144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:02]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef svo sannarlega áhyggjur af þessu. Hagur barna varð vissulega verri hér eftir bankahrunið, eins og hagur flestra Íslendinga. Við það erum við að glíma.

Hv. þingmaður spurði mig, og ég þakka fyrir spurningarnar, um næstu skref. Ég held að næsta skref sé akkúrat þetta, að við höldum ró okkar, að við sköpum hér skilyrði fyrir jöfnum, hægum, jákvæðum hagvexti og reynum með öllum tiltækum ráðum að halda verðbólgunni niðri. Það er gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir heimilin í landinu og þjóðarbúið allt.

Eins og ég sagði í ræðu minni þurfum við síðan að halda áfram að leysa úr þeim vandamálum sem eru í heilbrigðiskerfinu, vegna þess að vandamálin eru risastór. Og ef við gerum ekki neitt, eins og með lýðheilsuna sem mér fannst mjög gott að hv. þingmaður skyldi koma inn á, mun vandamálið jafnvel stækka og aukast, því miður, eins og spár gera ráð fyrir. Þess vegna (Forseti hringir.) legg ég til að við byrjum á börnunum okkar, hlúum að þeim og (Forseti hringir.) sköpum þeim góð skilyrði til uppvaxtar.