144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:07]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Í minni fyrstu ræðu um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015, mikilvægasta frumvarp sem sett er fram hér á Alþingi og alltaf er sett fram í upphafi þings, vil ég fara yfir nokkra þætti og gera að umtalsefni ákveðna kafla og ef tími gefst til að fara aðeins yfir forsendur fjárlaga; þjóðhagsspá o.fl. sem hér er sett fram.

Ég hyggst skipta ræðu minni og ræða í fyrsta lagi um samgöngumál í víðum skilningi, sama hvort það er vegagerð, hafnarframkvæmdir, fjarskipti, innviðastyrking í byggðamálum eða öðrum. Í öðru lagi ætla ég að ræða um Landspítala – háskólasjúkrahús, bæði nýbyggingu og rekstur, svo og heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni. Í þriðja lagi ætla ég að fjalla um menntamál, málefni framhaldsskóla og háskóla og um sóknargjöld og líka ansi víðtækar heimildir sem mér sýnist vera settar inn núna, þ.e. 6. gr. heimildir sem mér finnst vera orðnar svolítið víðtækar og öðruvísi orðaðar en hefur verið undanfarið. Þetta eru þeir kaflar sem ég hyggst ræða um.

Við höfum breytt þingsköpum og samkomudagur Alþingis er ekki lengur 1. október og fjárlagafrumvarp ekki lagt fram í byrjun október heldur annan þriðjudag septembermánaðar, sem í ár var 9. september. Fjárlagafrumvarpið kemur því mjög snemma fram. Það var meðal annars gert til að þingið, hv. fjárlaganefnd og Alþingi gæti haft meiri tíma til að vinna fjárlagafrumvarp og fara í gegnum það og það yrði dýpri og betri umræða og vandaðri meðferð en í miklu hendingskasti meðan samkomudagurinn var 1. október. Þetta var til mikilla bóta þó svo að ég sjái það auðvitað og viti af því að samt sem áður hefur 2. umr. fjárlaga verið frestað í um það bil hálfan mánuð, ef ég man rétt, vegna þess að ýmsir hlutir voru ekki tilbúnir, sama hvort það var vegna vinnu ríkisstjórnar, vinnu við breytingartillögur eða hvað sem það nú var. En það verður líka að gæta sanngirni og segja að Alþingi, fjárlaganefnd og ríkisstjórn bíða eðlilega eftir þjóðhagsspá sem birt var um miðjan nóvember. Það er hlutur sem við getum alveg fjallað um og spurt okkur að, hvort þjóðhagsspá gæti ekki komið fyrr þannig að vinna mætti betur að þessu. Það er auðvitað eðlilegt að beðið sé eftir þjóðhagsspá og nauðsynlegt.

Í þeirri þjóðhagsspá sem kom fram í nóvember voru þær niðurstöður helstar að hagvöxtur er minni á fyrri hluta ársins en áætlað var. Hagvöxturinn er 2,5–3,3% á spátímanum, einkaneysla er að aukast smám saman og það kemur ekki á óvart, við sjáum það víða, og talað er um hóflegan vöxt samneyslu 2015–2018. Einnig að verðbólguhorfur hafi batnað og það er mjög jákvætt. Verðbólga er í sögulegri lægð. Það eru ýmsar ástæður fyrir því, m.a. ýmislegt sem er að gerast erlendis. Við sjáum þegar þetta er skoðað að það getur verið tímabundin lækkun á flugfargjöldum, hún vegur þungt, hin mikla lækkun á olíu á heimsmarkaði vegur líka þungt í okkar samrekstri og er í raun og veru óskiljanlegt að við skulum ekki vera farin að fá meiri lækkun á olíuverði en raun ber vitni. Það er meðal annars út af því að við á Alþingi höfum stundum tekið skattana sem renna til ríkisins af olíuvörum og fest í krónutölum en ekki tengt þá á hinn veginn. Stundum hefur það komið sér vel en stundum kemur það sér illa. Ég hugsa að það komi sér illa núna Ég leyfi mér að vitna í fjölmargar ræður á síðasta kjörtímabili hjá þeim sem nú eru í stjórnarflokkunum um nauðsyn þess að lækka álögur ríkisins á bensín og olíuvörur til að koma til móts við neytendur.

