144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:31]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu á að vinna þessi mál hratt. Við eigum að líta til þess kostnaðar sem fellur á ríkið ef það hefur verið að draga vinnuna við þessi mál, því að þetta er mikill kostnaður og fjármununum væri svo sannarlega betur veitt í til dæmis, og þá samt í þessum málaflokki, að hjálpa flóttamönnum sem hingað koma, oft úr mjög erfiðum aðstæðum. Þannig að svo sannarlega eigum við að reyna að vinna þessi mál hratt. Ég er því algerlega fylgjandi en vil leggja á það ríka áherslu að það má samt ekki gera á þann hátt að það verði til þess að hælisumsækjendur fái ekki jafn vandaða meðferð og skoðun sinna mála og þarf. Ég hef í alvörunni áhyggjur af því að ef við förum að horfa um of á tímann sem þetta tekur og kostnaðinn sem ríkissjóður ber af þessu geti það orðið til þess, ef illa er staðið að málum, að fólki verði ýtt í burtu, sér í lagi þegar stefna ríkisins er sú að hafa hér mjög stífar takmarkanir á því hvaða fólki við veitum hæli. Þegar þetta tvennt fer saman held ég að við getum verið komin út á ansi hættulega braut. Hins vegar í samfélagi sem tekur vel á móti hælisleitendum og veitir þeim hæli hérna, þá held ég að það sé mjög gott að þetta gangi hratt og örugglega fyrir sig.