144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:48]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er það sem blasir við í þessum efnum. Síðast í fjáraukanum var farið fram á 380 milljónir til viðbótar til þess að bjarga því sem bjargað varð í framkvæmdum á ferðamannastöðum, þrátt fyrir að menn hefðu komið hér með mjög ákveðnar ábendingar um að þeir fjármunir sem skammtað var í verkefnið fyrir 12 mánuðum mundu ekki duga. Það er auðvitað það sem við erum að gera nú. Það er útilokað að náttúrupassinn fari í gegn hér fyrir jól. Það er útilokað að einhverjar tekjur komi inn af þessu núna á næstu mánuðum, alla vega blasir það þannig við mér. Það er engin stemning fyrir þeirri leið sem hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra lagði til. Það er ekki stemning fyrir henni, að því er virðist, í stjórnarmeirihlutanum og svo sannarlega ekki í minni hlutanum, þannig að það er ekki stuðning að fá þaðan.

Það blasir því við að menn munu reyna að bjarga því sem bjargað verður með því að koma með tillögu inn á fjáraukann á næsta ári. Það er ekki góð leið til þess að reka ríkissjóð. Það er afar vond leið að vera að slumpa til og frá eftir á og ekki verið að meta neina þörf eða gera áætlanir eða neitt slíkt. Það er mjög mikið áhyggjuefni hvernig haldið er á málum og á ekkert skylt né sameiginlegt með hugtökum á borð við aga, ábyrgð og festu, sem stjórnarliðum er svo tíðrætt um í þessum stól. Það er akkúrat þveröfugt. Þetta er mjög ábyrgðarlaust. Þetta er mjög laust í reipunum. Þrátt fyrir aðvörunarorð, þrátt fyrir að menn stafi það ofan í stjórnarmeirihlutann að þetta muni ekki fara vel eru menn ákveðnir í því að fara fram af brúninni enn einu sinni.