En fleiri niðurstöður komu fram í þessari þjóðhagsspá eins og þær að atvinnuleysi minnkar á meðan hagvöxtur er nægur. Atvinnuleysi er þó í kringum 4,5–5% ef ég man rétt. Afgangur er á vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd á spátímanum en hann minnkar þegar fram í sækir og viðskiptajöfnuður er um 1% af vergri landsframleiðslu. Afgangur af þjónustuviðskiptum er auðvitað það sem gerir gæfumuninn í þessu. Ef bara eru tekin vörusala og vörukaup þá eru þau nánast í jafnvægi. Eins og segir í samantekt Hagstofunnar eru helstu niðurstöður þær sem ég hef hér fjallað um, að verðbólguhorfur eru að batna og hagvöxturinn verður 2,5–3,3% á spátímanum.

Sný ég mér þá að því sem ég nefndi sem fyrsta kafla í minni ræðu sem snýr að samgöngumálum í víðu samhengi. Ég hef áður sagt það hér á Alþingi um það fjárlagafrumvarp sem nú liggur frammi, og ég mun reyna að gera betur grein fyrir því sem mér finnst ekki gott í þeim, að það hefur alltaf verið ljóst að það er enginn vandi að ná hallalausum fjárlögum með því að ganga mjög hart fram og skera niður og beita til þess bæði raunverulegum krónutöluniðurskurði eins og við sjáum víða í frumvarpinu eða einhverjum reiknikúnstum sem mér finnst t.d. vera mjög mikið um úr menntamálaráðuneytinu. Ég kem að því betur á eftir.

Hvað varðar Vegagerðina þá hafa framkvæmdir á þessum árum sem þjóðarskútan er að rétta við verið í sögulegu lágmarki. Þannig er áætlað að nýframkvæmdir eða fjárveitingar til stofnkostnaðar á áætluðu verðlagi 2014 verði rétt um 7,7 milljarðar árið 2015 á meðan þær voru um 7 milljarðar 2014, tæpir 7 árið 2013, og í sögulegu lágmarki 2012 ef tekið er mið af því sem gerðist árið 2007, en þá voru það rúmir 17 milljarðar. Framkvæmdir árið 2008, eftir að gefið var verulega í í samgönguframkvæmdum við þorskaflaniðurskurð o.fl., en það var ákvörðun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem tók við völdum eftir kosningar 2007, eru þær mestu sem hafa sést í Íslandssögunni eða rúmir 33 milljarðar kr. Það þarf ekki að fjölyrða um hvað þær framkvæmdir sem voru í gangi þá, fóru í gang og komu inn árið eftir, hafa skipt sköpum fyrir innviðastyrkingu víða um land. Við getum sagt að það sé helsta aðgerð ríkisstjórnar til að styrkja innviði og styrkja byggðir. Árið 2009 voru þetta rúmir 20 milljarðar og um 10 milljarðar árið 2010. Núna sjáum við að hagur ríkisins er að vænkast, tekjurnar að aukast. Ég hef ekki tíma til að fara nákvæmlega í gegnum það núna, hef gert það áður, en það eru bæði óreglulegar tekjur, arður af bönkum og fyrirtækjum, tekjur af Seðlabanka eða hvað það er. Samt sem áður eru framkvæmdir nú í sögulegu lágmarki.

