144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[23:22]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég spyr vegna þess að þetta eru raunverulegar áhyggjur. Við höfum reynslu af því að það er í gangi vinna á vegum heilbrigðisráðherra um útfærslu greiðsluþátttökukerfisins um lyf yfir á heilbrigðisþjónustu. Grunnhugmyndin þar felur í sér að það verði þá innheimt gjald fyrir spítalaþjónustu með sama hætti og heilbrigðisþjónustu sem veitt er af sérgreinalæknum.

Það er hins vegar óframkvæmanleg hugmynd, því að hvernig á þá t.d. að hvetja fólk til þess að nota heilsugæslu frekar en að fara til sérgreinalækna ef það er sama viðmiðið sem á að gilda og allir eiga að borga raunkostnað af hverri einustu heimsókn? Ég hef af þessu áhyggjur vegna þess að við fáum, eins og hv. þingmaður segir, frekar lítið að sjá á spilin hjá ríkisstjórninni. Skref af þessum toga, getur hún kannski útfært betur hætturnar sem hún sér því samfara, (Forseti hringir.) ef við stöndum frammi fyrir þessari breytingu jafnvel núna á vormissiri?