144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:33]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir flutti ágæta ræðu áðan og beindi orðum sínum til mín út í þingsal, og ég var að velta því fyrir mér að fara í andsvar. Hún hafði áhyggjur af því að við værum að stefna í ranga átt með þessum fjárlögum og bað okkur að taka þetta aðeins til okkar og velta því fyrir okkur hvort við værum að sveigja af réttri braut. Ég er ekki sammála hv. þingmanni eins og gefur að skilja. Mér finnst við vera á réttri braut með svo margt. Auðvitað mundi maður vilja sjá ýmislegt aðeins öðruvísi en þegar maður lítur á stóru hagtölurnar, hagvöxtinn, verðbólguna má sjá að við erum að þokast upp á við. Hagvöxturinn er ágætur, 3–4%. Verðbólgan er lág, í kringum 1%, og það þýðir að við erum að ná þeim nauðsynlega stöðugleika sem við þurfum að hafa hér á landi. Kaupmáttur launa hefur aukist. Við stöndum frammi fyrir því núna að við verðum held ég að viðurkenna að við erum á réttri leið með svo margt. Það er það sem skiptir máli. Því miður hefur okkur kannski ekki tekist að vinna endanlega úr afleiðingum hrunsins, ekkert svo sem frekar en síðasta ríkisstjórn þó að hún hafi vissulega reynt sitt besta.

Mig langar aðeins að rifja upp hvernig staðan var. Árið 2009 lagði fjármálaráðuneytið fram áætlun um ríkisbúskap fyrir árin 2009–2013. Því plaggi til grundvallar var lögð fram spá um hvað væri raunhæft að Íslendingar gætu gert varðandi hagvöxt og verðbólgu. Þar voru jafnvel svartsýnustu menn á því að við gætum náð um 3% hagvexti um mitt síðasta kjörtímabil og við gætum náð að lækka verðbólguna gríðarlega mikið. Þau markmið tókust ekki hjá síðustu ríkisstjórn, því miður. Það fóru um það bil tvö ár í að ræða á Alþingi hið svokallaða Icesave-mál. Ég held að við verðum að minnast á það vegna þess að ef það hefði verið samþykkt, eins og ríkisstjórnin gerði ítrekaðar tilraunir til á síðasta kjörtímabili, værum við ekki að horfa upp á þann gríðarlega afgang á ríkissjóði sem er þó raunin núna. Hugsið ykkur, ef ríkisstjórnin hefði haft það í gegn með góðu eða illu að álögur á almenning mundu aukast vegna þess að ríkið átti að taka á sig skuldir útrásarvíkinga og hinna föllnu banka, einkafyrirtækja. Sem betur fer fór þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það var fullyrt að þjóðin mundi ekki skilja málið, fullyrt að það væri of flókið, en þjóðin sagði sína meiningu. Hún var ekki reiðubúin að taka á sig þær skuldir sem var stofnað til í einkabönkum í einkaeigu og neitaði. Engu að síður var reynt aftur og reynt að semja, og hvað gerist svo fyrir rest? EFTA-dómstóllinn segir: Nei, að sjálfsögðu ekki. Fullnaðarsigur Íslands. Ég held að það sé ágætt að við förum aðeins yfir þetta, ég hef ekki heyrt neinn gera það að nokkru ráði, en þetta skiptir gríðarlega miklu máli þegar við erum að horfa á þann góða árangur sem er að nást.

Ég held að það sé líka allt í lagi að rifja upp gríðarlegan niðurskurð í heilbrigðismálum á síðasta kjörtímabili, gríðarlegan niðurskurð. Það komu tillögur um að skera niður heilbrigðisstofnanir úti á landi um 30–40%, (Gripið fram í.) hugsið ykkur. Og það voru borgarafundir og það voru mótmæli. Fólk tók höndum saman til þess að vernda stofnanir sínar. Þarna er kannski hinn undirliggjandi vandi sem við erum að glíma við í heilbrigðiskerfinu. Sem betur fer höfum við náð að bæta aðeins í, þó að flest okkar mundum svo sannarlega vilja gera betur.

