144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:11]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður talaði mikið um Ríkisútvarpið. Ef þetta væri stærri þjóð undir öðrum kringumstæðum er ég ekki svo viss um að ég væri sjálfur mjög hlynntur rekstri ríkisútvarps, mér finnst það ekki endilega eðlilegur hluti af ríkisrekstri. Þó get ég ekki litið fram hjá því að við erum pínulítið land og það er alls kostar óvíst að hér sé hægt að halda uppi einhvers konar fjölmiðlamenningu án þess að það sé hreinlega samkeppni milli ríkis og einkamarkaðar.

Sömuleiðis hef ég miklar áhyggjur af því að við missum tungumálið með tímanum. Það er í raun og veru fyrir mér, í mínum huga, ein helsta réttlætingin fyrir tilvist Ríkisútvarpsins. Þá tek ég eftir því að það er sífelld barátta milli þeirra afla sem virðast beinlínis vilja eyðileggja Ríkisútvarpið, ef ekki eyðileggja það þá vissulega koma því undir sína stjórn. Ég tek eftir sífelldum átökum um Ríkisútvarpið.

Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður sjái fyrir sér að nokkurn tímann náist einhvers konar sátt (Forseti hringir.) um það hvernig eigi að haga hlutverki Ríkisútvarpsins til lengri tíma. Með til lengri tíma á ég við til áratuga.