144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:37]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er akkúrat málið. Mér finnst að þessi hópur eigi að njóta batnandi stöðu ríkissjóðs umfram aðra.

Það er líka í stefnu ríkisstjórnarinnar, með leyfi forseta:

„Skerðingar á frítekjumarki vegna atvinnutekna og fjármagnstekna aldraðra og öryrkja sem tóku gildi árið 2009 verða afturkallaðar.“

Það er ekki að sjá í þessum fjárlögum eða viðbótartillögum meiri hlutans, en eins og kunnugt er höfum við lagt áherslu á það.

Mig langar í lokin að lesa upp af því þingmaðurinn talaði mikið um vinnumarkaðsúrræði því að það kemur líka fram í stefnu ríkisstjórnarinnar:

„Unnið verður að víðtækri sátt við aðila vinnumarkaðarins um þróun vinnumarkaðar og uppbyggingu til framtíðar.“

Sú sátt virðist nú ekki alveg vera hér á ferð.

Getur þingmaðurinn verið sammála mér um að niðurskurðurinn í atvinnuleysistímabilinu verði þess valdandi að það færist á milli almannatrygginga (Forseti hringir.) í formi t.d. endurhæfingarlífeyris- og (Forseti hringir.) barnalífeyrisgreiðslna?