Þá vil ég koma að því sem stendur í áliti meiri hlutans um það sem er held ég einhver stærsta vá okkar, það er að huga ekki að lýðheilsunni, lýðheilsu barna og ungmenna. Eftir um tíu ár mun Íslendingum eldri en 67 ára fjölga um 50%. Hver einstaklingur eldri en 65 ára er fjórum sinnum dýrari í heilbrigðiskerfinu en þeir sem yngri eru. OECD hefur bent á þetta og alþjóðlegar stofnanir. Þessi umræða fer núna fram á Norðurlöndunum. Allir horfa upp á stóraukinn kostnað til heilbrigðismála. Ég styð hæstv. heilbrigðisráðherra, finnst hann vera á réttri leið með mjög margt í annars mjög erfiðum málaflokki.

Nú sjáum við að tekjurnar aukast annað árið í röð og það stefnir í hallalausan ríkisrekstur. Við höfum notað tekjuaukninguna til að auka framlög til grunnþjónustu ríkisins og lögð hefur verið áhersla á að fjáraukalög séu í anda fjárreiðulaga, og ég tek undir með meiri hlutanum, það er ánægjuleg þróun. Ég átti sæti í fjárlaganefnd á síðasta kjörtímabili og ég benti á að nauðsynlegt væri að við settum ný lög um opinber fjármál. Ég hvatti þáverandi ríkisstjórn til þess að leggja slíkt frumvarp fram. Þáverandi fjármálaráðherra kom með drög inn í fjárlaganefnd og nú hefur hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson bætt um betur og lagt þau fram. Ég held að þau séu heldur betur skref í rétta átt.

Við kynntum okkur vel hvernig Svíar haga sínum fjármálum. Þar skiptir agi öllu máli, ábyrgð og að menn eyði ekki um efni fram. Þeir hafa það líka þannig, til þess að umræðan fari ekki út í rifrildi um staðreyndir, um verðbólgu, hagvöxt og annað, að þeir leita til færustu sérfræðinga, ekki bara í háskólum þess lands, Lundi og Uppsölum, heldur líka frá Óslóarháskóla og Kaupmannahafnarháskóla til þess að fá sem víðtækasta þekkingu. Þegar búið er að fara yfir grunntölurnar liggja þær fyrir. Þeir eru með mjög sterka ramma og taka umræðuna um ramma hverra fjárlaga sérstaklega. Það eru vísbendingar í þessu frumvarpi um að það sé það sem við ætlum að gera, og það er gott. Við ræðum fyrst heildarfjármagn til hvers útgjaldaliðar, hann sé svo ákveðinn og hann haldi. Það skiptir gríðarlega miklu máli að hann haldi. Í því felst ábyrg fjármálastjórnun. Þegar við sjáum teikn í þá átt held ég að við getum leyft okkur að vera bjartsýn, það sé ráðdeild í ríkisfjármálum og verið að vinna til framtíðar. Um leið þurfum við að sjálfsögðu að gera okkur grein fyrir þeim hættum sem eru í veginum og reyna með einum eða öðrum hætti að sporna við þeim.

Það var þess vegna, virðulegi forseti, sem ég óskaði sérstaklega eftir sérstakri umræðu um lýðheilsu barna og unglinga. Gerð var skýrsla fyrir forsætisráðuneytið árið 2005 þar sem var komið inn á þennan vanda, gríðarlega vönduð og góð skýrsla. Þorgrímur Þráinsson leiddi þá vinnu og hefur verið núna í fjölmiðlum til þess að fjalla um þessi mál. Núverandi forsætisráðherra hefur skipað starfshóp sem á að fara mjög djúpt ofan í þessi mál, og það er jákvætt. Það er afskaplega jákvætt að við ætlum að hefja þessa vinnu og það eigi að taka alvarlega öll þau teikn sem eru á lofti og ábendingar frá alþjóðlegum stofnunum. Þetta skiptir máli vegna þess að við verðum að byrja á börnunum okkar, við verðum að tryggja að þau fái nauðsynlega hreyfingu og mataræði þeirra sé gott, vegna þess að þetta mun þegar fram líða stundir stórspara ríkissjóði útgjöld.