Þjónustan í vegagerðinni hefur alltaf verið í mínus. Þrátt fyrir tilfærslu sem gerð er í fjáraukanum 2014 verður þjónustan áfram í mínus. Við skulum hafa það í huga að kröfur um þjónustu Vegagerðarinnar, sama hvort það er vetrarþjónusta eða sumarþjónusta, hafa aukist. Það eru ekki bara kröfur almennings heldur nauðsyn vegna breytts veðurfars, tökum sem dæmi að það er sjaldnar mikill snjór en meiri hálka, meiri ísing o.s.frv., sem kallar auðvitað á meiri framkvæmdir, meiri fjárveitingar til þjónustuliðarins. Það er verið að gera það örlítið hér en ekki nægjanlega. Ég tek eftir því að fjárlaganefnd sem slík ætlar að auka fjárveitingar til framkvæmda um 570 millj. kr. samkvæmt frumvarpinu, sem er virðingarvert og ég vil þakka fyrir. En er það svo að þessar 570 millj. kr. muni duga til framkvæmda? Nei, svo er ekki. Ég vil nota tækifærið sérstaklega og þakka fjárlaganefndarmanninum hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir að sitja hér í salnum vegna þess að ég veit að þetta er honum líka mikilvægt mál og hugleikið. Sá galli er á gjöf Njarðar með þessar 570 millj. kr., vegna þess að leiðréttingin er ekki nægjanleg í þjónustuliðnum í fjárauka 2014, að rúmar 300 millj. kr., jafnvel 350 af 570 millj. kr. fara strax í að borga skuld við framkvæmdaverk sem er í gangi núna. Það er mjög nýtt að Vegagerðin þurfi að beita ákvæðum í samningum til að setja greiðsluhámark á greiðslu til verktaka eins og t.d. í Norðfjarðargöngum, bara vegna þess að peningar eru ekki til. Ég spái því að af þessum 570 millj. kr. komi ekki nema 200–220 millj. kr. til nýframkvæmdaliðarins á næsta ári. Það er engan veginn nægjanlegt. Sú tilfærsla sem gerð er í fjáraukanum með því að taka af framkvæmdum við Bakka, sem voru fjármagnaðar sérstaklega í tíð síðustu ríkisstjórnar, ekki fjármagnaðar af vegafé, er tekin og sett yfir í þjónustuliðinn og verður þá væntanlega skilað 2015 þegar framkvæmdir hefjast. Þá dugar þetta framlag ekki til. Þess vegna geri ég það að umtalsefni hvernig þessir þættir koma út. Vegagerðin óskaði eftir því við sitt ráðuneyti og hafði væntingar um að viðbótarpeningurinn kæmi í vetrarþjónustuna eins og ég sagði áðan, að sá liður yrði hækkaður, en það gekk ekki eftir. Fyrrverandi innanríkisráðherra beitti sér til dæmis fyrir því að taka af framkvæmdalið nýframkvæmda, sem ég tek dæmi um, Dettifossveg í Norðausturkjördæmi. Þar var framkvæmdum frestað og sá peningur tekinn í viðhald vega með því loforði að aukið fé kæmi til þessa og yrði þá skilað inn á þennan lið. Það gengur ekki eftir. Útboð á Dettifossvegi er smákafli sem í raun og veru skiptir engu máli eða 2,5 kílómetrar niðri í Öxarfirði.

Það sem gerist í þessu dæmi með Vegagerðina er að þar vantar miklu meira fé. Þetta eru sögulega lágar upphæðir sem menn verða að horfast í augu við og hafa það í huga að þeir liðir sem ég hef gert að umtalsefni bæta ekkert í og féð er ekki nægjanlegt að mínu mati til að við getum haldið þarna áfram. Menn verða alltaf að hafa í huga reikningshaldið hjá Vegagerðinni. Það er þannig og hefur verið. Verðbólga eykur kostnað við verk en Vegagerðin fær framlagið ekki sem slíkt verðbætt þannig að það er tekið af og færist þannig til og boltinn rúllar áfram. Verk eru ekki oft skorin niður heldur tekin út, þeim frestað miðað við þau ár sem Alþingi hefur samþykkt í samgönguáætlun.

Ég hvet hv. fjárlaganefnd til að fara í gegnum þessa liði og skoða vel vegna þess að svona getur þetta ekki verið. Ég nefndi áðan innviðastyrkinguna. Efast til dæmis einhver um þau verk sem gerð voru í samgöngumálum á árunum 2007–2010? Ég tek bara dæmi úr mínum heimabæ, Héðinsfjarðargöng. Þau voru umdeild. Það voru ekki allir sammála um þau og þau kostuðu mikla peninga. En sá viðsnúningur sem hefur orðið í mínum heimabæ í framhaldi af þeim göngum er stórkostlegur. Þarna kom ríkið með framkvæmd sem það á að sjá um, framkvæmd sem mun duga næstu 100–200 ár og er til mikillar styrkingar og styrkingin kemur strax fram. Menn hefðu ekki farið af stað með þá miklu uppbyggingu sem er í ferðaþjónustu á Siglufirði ef göngin hefðu ekki komið. Það nákvæmlega sama get ég sagt um Bolungarvík og Bolungarvíkurgöng. Gott dæmi um það er að við sjáum að fasteignaverð hefur hækkað á nokkrum stöðum og gerði það árin eftir að göngin voru opnuð. Skyldi það ekki einmitt vera vegna þess að þessi innviðastyrking, samgöngubætur, skilar sér svona vel?

