144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:23]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrir þá áherslu sem hún lagði í ræðu sinni á það sem ég held að sé kjarni málsins, að fjárlagafrumvarpið sýni náttúrlega hina pólitísku stefnu og pólitísku áherslur sem ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn leggur fyrir okkur öll í landinu. Staðreyndin er einfaldlega sú að þessi ríkisstjórn er að breyta kúrsinum frá því sem reynt var að gera við þröngan kost á síðasta kjörtímabili. Álögur eru lækkaðar á þá sem eiga hugsanlega fyrir þeim og hækkaðar á þá sem eiga örugglega ekki fyrir þeim.

Mig langar að nefna eitt við hv. þingmann. Hún kom inn á lyfjakostnaðinn og breytingarnar á svokölluðum S-merktum lyfjum sem eru dýr sérhæfð lyf sem fólk kemst ekki af án. Það vakti athygli mína þegar ég byrjaði að vinna í heilbrigðiskerfinu árið 2001 hvað heilbrigðiskerfið var í rauninni gott fyrir þá sem voru mikið veikir og fengu lyf, dýr lyf, og þurftu ekki að borga fyrir þau. Nú er verið að færa sig yfir í það að breyta þessu. Það hefur verið sagt í mín eyru að þetta skipti ekki máli vegna þess að fólk sem þurfi að taka þessi lyf sé yfirleitt á einhverjum öðrum lyfjum, í rauninni breyti þetta litlu af því að það er eitthvert hámark á greiðsluþátttökunni. Sjálfri finnst mér þessi röksemd ekki standast skoðun en ég spyr þingmanninn um hennar skoðun á því.