144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:21]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar hv. þingmaður las upp úr stefnuyfirlýsingu Sjálfstæðisflokksins í upphafi máls síns þar sem sagði að við ættum að leggja skattfé í heilbrigðiskerfið, hitti hann naglann á höfuðið, því að ef við ætlum að leggja skattfé í eitthvað verðum við líka að afla þess. Það er dálítið auðvelt að segja: „Það eru ekki til neinir peningar til að deila út“, ef við höfum ekki sótt þá. Til þess að afla þessa skattfjár og við gerum það ekki með því að leggja af auðlegðarskatt eða veiðigjöld, þar er einmitt skattfé sem við getum aflað og ráðstafað því svo aftur í heilbrigðiskerfinu. Hér hef ég reyndar ekkert í ræðu minni minnst á stóru millifærsluna, þ.e. niðurgreiðslu húsnæðisskulda. Þar er líka verið að nota skattfé sem hægt væri að nýta með öðrum hætti.

Skoðanakönnun Pírata, sem ég þakka ykkur kærlega fyrir að hafa látið gera, sýnir svo vel að Íslendingar vilja styrkja innviðina. Þeir vilja styrkja samfélagið. Þangað þeir vilja setja peningana. Það eigum við að gera.

Varðandi jólafríið, ég veit það ekki, ég er frekar ný á þessum vinnustað, en … (JÞÓ: Ertu ekki tilbúin að vinna yfir jólin?) Jú, en mér hefur sýnst að þó svo að ekki sé fundað í þingsal séu þingmenn nú iðulega að vinna engu að síður. Það er spurning … (JÞÓ: Ertu tilbúin að vinna yfir jólafríið ef það þarf?) Ef þess þarf (Forseti hringir.) þá göngum við í það verkefni. Auðvitað reynum við að leysa þetta mál. En ég er ekki viss um að það sé endilega best að við tölum hér (Forseti hringir.) á aðfangadagskvöld, en við höldum áfram að tala um þetta mál. (Forseti hringir.) Við höldum áfram að vekja athygli á því úti í samfélaginu. Við höldum áfram að tala um það þangað til ríkisstjórnin fer að hlusta á (Forseti hringir.) okkur.