144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:47]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir einlæga og efnisríka ræðu. Ég þakka líka fyrir þann tón sem er í ræðunni hvað það varðar að berjast fyrir hagsmunum lítilmagnans og þeirra sem gjarnan verða út undan í samfélaginu. Ég þakka einnig fyrir þá skoðanakönnun sem Píratar gerðu um forgangsröðun í samfélaginu. Jafnvel þó að það hafi oft verið gert áður, eða að við höfum fengið ákveðnar vísbendingar, þá er þetta enn ein staðfestingin á því að þjóðin vill að við rekum sameiginlega öflugt heilbrigðis- og menntakerfi. Það er það sem sett er í forgang og heilbrigðiskerfið sérstaklega tiltekið.

Það sem mér fannst líka athyglisvert og skipta máli er þetta með skattana og í hvað við notum þá. Við erum alltaf að ræða um skatta og gjöld en mér hefur alltaf fundist það vanta, og ég vil heyra skoðun hv. þingmanns á því, að rætt sé um samhengið á milli skatta og útgjalda.

Ég vildi líka heyra hvað hv. þingmaður segir um það sem mér finnst vera tilhneigingin í fjárlagafrumvarpinu, með tilkomu þessarar ríkisstjórnar, þ.e. að hrósa sér af því að lækka skatta en vera í raun að auka álögur, sækja peningana annars staðar. Þar með setjum við þá sem hafa lægstu tekjurnar í verstu stöðuna, ef fólk er að borga krónutölu hvort sem er inn í háskóla, til lækna eða annars staðar. Mig langar aðeins að heyra skoðun hv. þingmanns á þessu.

Mig langar líka að nefna öryrkja og atvinnuleysisbætur. Í fjárlagafrumvarpinu voru sett inn 3,5% til hækkunar milli ár. Síðan kemur ný þjóðhagsspá og fjárlaganefnd og ríkisstjórn grípur til þess að lækka þetta niður í 3%. Þarna hefði það í fyrsta skipti í langan tíma getað orðið að atvinnuleysisbætur og örorkubætur yrðu örlítið umfram verðlag. Þannig sparar ríkisvaldið sér 500 milljónir. Takið eftir: Spara hverjum? Ríkissjóði en á kostnað öryrkja.