144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[13:55]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Það vakti eftirtekt mína hér í upphafi máls hv. ræðumanns að hann fór að rifja upp gamla daga eins og sumum er títt og talaði mikið um Icesave; sagði sem svo að þær breytingar sem orðið hefðu í efnahagslífi, breytt þjóðhagsspá, hagvöxtur, væri allt út af því að Icesave hefði gufað upp.

Þá vill svo skringilega til, virðulegi forseti, að fyrsta frétt á RÚV, uppfærð kl. 12.45 segir: Stærsti hluti forgangskrafna sem greiddar verða úr þrotabúi gamla Landsbankans rennur til breska innstæðutryggingasjóðsins vegna Icesave. Það var vendipunktur í Icesavemálinu, sem margir úthúða og úthúðuðu, þegar hin svokallaða Svavars-samninganefnd samdi einmitt um að nota mætti eignir gamla Landsbankans til að fara í þetta. Þannig að mér fannst þetta kúnstugt.

Annað ætla ég að segja, virðulegi forseti: Ég trúði ekki, vegna þess að ég hef alltaf litið á hv. þingmann sem félagshyggjumann — ég ætla að biðja hann að útskýra það fyrir mér, á þeirri einu mínútu sem hann hefur nú á eftir, (Forseti hringir.) hvernig í ósköpunum hann getur sætt (Forseti hringir.) sig við þetta fjárlagafrumvarp (Forseti hringir.) sem breytir svo tekjuskiptingu í landinu.