144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:37]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar. Eins og ég nefndi áðan er í raun um það stórt mál að ræða að eðlilegt er að innleiða það í áföngum og gera það með þeim hætti að styrkja húsaleigubótagrunninn með því að lyfta þessari tekjuviðmiðun sem er það lág í dag að fólk sem er með miðlungstekjur og jafnvel vel undir miðlungstekjum fær engan rétt til húsaleigubóta. Það eru nánast eingöngu þeir sem eru á lágmarkstekjum sem fá réttinn. Auðvitað munar verulega um þann stuðning sem almennar húsaleigubætur og sértækar eru í þeim efnum. Mig minnir að staðreyndin sé sú að rétt liðlega fjórðungur þeirra sem er á húsaleigumarkaði eigi einhvern alvöru rétt til húsaleigubóta. Þetta eru stór reikningsdæmi.

Eins og ég nefndi áðan skiptir máli að lyfta þessu þaki og þá þarf meiri pening í húsaleigukerfið, en að sama skapi voru menn auðvitað búnir að sjá það og reikna út að með bættri stöðu íbúðaeigenda og þeirri styrkingu sem hefur orðið í efnahagslífinu og lægri vöxtum og öðru væri minni þörf fyrir allar þær vaxtabætur sem voru í kerfinu áður.

Þannig að þetta gæti leyst af sjálfu sér að stórum hluta með tilfærslu úr því sem áður fór í vaxtabætur í það að lyfta upp húsaleigubótunum og gera þetta að einu samræmdu húsnæðisbótakerfi.