, eða hvort það var bara flokkurinn sjálfur, ég veit það ekki, um hvaða málum landsmenn forgangsraði þegar kemur að fjárlögum kemur fram að heilbrigðisþjónustan er þar á toppnum hjá fylgismönnum allra flokka þvert á kynslóðir og landshluta, og þar er auðvitað mikið undir. Við í minni hlutanum höfum bent á að það aukaframlag sem meiri hlutinn leggur til í Landspítalann dugir ekki til að mæta rekstrarþörf spítalans. Á það hefur verið bent af forstjóra spítalans að það dugi ekki minna en 1,2 milljarðar eigi spítalinn að standa undir nauðsynlegustu verkefnum. Því leggjum við til viðbótarframlag upp á 200 milljónir umfram þann milljarð sem meiri hlutinn leggur til.

Það er margt annað sem vekur mér áhyggjur í þessum málum. Það er auðvitað læknaverkfallið sem hér hefur verið til umræðu, ég ætla ekki sérstaklega að ræða það. En greiðsluþátttaka sjúklinga hefur aukist um 1,9 milljarða frá því að núverandi ríkisstjórn tók við, jókst raunar líka í tíð síðustu ríkisstjórnar, sem er áhyggjuefni að mínu viti því að við erum á góðri leið með að skilja okkur talsvert frá til að mynda öðrum Norðurlöndum þegar kemur að greiðsluþátttöku sjúklinga. Þetta er nokkuð sem ég tel einmitt að við eigum að ræða á þeim nótum. Ég trúi því ekki að það sé opinbert markmið að auka greiðsluþátttöku sjúklinga. Menn hafa rætt um að jafna greiðsluþátttöku sjúklinga. Ég segi já, en viljum við ekki jafna hana niður en ekki upp þannig að fleiri greiði minna en ekki að fleiri greiði meira?

Þetta er ágætlega rakið hér. Það hefur margt hækkað, komugjöld í heilsugæsluna hafa hækkað, hærri gjöld eru tekin fyrir heimsókn til sérfræðinga, rannsóknir eru dýrari, dýrari myndgreiningar, dýrari komur á göngudeild, meiri greiðsluþátttaka í hjálpartækjum og þjálfun, listinn er langur. Ég vek athygli á rannsókn sem Rúnar Vilhjálmsson prófessor kynnti í vor þar sem hann benti á að æ fleiri fresti því að leita sér heilbrigðisþjónustu til að komast hjá fjárútlátum og þá helst þeir sem síst mega við því. Meðalútgjöld hverrar fjölskyldu vegna heilbrigðisþjónustu hafi hækkað umtalsvert og samkvæmt rannsókninni eru um 13% líkur á að einstaklingur fresti því að leita til læknis þegar útgjöld heimilisins til heilbrigðismála eru um 1% heildarútgjalda en líkurnar á frestun fara hins vegar upp í 32% ef útgjöldin ná um 3% heildarútgjalda heimilisins. Þetta hlýtur að vera okkur öllum mikið áhyggjuefni.

Ég tel því að tillaga okkar í minni hlutanum um að spóla til baka, og af því að ég hef verið að ásaka aðra um að gera það, þá leggjum við til, að við förum markvisst í þá vinnu að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga vegna heilbrigðisþjónustu. Það ætti að vera okkar markmið. Ég held að við berum þar öll nokkra ábyrgð og við ættum að fara að víkja af þeirri leið og setja okkur það markmið að draga úr greiðsluþátttöku.

Það fer nú mjög að sneyðast um tímann. Mig langar að nefna tvö atriði. Öryrkjabandalagið hefur bent á að sú 3,5% hækkun sem er lögð til í frumvarpinu skili sér ekki út af bættum verðbólguhorfum, og vissulega eru það góð tíðindi að horfurnar séu betri. Hins vegar er þetta líklega sá hópur sem mest ætti skilið að fá hækkun. Við vitum að það er sá hópur sem á erfiðast með að ná endum saman ef skoðuð eru gögn um fátækt á Íslandi, þannig að það er eiginlega kaldhæðnislegt að í ljósi betri stöðu, getum við sagt, og minni verðbólgu þá sé í raun og veru slegið á væntingar öryrkja um að fá þessa 3,5% hækkun. Ég hefði talið það málefnalegt að þetta væri tekið til sérstakrar skoðunar af því að hér er um sérstakan hóp að ræða, hvers aðstæður eru þungar.

Að lokum vil ég nefna þróunarsamvinnu. Við samþykktum hér tillögu og höfum ekki samþykkt nein ný markmið í þeim efnum síðan sú tillaga var samþykkt um að við mundum auka framlög okkar til þróunarsamvinnu sem eru mæld sem hlutfall af vergum þjóðartekjum. Sameinuðu þjóðirnar hafa sett markmið um að það hlutfall eigi að vera 0,7% og æ fleiri þjóðir eru að ná því markmiði. Þannig ákvað breska ríkisstjórnin í fyrra að hækka þessi framlög þó að þar hafi nú aldeilis gengið yfir kreppa líka, nú eru framlög Bretlands orðin 0,7%.

Hér var bent á í sérstakri umræðu sem fór fram um þetta mál í síðustu viku að Írar, sem gengu líka í gegnum mikla kreppu á sama tíma og við Íslendingar, eru með þetta hlutfall í kringum 0,49%. Þjóðir sem uppfylla 0,7% markmiðið eru meðal annarra Svíþjóð, Noregur, Lúxemborg, Danmörk og Holland. Þegar við veltum fyrir okkur Bretlandi, af því að þeir eru kannski þeir sem nýlegast hafa uppfyllt þetta markmið, þá eru þeir fyrir neðan okkur Íslendinga á lista OECD þegar mæld eru lífsgæði þjóða. Þar sitjum við Íslendingar í 11. sæti og Bretar í 12. sæti.

Þarna finnst mér við ekki standa undir því markmiði sem við höfum öll samþykkt hér, a.m.k. langflest, um að markmið Íslands sem á að vera að leggja sitt lóð á vogarskálarnar í að berjast gegn fátækt og fyrir bættum lífskjörum, að við uppfyllum ekki það sem við getum kallað okkar pólitísku en ekki síður siðferðilegu skyldur sem ábyrg þjóð í samfélagi þjóðanna. Þó að krónur bætist við framlag til þróunarsamvinnu erum við enn fjær því en áður að uppfylla þetta markmið, 0,7% af vergum þjóðartekjum. Og í ljósi þess að hæstv. ráðherra hefur bent á að ekki standi til að fara mjög hratt í hækkun á þessum framlögum þá finnst mér það sorglegt, því að þetta er ekki mál sem á að mæta afgangi. Þó að þessar raddir séu ekki þær sem hafa hæst þá er ábyrgð okkar þar þung, virðulegi forseti.