144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:02]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Betur sjá augu en auga. Ég skil að þeir sem lagt hafa mikla vinnu í að koma með heildarstefnumörkun séu býsna ánægðir með það og líti svo á að allir muni njóta góðs af því, en því miður verður það ekki þannig. Það hefur nú þegar komið fram að þeir sem eiga minnst munu til dæmis ekki eiga kost á því að kaupa sér ísskáp. Þeir munu þurfa að fara inn á bland.is og kaupa sér notaðan ísskáp eða fá lánaðan ísskáp hjá einhverjum ættingja. Líf er ekki hægt að setja inn í excel-skjal og það eru þessi frávik, þeir sem minnst hafa, sem ég hef mestar áhyggjur af. Ég hef áhyggjur af þeim af því að ég heyri í svo mörgum sem hafa neitað sér um að fara til læknis, sem ekki geta leyst út lyfin sín og sem lifa í angist yfir því að eiga ekki fyrir mat út mánuðinn. Mér finnst ekki alveg komið til móts við þann veruleika. En svo verð ég líka að segja, og það er svolítið mikilvægt og mér er alveg sama hvaða flokkar eru við völd, að hér erum við með heildræna stefnu meiri hlutans og þá komum við inn á það að við búum í raun ekki við fulltrúalýðræði, við búum við meirihlutalýðræði því að mjög lítið tillit er tekið til þeirra athugasemda og tillagna um breytingar frá minni hlutanum. Maður sér að þegar breytingartillögur koma inn í fjárlagaatkvæðagreiðslurnar er breytingartillögum minni hlutans nánast undantekningarlaust hafnað. Því hlýtur það að vera þannig að við erum í fótbolta þar sem vinningsliðið er alltaf meiri hlutinn. Mér finnst það galið kerfi, ég verð bara að segja alveg eins og er, því að þar endurspeglast ekki heildarhagsmunir allra heldur bara meiri hlutans.