144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:01]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans þar sem hann kom inn á ansi mörg mál, sumu var ég sammála og öðru ekki eins og gengur. Það sem mig langar aðeins að ræða hér við hv. þingmann er það að jú, hagvöxtur er að aukast og verðbólga fer lækkandi. Staðan er að batna, ég held að það mótmæli því enginn. Þá er spurningin: Hver eru næstu skref? Hvernig skiptist þetta?

Vegna þess að hv. þingmaður gerði lýðheilsu barna og unglinga að sérstöku umtalsefni sínu langar mig að spyrja hann. Í greiningu UNICEF kemur fram að fátækt barna hafi rokið úr 11% árið 2008 í 32%. Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því? Það er mjög stór partur af lýðheilsu barna að búa ekki við fátækt. Hvernig eigum við að bregðast við þessu?