Við eigum nokkur verk eftir. Ég nefni til dæmis Seyðisfjörð og Fjarðarheiðargöng. Því fagna ég tillögum meiri hlutans um 70 millj. kr. sem settar eru inn til að halda áfram þeim rannsóknum sem hófust fyrir um tveimur árum á Fjarðarheiði um hvar göngin skulu liggja, hvar þau eigi að koma og hvað þau eigi að vera löng. Ég verð líka að nefna sunnanverða Vestfirði og tel mig þá vera búinn að telja upp þá þéttbýlisstaði sem búa við ófullnægjandi samgöngur árið 2014. Á sunnanverðum Vestfjörðum eru framkvæmdir í Gufudalssveit eilífðarþrætuepli, þar er sannanlegur flöskuháls, tveir hálsar reyndar en mikill flöskuháls. Sú framkvæmd þarf að koma til en ég get ekki séð miðað við fjárveitingar að nokkuð verði gert í þessu á næstu árum. Við eigum að vísu eftir að sjá samgönguáætlun sem ríkisstjórnin lagði fram í fyrra en var ekki samþykkt. Hvað gerist núna? En fjárlög marka dálítið veginn og eru auðvitað leiðandi fyrir samgönguráðherra, innanríkisráðherra, og hvað hann setur fram og þess vegna lofar þetta ekki góðu.

Hafnarframkvæmdir eru líka í sögulegu lágmarki og ekki mikið gefið í. Hafnabótasjóður fær eingöngu 107 millj. kr. samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Ef ég fer svo yfir í flugvellina vil ég fagna þeim 500 millj. kr. sem settar eru í lagfæringar á flugvöllum á tilteknum stöðum á landsbyggðinni. Jafnframt vil ég spyrja fulltrúa úr fjárlaganefnd og það eru tveir hér í salnum núna, því miður er formaður fjárlaganefndar ekki hér, um arðgreiðsluna frá Isavia sem boðuð er í tillögum nefndarinnar upp á 700 millj. kr. Einungis 500 millj. kr. er varið í tiltekna velli sem taldir eru upp á bls. 31 í nefndarálitinu. Sá listi kemur mér svolítið á óvart. Mér kemur t.d. á óvart að Húsavíkurflugvöllur skuli ekki vera þarna inni. Það er búið að tala um það í þrjú, fjögur ár að nauðsynlegt sé að efla hann, eftir að farið var að fljúga þar aftur og vegna þeirrar miklu atvinnuuppbyggingar sem á að eiga sér stað í Húsavík við Bakka á næsta ári, vonandi. Það kemur mér á óvart að ekki skuli vera settur peningur í það. Þess vegna spyr ég þá fulltrúa í fjárlaganefnd sem hér eru: Hvers vegna er ekki allri arðgreiðslunni, 700 millj. kr., úthlutað í flugvelli? Og hvers vegna eru eingöngu þessir vellir taldir þarna upp en ekki t.d. Húsavíkurvöllur og ef til vill einhverjir fleiri?

Þá að fjarskiptum. Ég vil fagna því sem kemur fram í breytingartillögum meiri hlutans, 300 millj. kr. tímabundið framlag sem sett er inn í fyrsta áfanga framkvæmda við fyrirhugaða fjarskiptaáætlun. Það er þá fjarskiptaáætlun 2 vegna þess að hún var í gangi og var til og var unnið eftir henni. Það var merkileg framkvæmd og mjög góð á erfiðleikatímum okkar, þó svo að ég verði auðvitað að segja að vegna þess að framþróunin og tæknin er svo hröð er margt af því sem gert var í byrjun orðið úrelt í dag og gengur ekki. Þess vegna er það mjög merkilegt hve mörg sveitarfélög eru að fara af stað og leggja ljósleiðara. Þarna eru sem sagt 300 millj. kr. settar inn í Fjarskiptasjóð og fagna ég því mjög.

