144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:14]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Það væri óskandi að það væri ögn meiri tími í andsvörum til þess að hægt væri að ræða þetta betur. Ég er sammála hv. þingmanni og sérstaklega um að þessar tvær umræður eiga sér stað af sama fólkinu, sama fólkið gagnrýnir fjölmiðilinn og stjórnar fjárútlátum. Það eitt og sér hlýtur auðvitað að teljast hættulegt. Það er líka eitt af þeim vandamálum sem ég sé fyrir mér, það er sú staðreynd að hér á hinu háa Alþingi erum við mikið að karpa um bæði starfshætti Ríkisútvarpsins og fjármögnun. Mér þætti eðlilegra að það væri einhvers konar millistig eða einhvers konar millistjórn, eða hvaða orð sem maður á að nota, sem mér skilst að sé gert í Bretlandi gagnvart BBC.

Ég hef stundum grínast með að til séu þrjár góðar ástæður fyrir því að hafa Ríkisútvarp, B, B og C. Það er kannski eitthvað þar sem við gætum lært af hér. En hvernig fyrirkomulag gætum við haft hérlendis þannig að hægt væri að hafa þetta mátulega (Forseti hringir.) sjálfstætt og það væri þá ekki alltaf þessi ágreiningur milli fjármagnsins og þeirra hugmynda sem fólk hefur um stjórnarhætti Ríkisútvarpsins?