144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:18]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Margt áhugavert kemur fram í þessari könnun sem hv. þingmaður vísaði til sem þingflokkur Pírata lét gera. Í þessu máli held ég hins vegar að gildi það sama og ég hef gert að umtalsefni í andsvörum mínum í þessari umræðu. Ef við viljum breyta forgangsröðun í fjármálum er rétt að ræða hinn almenna lagaramma. Hv. þingmaður nefnir sérstaklega framlög til kirkjumála. Ég tel það sama gilda um þau og aðrar þær stefnumarkandi ákvarðanir sem ég hef gagnrýnt hér að séu teknar án þess að fyrir liggi lagabreytingar eða ný stefna. Ég tel ekki óeðlilegt að við ræðum stöðu kirkjunnar svo dæmi sé tekið, bæði hvað varðar fjárveitingar, en líka bara innan lagarammans. Mér finnst að sú umræða þurfi að koma áður en við tökum nokkrar ákvarðanir um breyttar fjárveitingar. Þessi skoðanakönnun er hins vegar kannski ábending um að þau mál þurfi að ræða.