Þá kem ég að lið sem heitir Byggðaáætlun. Í fjárlagafrumvarpinu sáum við orðið sóknaráætlun nefnt. Ég fagnaði því mjög að það stæði þar vegna þess að mér finnst það vera hálfgerð meinbægni hjá núverandi ríkisstjórn og kannski sérstaklega nokkrum af ráðherrunum að vilja helst ekki kalla hana það, það merka verk sem segja má að hafi kannski verið tilraun til að færa ákvörðunarvald meira heim í hérað. Í fjárlagafrumvarpinu voru aðeins 15 millj. kr. settar í sóknaráætlun á meðan við í fyrrverandi hæstv. ríkisstjórn árið 2013 — þá var aðeins var farið að birta til en ekki mikið í erfiðleikum ríkisins — vorum með hvorki meira né minna en 400 millj. kr. þar inni. Nú er hins vegar í breytingartillögum meiri hlutans bætt við 85 millj. kr. í sóknaráætlun. Mér sýnist að þar standi enn þá inni að þetta sé sóknaráætlun og vona ég að ríkisstjórnin hætti því að vilja ekki kalla hana það því sóknaráætlun var unnin í tíð síðustu ríkisstjórnar í þverpólitísku samstarfi, m.a. með fulltrúum sveitarfélaganna. Ég held að það sé ekkert að því að kalla þetta sóknaráætlun. En ég hef áhyggjur af því hvernig á að framkvæma hana miðað við þær upplýsingar sem ég hef frá forustumönnum menningarsamninga og samtökum sveitarfélaga á landsbyggðinni. Ég hef áhyggjur af því hvað verið er að gera í menntamálaráðuneytinu. Á sama hátt og gert var með nemendaígildin og það sem ég gerði að umtalsefni áðan, sem ég kalla reikningskúnstir í excel-skjölum, veit ég ekki nákvæmlega hvað menntamálaráðuneytið er að gera gagnvart menningarsamningunum, ég hef ekki fengið svör við því. Mér skilst að menningarsamningum, vaxtarsamningi og einhverju fleira eigi að steypa saman í einhvern einn allsherjarsamning. En þarna er sem sagt einungis bætt við 85 millj. kr. Ég óttast líka um þær 100 millj. kr. sem eru þarna inni en er að vísu fjallað um undir atvinnuvegaráðuneyti í tillögunum. Atvinnuvegaráðuneytið virðist núna að vera að fá pening sem það hefur lagt í menningarsamninga undanfarin ár í tíð síðustu ríkisstjórnar. Ég hef spurt hér á Alþingi um menningarsamningana og framkvæmd þeirra, annars vegar iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem vísaði mér á atvinnuvegaráðherra og í spurningu til atvinnuvegaráðherra var eiginlega vísað á menntamálaráðherra. Þetta er eitthvert olnbogabarn í kerfinu og veit ég ekki hvernig þau mál hafa þróast síðustu daga en ég hef verulegar áhyggjur af þessu.

Að lokum vil ég nefna eitt atriði sem tengist innviðastyrkingu og samgönguframkvæmdum, en það er niðurgreiðsla húshitunar. Í breytingartillögum meiri hlutans eru nú settar inn 70,8 millj. kr. í auknar niðurgreiðslur vegna húshitunar, og er það vegna rafhitunar sem er langdýrasti húshitunarkosturinn. Allir á Alþingi eru sammála um að húshitunarkostnað þarf að jafna. En vegna virðisaukaskattsbreytinga mun verða töluverð hækkun á þeim kostnaði. Ég hef gert það að umtalsefni og sýnt fram á það með útreikningum sem hafa verið birtir eftir nokkrum orkuveitusvæðum hvað þetta leggst þungt á íbúa í þéttbýli. Hvort þær 70,8 millj. kr. sem þarna eru settar inn dugi til veit ég ekki nákvæmlega. Ég hef ekki séð útreikninga þar að baki og ég leyfi mér stundum að efast um að það þurfi ekki hærri tölu en þetta. Ef til vill stenst þetta vegna þess að heimilin eru ekki það mörg, ég veit það ekki, en þetta er að minnsta kosti hlutur sem við verðum að skoða. Ég ætla ekki að gera þetta meira að umtalsefni núna vegna þess að í atvinnuveganefnd þar sem ég á sæti er til umfjöllunar frumvarp um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku og hefur verið ágætisvinna í nefndinni við það. Þar nefndi ég hugmyndir á síðasta fundi sem ég vonast til að nefndin og við tökum til skoðunar. Að mínu mati er eitt brýnasta atriðið í orkumálum gagnvart landsbyggðinni að jafna kostnað við húshitun. Mér finnst að allir eigi að sitja við sama borð hvað það varðar, ekki kannski að ná í það sem er allra ódýrast, hitaveituna, það gerum við kannski aldrei en að jafna kostnað í orkukerfinu, hvort sem er rafhitun eða annað í dreifbýli, það er mikilvægast.

