144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

breyting á ríkisstjórn.

[10:34]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Á ríkisráðsfundi sem haldinn var á Bessastöðum í gær, 4. desember 2014, féllst forseti Íslands á tillögu mína um breytingar á ríkisstjórn þannig að Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra fengi lausn frá ráðherrastörfum en í stað hennar yrði skipuð sem nýr innanríkisráðherra Ólöf Nordal. Í tillögu minni fólst jafnframt að embætti dómsmálaráðherra yrði lagt niður og stjórnarmálefni sem falin voru dómsmálaráðherra með úrskurði 26. ágúst sl. yrðu á ný færð undir innanríkisráðherra.

Þetta vildi ég tilkynna hv. Alþingi. Ég vil við þetta tækifæri færa fráfarandi innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þakkir fyrir störf hennar í ríkisstjórn, frá því að hún var mynduð í maí í fyrra og þar til í gær. Ég óska henni velfarnaðar í mikilvægum verkefnum á vettvangi Alþingis. Sömuleiðis býð ég nýjan innanríkisráðherra velkominn til starfa og hlakka til samstarfs við hana.