144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:59]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það er mikið áhyggjuefni hvernig þetta er að þróast hérlendis. Ég verð að segja að mér finnst pínulítið óréttlátt — á tímabili fullkomins hruns þegar farið var í nauðsynlegan niðurskurð sem þó var engan veginn eins slæmur, þó slæmur væri, og í öðrum löndum sem fóru illa út úr hruninu — að velta allri ábyrgðinni á því hve heilbrigðiskerfið er veikt yfir á síðustu ríkisstjórn.

Er það ekki rétt — nú er þingmaðurinn með miklu meiri þingreynslu en ég — að hægt og bítandi hefur sífellt meira verið skorið niður í heilbrigðiskerfinu? Heilbrigðiskerfið var líka komið að fótum fram fyrir hrun og farið að kvarnast úr mikilvægum grunnþáttum þess. Er þetta rétt skilið hjá mér, hv. þm. Ögmundur Jónasson?