144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:18]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Stjórnmálaályktun 41. landsfundar Sjálfstæðisflokksins var alveg skýr um að leggja ætti skattfé fyrst í þau verkefni sem eru brýn og áríðandi og var öryggi heilbrigðisþjónustunnar fyrst nefnt í því sambandi. Við stöndum í fyrsta skipti frammi fyrir verkfalli lækna. Við stöndum í alvöru frammi fyrir því, eftir mikla manneklu og mikið vinnuálag hjá þeim læknum sem eru til staðar, að ef þeir læknar sem segjast núna ætla að segja upp störfum sínum ef ekki verður samið fyrir áramót þá leggst vinnuálag þeirra lækna sem hætta á þá sem eftir eru sem eru þá líklegri til þess að hætta líka. Við stöndum frammi fyrir því. Starfandi landlæknir sagði mér nýlega að ef þessi verkföll mundu halda áfram inn í næsta ár og önnur verkfallslota yrði þá værum við að öllum líkindum komin í ákveðinn spíral. Hann sagði að við gætum verið komin þegar í vissan spíral.

Þetta hlýtur því að vera brýnasta verkefnið. Ef ég væri kjósandi Sjálfstæðisflokksins — ég vil taka fram að 90% af kjósendum Sjálfstæðisflokksins sögðust í könnun sem Capacent Gallup gerði nýlega, vilja setja heilbrigðiskerfið í 1. eða 2. sæti. Næst kom menntakerfi með 44%. Það var reyndar afstaða 90% kjósenda allra flokka.

Það er klárlega gríðarlega mikill meirihlutavilji fyrir því að forgangsraða í þágu heilbrigðiskerfisins. Brýna verkefnið núna er að missa ekki mannauðinn sem báðir stjórnarflokkarnir sögðu fyrir kosningar að væri það mikilvægasta, það verðmætasta í heilbrigðiskerfinu.

Þó við höfum í raun ekki fjárveitingavaldið, vegna þess að meiri hlutinn og svo aftur minni hlutinn af meiri hlutanum og svo framvegis sem hefur fjárveitingavaldið, getum við samt tekið jólafríið af þessum mönnum. Læknar fá margir hverjir ekkert jólafrí. Þeir þurfa að vera á vöktum og missa af samveru með fjölskyldu sinni alla vega annað hvert ár. Ég held við séum ekkert of góð til að vinna í jólafríinu. Við (Forseti hringir.) eigum að hafa jólafrí frá 12. desember til 19. janúar. Það eru 40 dagar.