144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:23]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er spurning sem er erfitt að svara á einni mínútu. Það er erfitt að leggja mat á söguna fyrr en löngu síðar. Ég held hins vegar að undanfarin sex ár og þeir atburðir sem urðu hérna haustið 2008 — þingmaðurinn nefndi orðið þjóðargjaldþrot sem ég man vel eftir að kom fyrir í jólalagi Baggalúts það árið því að hrunið skilaði sér beint inn í samfélagið, skilaði sér beint inn í alla dægurlagatexta nokkur ár á eftir — það má segja að við höfum gengið í gegnum ákveðið áfall og það er ósköp eðlilegt að vilja gleyma slíkum hlutum. Það er mannlegt að vilja gleyma hinu leiðinlega og erfiða, það gerum við öll sjálf í okkar eigin daglega lífi og það gerir þjóðin líka. En þegar sagan verður skrifuð í heild sinni úr fjarlægð held ég að við eigum eftir að fá miklu betri heildarmynd á alla þessa atburði.