144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[13:47]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlakka til að fá niðurstöður fyrirspurnarinnar og tel afar jákvætt að hv. þingmaður leggi sig fram við að fá ítarlegar upplýsingar. Ég minntist á það í ræðu minni að niðurskurðurinn til heilbrigðisstofnana á síðasta kjörtímabili hefði verið gríðarlegur, sérstaklega í mínu kjördæmi, Norðausturkjördæmi. Okkur hefur tekist að vinda ofan af því sem miður fór þar á einn eða annan hátt, en ég tel þó að við eigum einhver skref eftir og treysti hæstv. heilbrigðisráðherra til þess að gera vel í þeim efnum. Við erum að auka framlög til Sjúkrahússins á Akureyri, til heilbrigðisstofnana og annað. Ég held að það sé jákvætt en vonandi getum við gert betur á næstu árum með batnandi afkomu ríkissjóðs.