144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:57]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hlý orð hv. þingmanns. Það er mjög eðlilegt að þessarar spurningar sé spurt, ég geri það líka sjálfur. Við skulum ekki gleyma því að í aðdraganda kosninganna komu sérstaklega fulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítrekað fram og töluðu fyrir því að færa verkefni úr almannakerfinu og út á markaðinn, út til sjálfstætt starfandi sérfræðinga.

Við skulum ekki gleyma því heldur að um síðustu áramót var samið um 20% hækkun til sjálfstætt starfandi lækna. Hæstv. heilbrigðisráðherra sté hér í pontu og minnti á að hluti af þeirri hækkun væru gjöld sem læknar hefðu áður lagt á sjúklinga, reyndi að réttlæta það með þeim hætti, en þetta var hækkunin sem þá var samið um, 20%.

Maður spyr sjálfan sig (Gripið fram í: Verðtryggt.) — og verðtryggt. Maður spyr sjálfan sig: Var það til þess að gera það umhverfi eftirsóknarverðara? Þetta er spurning sem kemur upp þegar við horfum til þess að verið er að bjóða 3% (Forseti hringir.) á öðru borði.