Ég hef verið þeirrar pólitísku skoðunar að við eigum að reyna að ná jafnvægi á milli tekna og útgjalda. Við eigum að sækja tekjurnar til að gera vel við þá sem minna mega sín og bæta í í heilbrigðis- og menntamál. Þess vegna fagna ég því að það er einmitt það sem verið er að gera. Ég hef heyrt í stjórnarandstöðunni, hún vill gera betur. Gott og vel. En ég fagna því líka þegar þingmenn stjórnarandstöðunnar koma fram og telja fram þá góðu þætti sem hér eru, vegna þess að þeir eru fjölmargir. Ég held að við sem lögðum ítrekað til á síðasta kjörtímabili að settir yrðu auknir fjármunir í barnabætur hljótum að vera glaðir að sjá að setja eigi um 1 milljarð í þann málaflokk. Það kemur ungu barnafólki gríðarlega vel.

Þó eru nokkrir málaflokkar sem ég mundi gjarnan vilja að yrðu skoðaðir á milli 2. og 3. umr. Mig langar sérstaklega að minnast á einn málaflokk sem ég hef meiri áhyggjur af en öðrum og það eru vegamálin, samgöngumálin. Ég er þeirrar skoðunar að þrátt fyrir að við eigum að forgangsraða í heilbrigðis- og menntamálin sé ástandið á vegum víða þannig að það muni hafa í för með sér stóraukinn kostnað fyrir ríkissjóð. Þá held ég að við verðum að horfa til Finnlands sem lenti í svipaðri kreppu og við Íslendingar fyrir um 20 árum síðan. Þeir létu vegamálin danka og hvað gerðist? Jú, kostnaðurinn varð margfaldur á við það sem hefði orðið ef þeir hefðu sett nauðsynlega fjármuni í aukið viðhald.

Það er jákvætt að verið sé að bæta í flugvellina, það er gríðarlega jákvætt. Ég hef sagt að mér hefur fundist forgangsröðun Isavia í þessum málaflokki mjög undarleg. Ég hef leyft mér að gagnrýna opinberlega sérstaklega þá afstöðu fyrirtækisins að ekki megi færa á milli millilandaflugsins og innanlandsflugsins, þ.e. að það megi ekki taka þann gríðarlega hagnað sem verður til af millilandafluginu og nota hann í uppbyggingu á flugvöllum víðs vegar um landið. Ég tel að sú fullyrðing standist ekki, ég hef heyrt það innan úr innanríkisráðuneytinu að það sé heimilt að gera þetta með svipuðum hætti og Norðmenn og Finnar. Þess vegna fagna ég því sérstaklega að fjárlaganefnd leggi til að Isavia greiði ríkissjóði 700 millj. kr. arð. Það er í rauninni verið að segja að Alþingi vilji haga þessu með öðrum hætti en forsvarsmenn fyrirtækisins hafa viljað meina að þurfi að vera. En ég hef áhyggjur af því að tímabundið 500 millj. kr. framlag fyrir uppbyggingu á flugvöllum verði unnið eftir tillögu og forgangsröðun verkefna frá Isavia. Því miður tókst ekki að leggja fram samgönguáætlun en þetta eru verkefni sem Alþingi á að ákveða. Alþingi á að taka ákvörðun um hvernig þessum fjármunum er ráðstafað. Það skiptir afskaplega miklu máli að það sé pólitísk samstaða eða meiri hluti fyrir því á Alþingi hvernig við deilum út þeim fjármunum.

Ég hef áhyggjur af flughlaðinu á Akureyri. Mig langar að fara aðeins yfir það vegna þess að mér hefur heyrst bæði í fjölmiðlum og annars staðar að það sé dálítill misskilningur á ferðinni um það hvernig þetta verkefni varð til. Á síðasta kjörtímabili stigum við þau stóru og mikilvægu skref að ráðast í gerð Vaðlaheiðarganga. Það var mikil barátta en okkur tókst það. Þetta er framkvæmd sem verður mun ódýrari fyrir ríkissjóð en ef hún færi inn á fjárlagalið eftir einhver ár, í samgönguáætlun, mun ódýrari, miklu ódýrari. Verður jafnvel þannig að ríkissjóður þurfi ekki að greiða nokkra fjármuni, við skulum vona það. En það var algjör pólitísk samstaða um það meðal þingmanna Norðausturkjördæmis að allt það efni sem kæmi við gerð ganganna skyldi notað í uppbyggingu flughlaðs á Akureyri. Eftir því hefur verið kallað, það er þörf á því að stækka það vegna þess að þar eru flugrekstraraðilar sem vilja auka millilandaflug, hugsa um að auka flug til Grænlands, vilja nýta þau miklu tækifæri sem eru á norðurslóðum. Þess vegna náðum við samstöðu um það þvert á flokka að efnið skyldi að mestu vera notað í uppbyggingu flughlaðsins. Af hverju skyldum við hafa viljað það? Jú, vegna þess að það er margfalt ódýrara fyrir ríkissjóð að nýta efnið þannig en að kaupa það annars staðar frá. Það er þrefalt ódýrara að gera það svona en ef efnið væri keypt af einkaaðila einhvers staðar. Þetta skiptir öllu máli.

