144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:56]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur. Fyrst varðandi það síðasta sem hann nefndi. Launaskattar eru það vitlausasta sem við leggjum á nákvæmlega núna. Við þurfum þvert á móti að styðja fyrirtæki í að fjölga starfsfólki. Aðferðin sem ríkisstjórnin er að nota, með því að halda tryggingagjaldinu háu og flytja peningana úr því annað, er að skattleggja fyrirtæki sem eru ekki að skila hagnaði. Hún hefur einhverra hluta vegna óbeit á því að fyrirtæki sem skila miklum hagnaði borgi mikið til samfélagsins. Þess vegna léttir hún sköttum af fyrirtækjunum sem eru með mesta hagnaðinn og gengu best — græða á gengisfalli krónunnar — en leggur gjöld á fyrirtæki sem eru ekki einu sinni að skila hagnaði, þekkingarfyrirtæki og mannfrek fyrirtæki.

Aðeins frekar varðandi félagslega húsnæðið því að ég held að hv. þingmaður hafi tæpt á einni hugsun þar sem skiptir máli fyrir okkur að gleyma ekki. Fjöldi ungs fólks sér ekki fram á að óbreyttu að komast út á íbúðamarkaðinn og eignast eigið húsnæði. Það kann að vera að við þurfum þess vegna að byggja enn meira af félagslegu húsnæði í byrjun. Vegna þess að þessar 15.000 íbúðir glötuðust á sínum tíma þurfum við alveg örugglega jafn mikið, aðrar 15.000 í opinberri eigu, og við þurfum jafnvel enn meira vegna aðstæðna nú.

Þá segja margir — þá heyrum við þessi andstyggilegu viðhorf, alveg eins og gagnvart fólki yfir 25 ára aldri; eins og félagsmálaráðherra sagði: Ég meina, er ekki fólk búið að fá nógu mikil tækifæri? Maður heyrir þetta varðandi félagslega húsnæðið líka: Ja, svo hangir fólk bara í þessu húsnæði. Anker Jörgensen bjó í sinni íbúð sem hann fékk ungur maður, fátækur ungur maður, þangað til hann dó. Það var bara nákvæmlega ekkert að því. Þegar hann dó fór sú íbúð aftur til einhvers ungs manns sem ekki hafði mikið milli handanna.

Það er ekki bannað að gefa fólki tækifæri til að bæta aðstöðu sína og það á ekki að vera bannað fyrir fólk (Forseti hringir.) að afla sér menntunar, að afla sér meiri tekna og refsa því stöðugt fyrir það.