144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:30]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar. Í raun lítur málið þannig út að mismunurinn á réttindum þeirra sem fá vaxtabætur og tekjuviðmiðunin sem þær grundvallast á er það mikill miðað við það sem er í húsaleigubótakerfinu að eingöngu þeir allra tekjulægstu fá einhver réttindi til húsaleigubóta og sérstakra húsaleigubóta. Allur sá pakki sem fer í húsaleigubótakerfið gagnast afar fámennum hópi. Ef menn ætla að búa til húsnæðisbótakerfi sem á að jafna þessa stöðu þá er hugmyndin ekki sú að jafna það niður á við, heldur reyna að jafna það þannig að menn væru í sambærilegri stöðu, þ.e. leigjendur líkt og þeir sem fá vaxtabætur, að skera ekki rétt og stöðu þeirra sem voru með vaxtabætur niður í það litla sem fólk með húsaleigubætur fær.

Þar að auki hefur viðbótin inn á húsaleigumarkaðinn verið umtalsverð. Fjöldi þeirra sem eru á húsaleigumarkaði hefur aukist úr því að vera innan við fimmtungur upp í að vera hátt í þriðjungur á undanförnum árum. 400 milljónir eru í raun ekki 1/4 heldur 1/5 af því sem þarf árlega á næstu árum, ekki bara í eitt skipti heldur í nokkur ár til að jafna þennan mismun þannig að hægt verði að koma á samræmdu kerfi. Menn lögðu áherslu á það að til þess að geta látið kerfið taka gildi yrði það að gerast í áföngum og áfangarnir yrðu byggðir á því að styrkja húsaleigukerfið upp í það að nálgast vaxtabótakerfið svo að hægt væri að fella þessi kerfi saman í eitt. Það er grunnhugmyndin. Þessar 400 milljónir eru í raun og veru ekki nema lítill dropi af því sem vantar inn í þetta verkefni.