144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:29]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka svörin, bæði frá virðulegum forseta og sömuleiðis þingmanninum, þó svo ég haldi áfram og lýsi vonbrigðum mínum yfir því að fólk sé ekki á staðnum til að taka þátt í því starfi sem á að fara fram hér. Ég beini því til forseta að finna lausn á því.

Hv. þingmaður talaði svolítið um stóru millifærsluna svokölluðu eða skuldaniðurfellinguna eins og við könnumst við hana. Ég tók eftir því að þingmaðurinn nefndi að við værum ekki með neina greiningu á því hver fengi hvað og hver borgaði á endanum. Um það er ég henni hjartanlega sammála. Í því sambandi vil ég spyrja hana nánar út í það hvernig við veltum vanda samtímans á undan okkur og hver muni á endanum borga.