144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[13:46]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég var að fá hérna í hús fyrirspurn til Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, ég sendi þetta út til forstöðumanna heilbrigðiskerfisins um allt land, um hvað vanti upp á í fjárlögum og þeim breytingartillögum sem gerðar hafa verið í fjárlaganefnd til þess að uppfylla þau skilyrði sem forstöðumenn heilbrigðiskerfisins á Íslandi telja nauðsynleg. Það verður gerð breytingartillaga og ég mun líka senda þetta áfram á hv. þm. Höskuld Þórhallsson. Veit hann hversu mikið hefur verið komið til móts við heilbrigðiskerfið í kjördæmi hans, sér í lagi í ljósi kosningaloforða flokks hans þar sem klárlega er sagt að heilbrigðiskerfið og mannauðurinn séu í forgangi og kjósendur kjördæmis hans vilja setja heilbrigðiskerfið í forgang, kjósendur flokks hans og kjósendur allra landsmanna?