144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[13:51]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef þungar áhyggjur af framlagi til Ríkisútvarpsins eins og ég sagði mjög skýrt í ræðu minni áðan. Já, ég tel að það sé einhver von um að við náum að bæta í þennan málaflokk. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki kynnt mér nægilega tillögur minni hlutans, ég ætla að fá ráðrúm til þess að gera það.

Ég vil þó segja: Á síðasta kjörtímabili ræddum við það mjög oft í fjárlaganefnd að við værum ekki með hinar svokölluðu mörkuðu tekjur — þ.e. við töldum að ekki væri rétt að allir þeir fjármunir sem væru markaðir með einum eða öðrum hætti, eins og nefskatturinn, rynnu óskiptir til þess, vegna þess að það mundi skapa gríðarlegt ójafnvægi.

Við horfum upp á það, kannski ekki hjá RÚV heldur hjá öðrum stofnunum, að á meðan verið var að skera niður hefðu aðrar fengið aukningu (Forseti hringir.) sem hefði verið ósanngjarnt. En ég skal kynna mér tillöguna áður en ég gef upp afstöðu mína til hennar.