144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:30]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst áhugavert hvað hv. þm. Pétur Blöndal er viss í sinni sök um að fjárlög séu yfirskipuð lögum. Ég sat málþing Lögmannafélags Íslands og Lögfræðingafélags Íslands þar sem saman voru komnir á sjötta hundrað löglærðra Íslendinga sem voru alls ekki jafn vissir í sinni sök og hv. þingmaður sem hér talar um að svona megi túlka þetta stjórnarskrárákvæði, einmitt að það sé togstreita milli þeirra skyldna sem við leggjum á stofnanir í lögum sem sé ekki sjálfgefið að fjárlög séu yfirskipuð. Ég tel hv. þingmann mjög vissan í sinni sök en get upplýst hann um að það eru ansi margir sem eru ekki svona vissir í sinni sök.

Alþingi Íslendinga samþykkti lög um Ríkisútvarpið, að fjárveitingar til þess skyldu ákvarðaðar með tilteknum hætti. Því er ekki óeðlilegt að ætla að hið sama Alþingi geti þá samþykkt fjárveitingu í eigin anda en það hefur því miður ekki gerst. Ástæður þess kunna að vera ólíkar. Við höfum rætt það talsvert hér en mér finnst afskaplega leiðinlegt hvernig Ríkisútvarpið, almannaútvarpið, hefur orðið að pólitísku bitbeini og menn eru jafnvel að ræða einhverjar meintar pólitískar (Forseti hringir.) skoðanir sem eiga að birtast í sömu setningu og þegar verið er að ræða um fjárveitingar. Ég er ekki hissa á þeirri (Forseti hringir.) nýlegu úttekt sem hér birtist á dögunum um að upplýsingafrelsi þyki hafa minnkað á Íslandi undanfarin tvö ár.