Virðulegi forseti. Þá hef ég lokið yfirferð minni á fyrsta kafla ræðunnar sem var um vegagerð og samgöngumál, byggðamál og innviðastyrkingu. Ég legg áherslu á að betur má ef duga skal í stærsta liðnum hvað það varðar, þ.e. framlög til nýframkvæmda hjá Vegagerðinni. Ég hef nefnt þau svæði sem ég tel verða hvað verst úti. Ég tek þetta ekki í neinni áhersluröð vegna þess að það mundi togast á hjá mér hvort ég ætti að ræða fyrst um samgöngumál og byggðamál eða málefni Landspítalans sem eru mér mjög hugleikin. Þess vegna ætla ég að gera næst að umtalsefni málefni Landspítalans og heilbrigðisþjónustuna almennt.

Í tillögum meiri hluta fjárlaganefndar er gert ráð fyrir 1 milljarðs kr. viðbótarfjárveitingu til Landspítalans til að styrkja rekstrargrundvöll hans og kemur tillagan til viðbótar við 120 millj. kr. framlag sem er í frumvarpinu til styrkingar á rekstrargrunni spítalans. Þannig er viðbótarframlagið 1.120 millj. kr. Ég tel þetta ekki nægjanlegt. Það hefur komið fram í mínum þingflokki að rekstrarhalli Landspítalans sé, vegna erfiðleikaára og vegna ýmissa ófyrirsjáanlegra verkefna, 3 milljarðar og hann verði 1 milljarður á þessu ári. Þess vegna var ég mjög ósáttur við það þegar þeim halla var ekki mætt í fjáraukatillögum. Það kemur fram í tillögum okkar í minni hlutanum að setja a.m.k. milljarð í Landspítalann á þessu ári til að taka af þennan skuldaklafa. Við verðum að senda stjórnendum Landspítalans þau skilaboð að við ætlum að taka skuldahalann af og þeir eigi að geta rekið spítalann án þess að vera með áhyggjur af honum. Í tillögum okkar er líka ágætis heiðarleg greinargerð sett fram um erfiðleikaár okkar eftir hrun þegar fyrrverandi ríkisstjórn þurfti að ganga í að skera niður við spítalann eins og á svo mörgum öðrum stöðum. En það var alltaf ætlun okkar að um leið og betur áraði mundum við setja meiri pening til spítalans og rétta hallann af og gera betur ef eitthvað væri.

Ég tek eitt dæmi. Það er ágreiningur milli Sjúkratrygginga Íslands og Landspítalans. Sjúkratryggingar neita að taka þátt í einhverjum lyfjakostnaði sem ég kann ekki að segja hvaða lyf snertir, en Landspítalinn treystir sér ekki til að segja við sjúklinga sína eða lækna: Þið megið ekki nota þessi lyf vegna þess að sjúkratryggingar neita þeim. Tekur þá Landspítalinn það á sig og sjúklingar fá þessi nauðsynlegu lyf að mati lækna og enginn skal efast um að það sé rétt en Landspítalinn fær það ekki bætt þannig að þetta er fullkomlega galið.

Ég ætla aðeins að skjóta því inn að ég vil þakka þingflokki Pírata fyrir þá skoðanakönnun sem þeir fengu Gallup til að gera vegna þess að sú niðurstaða á að segja okkur alþingismönnum það sem við vissum, staðfesti það að landsmenn leggja höfuðáherslu á að við forgangsröðum í málefnum heilbrigðiskerfisins. (VigH: Það er rétt eins og ríkisstjórnin.) Það þarf að gera betur. Ég kem betur að verkfalli lækna á eftir en um reksturinn sem slíkan þurfa að koma betri skilaboð og meiri fjárveitingar út af rekstrarhallanum og út af því að kostnaður við heilbrigðiskerfið er að aukast. Þjóðin er að eldast, það eru komin dýrari lyf og við fáum líka til okkar inn á spítalann fjölmarga erlenda ferðamenn sem þurfa að fá þjónustu á Landspítalann. Landið og sérstaklega ríkissjóður græðir vel á komu erlendra ferðamanna og þá er alveg sjálfsagt og eðlilegt að Landspítalinn og heilbrigðisgeirinn í heild, ekki bara Landspítalinn heldur heilbrigðisstofnanir víða um land, fái eitthvað af þeim peningum og tillit sé tekið til þessa inn í rekstrargrunn Landspítalans.

