144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:26]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það að heilbrigðiskerfið hefur sinnt mjög veiku fólki alveg gríðarlega vel. Við höfum haft, og höfum held ég enn, heilbrigðisþjónustu sem er alveg í heimsklassa, en það er hætta á að nú fari að molna undan. Ég held að eitt af því sem er þarna í mulningsvélinni, ef svo má að orði komast, sé kostnaðarhlutdeild í S-merktu lyfjunum.

Um þá röksemd sem stundum hefur verið notuð, að þetta skipti ekki máli vegna þess að sjúklingar eru hvort sem er að borga fyrir hin lyfin og þess vegna komnir upp í þakið, hef ég eiginlega tvennt að segja, jafnvel þrennt. Mögulega er staðan sú með einhverja en örugglega alls ekki alla. Það mun örugglega bætast við einhver hópur sem er eingöngu að taka S-merkt lyf og ekki önnur lyf, þar með er þetta klárlega nýr kostnaður fyrir þá einstaklinga.

Það væri mjög áhugavert að fá almennilega greiningu á þessum hópi, hverjir það eru sem nota S-merkt lyf, hvers vegna og hvernig það skiptist, hvernig lyfjanotkun þeirra er.

Hins vegar er það svo það að í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að ríkissjóður ætlar sér að spara 305 milljónir með þessari aðgerð, þannig að það hljóta að vera einhverjir sem borga þessar 305 milljónir einhvers staðar á endanum. Ég er ansi hrædd um að það séu notendur lyfjanna.

Svo burt séð frá öllum þessum kostnaðartölum finnst mér þetta röng pólitík. Lyfin eiga að vera hluti af heilbrigðiskerfinu sem við borgum fyrir úr okkar sameiginlegu sjóðum.