144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:47]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heyri að hv. þingmaður hefur nákvæmlega sama skilning á þessum málum og ég hef. Það er staðreynd að samgöngumál eru kjaramál í margvíslegum skilningi. Einstaklingur sem ekki hefur yfir einkabifreið að ráða þarf að reiða sig algerlega á almenningssamgöngur. Það má segja að fjárframlagið sem sett var til almenningssamgangna á síðasta kjörtímabili hafi falið í sér ákveðna kerfisbreytingu. Íslendingar eru að átta sig á því að þeir eru að verða stórir og við verðum að grípa til annarra og nýrra lausna, almannalausna, í stað þeirra einkalausna sem við höfum búið við.

Ég fagna því að hv. þingmaður skuli hafa sama skilning á þessum málum og ég. Þar með hljótum við að vera sammála um að þessi svik við þá samninga sem gerðir hafa verið eru mjög ámælisverð og mikilvægt að þetta (Forseti hringir.) verði endurskoðað áður en fjárlagafrumvarpið verður endanlega afgreitt.