144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:43]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa spurningu. Eins og ég sagði í upphafi máls míns hefur afleiðingin af þeim verkferlum sem menn hafa fylgt í fjárlagagerðinni orðið sú að stofnanir bíða í ofvæni eftir því að fá fjárlagafrumvarp og sjá þar hver örlög þeirra eru þegar kemur að rekstargrundvelli. En svo eru þær á sama tíma með lögbundin hlutverk sem þeim er ætlað að sinna og hafa skipulagt starfsemi sína í samræmi við þá löggjöf.

Þess vegna er það því miður oft mjög oft sem maður sér að stjórnmálamenn gagnrýna stofnanir fyrir að fara ekki eftir þeim fjárheimildum sem þeir hafa en hafa síðan ekkert gert í því að breyta skilgreiningu á hlutverki stofnananna með lagabreytingum, sem er auðvitað það sem þyrfti að gera ef menn ætluðu að vera samkvæmir sjálfum sér. Þess vegna er þetta mjög réttmæt spurning sem hv. þingmaður ber hér fram.

Auðvitað ber þessum stofnunum að fara að lögbundnum skilgreiningum á hlutverki sínu og hljóta að skilgreina starfsemi sína eftir því. En þetta verður auðvitað til þess að þær geta ekki skipulagt sig til langs tíma. Þetta hefur afleiðingar á allt stofnanakerfi okkar, uppbyggingu og plön. Ég held að miklir fjármunir fari forgörðum vegna þess hvernig við birtum þessi fjárlög á hverju ári. Ég held að það sé mikill mannafli og mikill kraftur og mikil einbeiting hjá þessum stofnunum sem fer í að bregðast við, reyna að telja stjórnmálamönnum hughvarf, reyna að sannfæra kerfið, fjármálaráðuneytið, meiri hluta fjárlaganefndar um að þetta verði að breytast. Síðan eru stjórnmálamennirnir sem bera ábyrgð á þessum peningum ekki tilbúnir til að standa og bera ábyrgð á þeim breytingum sem þarf að gera vegna peningaskorts.