144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:41]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Rétt í upphafi ræðunnar talaði hann um aðhald og aga í ríkisfjármálum sem við heyrum mikið um hér frá þeim sem eru í stjórnarmeirihlutanum eða í meiri hluta fjárlaganefndar, þau halda mjög mikið upp á þessi orð, að það þurfi aðhald og aga í ríkisfjármálunum.

Í andsvörum fyrr í dag bar þetta aðeins á góma. Það hefur jafnvel heyrst að ef ríkisforstjórar eða forstöðumenn stofnana geti ekki haldið sig innan fjárlaga skuli þeir bara fá sér aðra vinnu. En á hinn bóginn fá stofnanirnar kannski það litla fjármuni að stofnunin getur ekki staðið undir lögbundnu hlutverki sínu. Það kemur til dæmis fram í þessari áskorun sem við fengum frá stjórn Ríkisútvarpsins um það að með þeim fjármunum sem nú lítur út fyrir að þeir fái geti þeir ekki staðið undir lögbundnum verkefnum sínum. Þá ræddum við það aðeins fyrr í dag hvort sé mikilvægara, eru það lögin um stofnunina eða eru það fjárlögin? Mig langar að heyra skoðun þingmannsins á því.