Síðasta ríkisstjórn steig jákvæð skref í þessa átt þegar hún lagði til að settar yrðu um 45 millj. kr., minnir mig, í það að undirbúa planið eða þar sem flughlaðið á að vera, fyrir móttöku efnisins. Það var skýr pólitískur vilji fyrrverandi ríkisstjórnar að ráðstafa fjármunum með þeim hætti. Framkvæmdin var engu að síður dálítið ankannaleg vegna þess að fjármunirnir voru teknir úr ráðherrapotti. Þeir fóru inn í atvinnuvegaráðuneytið og svo komu kosningar og peningarnir festust þar inni. Fyrir um ári síðan var aftur pólitískur vilji til að ná þessum fjármunum út úr ráðuneytinu og leggja í framkvæmdina, þannig að bæði fyrrverandi ríkisstjórn og núverandi ríkisstjórn hafa sýnt vilja til þess að efnið verði nýtt á þennan veg. Vandamálið felst hins vegar í því að það kostar fjármuni að flytja efnið úr Vaðlaheiðargöngum, þó að þetta sé ekki langur spotti, á þennan stað og geyma það þar. Það hefur verið kallað eftir því að setja fjármagn í það, væri hægt að jafna því niður á mörg ár, þannig að við erum að tala um kannski 50 millj. kr., ekki meira, á þessu ári þannig að hægt verði að byrja að flytja efnið. Sem betur fer fengum við aðeins meiri tíma þannig lagað vegna þess að menn ákváðu að byrja að bora Fnjóskadalsmegin, þurftu að loka heitavatnsholu Eyjafjarðarmegin. Mér sýnist það allt vera í réttum farvegi. Mér finnst einhvern veginn eins og þetta hafi gleymst, mér finnst þetta hafa gleymst í meðförum fjárlaganefndar og þess vegna legg ég til að þessu fé verði bætt inn. Það hefur verið eindreginn vilji meðal allra þingmanna kjördæmisins, bæði á síðasta kjörtímabili og núna, ég hef ekki fundið neitt annað og tel mig geta fullyrt það hér — ég sé að þingmenn stjórnarandstöðunnar, sumir hverjir, kinka hér kolli, sem er mjög jákvætt. Þetta getur gjörbreytt allri aðstöðu á Akureyrarflugvelli. En einhverra hluta vegna virðist Isavia ekki hafa haft mikinn áhuga á þessu, þeir benda svo sem á að Alþingi þurfi að taka þessa ákvörðun, sem við munum að sjálfsögðu gera. Ég vonast til að þetta muni breytast.

Ég vil líka taka fram, af því að því hefur verið fleygt fram í umræðunni að það sé ekki samstaða um þetta, að þetta er forgangsatriði hjá Eyþingi, en Eyþing er heiti sambands sveitarfélaga á Norðausturlandi. Það er fullur einhugur hjá sveitarfélögum á Norðurlandi um að forgangsraða í þessa veru. Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar er með þetta í forgangi hjá sér. Akureyrarbær og sveitarfélögin öll leggja mikla áherslu á að efnið sé nýtt með þessum hætti. Ég vonast til þess, virðulegi forseti, að það myndist meiri hluti fyrir því á Alþingi að við setjum 50 millj. kr. núna í verkefnið og tryggjum með einum eða öðrum hætti að hægt sé að leggja fjármuni í þetta á komandi ári. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÓP): Nú er komið að því að þarf að gera hádegishlé. Því vill forseti beina því til þingmannsins hvort hann geri hlé á ræðu sinni og klári hana þegar fundi verður fram haldið klukkan hálftvö. Ef þingmaðurinn er sáttur við það gerum við nú hlé á fundi til klukkan hálftvö og þingmaðurinn heldur þá áfram.)