144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[13:48]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég vona að hv. þingmaður reiði sig ekki aðeins á heilbrigðisráðherra. Hann er nú þingmaður kjördæmisins og ætti að standa fyrir því að forgangsatriði séu uppfyllt og að sérstaklega sé hlustað á forsvarsmenn heilbrigðisstofnana, sem eru þarna til þess að ráðleggja og skipuleggja starfið, ef þeir benda á að meira fé þurfi í það forgangsatriði sem heilbrigðismálin eru. Og heilbrigðismálin eru klárlega forgangsatriði allra kjósenda landsins, líka hans flokks og kjördæmisins, landsmanna allra og er kosningaloforð flokksins í heilbrigðismálum mjög fallegt. Ég ætla að lesa það fyrir hv. þingmann, með leyfi forseta:

„Við viljum leggja ríka áherslu á að verðmæti heilbrigðisþjónustunnar felast fyrst og fremst í mannauðnum og því þarf að bæta starfsumhverfi og kjör heilbrigðisstétta og draga þannig úr brotthvarfi innan stéttarinnar.“

Ríkisstjórnin er að gefa í í heilbrigðismálum, við vorum í bakkgír á síðasta kjörtímabili. En ef við erum bara að gefa í upp í fyrsta og annan gír og það þarf að fara upp í þriðja eða fjórða, eigum við þá ekki að setja það í forgang?