144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[23:29]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég og hv. þingmaður erum báðar aðilar að breytingartillögum við fjárlagafrumvarpið þó að það sé ekki í okkar nafni heldur flokkssystra okkar. Þar leggjum við til að hætt verði við að skera niður þetta framlag upp á 56 millj. kr., úrræði fyrir þolendur kynferðisofbeldis, sem þingmaðurinn benti á að beindist ekki síst gegn börnum. Nú á að taka 56 millj. kr. sem nýttar hafa verið hjá ríkissaksóknara, ríkislögreglustjóra, lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum og í ýmsum löggæslu- og öryggismálum, og skera niður framlagið. Hluti af þessum fjármunum tengdust Evrópuráðsverkefni og að hluta til voru þetta fjármunir sem fyrri ríkisstjórn setti inn á fjárlög vegna áherslna sinna í þessum málum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Er ekki hægt að túlka þetta sem svo að núverandi stjórnarmeirihluta sé (Forseti hringir.) nokk sama um þennan málaflokk?