Bygging nýs Landspítala eða endurbygging eða hvað við viljum kalla það hefur verið mér mjög hugleikin. Ég minni enn einu sinni á tímamótasamþykkt Alþingis á síðasta þingi sem var samþykkt með 58 samhljóða atkvæðum, ef ég man rétt, ályktun Alþingis til ríkisstjórnar þar sem lögð var áhersla á byggingu nýs Landspítala og að hefja framkvæmdir þar sem fyrst. Ég fagna þess vegna mjög þeirri tillögu sem hér er sett fram um 875 millj. kr. til hönnunar. Við lestur frumvarpsins kemur það þó fram að þessar 875 millj. skiptast niður. Ég hélt nefnilega fyrst að þær ættu allar að fara í hönnun á meðferðarkjarnanum og var mjög ánægður með það. En til hönnunar á meðferðarkjarnanum á næsta ári eru áætlaðar 500 millj. kr. Ég leyfi mér að efast um að sú upphæð dugi vegna þeirra ára sem við erum búin að glata, vegna þess að okkur liggur á að hefja framkvæmdir. Það hafa aðeins verið hönnuð 25% af heildarbyggingunni og okkar vantar að gefa í hvað það varðar. Ég held, miðað við þær upplýsingar sem ég hef og framreikning miðað við vísitölu, að þetta þyrftu að vera 650 millj. kr. þannig að hönnunarteymi gæti unnið af fullum krafti allt næsta ár við hönnun á meðferðarkjarnanum sem ég tel brýnasta verkefnið og fyrsta áfanga í þessari framkvæmd. Ég minni enn einu sinni á að með því að byggja meðferðarkjarnann og taka hann í notkun fjórum eða fimm árum eftir að framkvæmdir hefjast þá gætum við lokað starfseminni á Borgarspítalanum og sameinað allar þær deildir sem við rekum, tvær eða þrjár eða fjórar, undir einu þaki og einni stasjón. Það er ekki lítill ávinningur. Ég held með öðrum orðum að hinn fjárhagslegi ávinningur, sem m.a. norskt rekstrarfyrirtæki í heilbrigðisþjónustu hefur bent á, um mikinn rekstrarhagnað og hagræði við það að vera á einum stað, kæmi þá strax þarna fram.

Inni í þessum 875 millj. kr. eru líka 200 millj. kr. til hönnunar á sjúkrahóteli. Gatna- og lóðaframkvæmdir eru 120 millj. kr. og annar kostnaður 55 millj. kr. Þetta eru þær tölur sem eru á bak við 875 millj. kr. Ég fagna þessu mjög og tel að við öll hér á Alþingi getum sameinast um að samþykkja þessa tölu vegna þess að hún er algerlega í takt við samþykkt Alþingis sem ég gat um frá síðasta þingi. Við verðum að mynda samstöðu um það. Þess vegna vil ég líka nota tækifærið og hvetja hæstv. stjórnvöld til að sameinast um tillögu sem allir þingflokkar kæmu að og til að upphugsa hvernig við ætlum að fjármagna þá 45–50 milljarða kr. framkvæmd sem er bygging meðferðarkjarnans með lóðaframkvæmdum, hönnun og öllu. Þetta er framkvæmd sem má ekki taka lengur en um fjögur ár. Ég tel að hægt sé að byrja vorið 2017 og þá verði hönnun lokið og við eigum að einsetja okkur það að spítalinn verði tekinn í notkun 2020 eða ekki seinna en 2021.

Kem ég þá að því sem ég ætlaði að gera fyrr, að nefna verkfall lækna. Það er mjög alvarleg staða og ég held að samninganefnd ríkisins fyrir hönd ríkisstjórnar verði að átta sig á því að þarna verði að gefa meira fram. Þetta ófremdarástand vex og vex og verður æ alvarlegra. Því miður verð ég að nota það orð að það virðist vera eins og það sé að myndast flótti hjá læknum á Landspítalanum, þeir hætta störfum þar, fara jafnvel út og vinna í viku, tíu daga, hálfan mánuð og koma svo heim og á þeim tíma taka menn mjög ríflega það sem þeim er borgað fyrir sín störf á Íslandi. Þetta getur ekki gengið í þeirri samkeppni sem er um lækna, alveg sama hvort við lítum til Noregs eða Svíþjóðar. Þar er íslenskum læknum, hámenntuðum og góðum, tekið fegins hendi. Sífellt fleiri eru að fara. Þess vegna verður að gefa í, semja við lækna áður en vandamálið verður stærra og flóttinn meiri, biðlistarnir stærri. Þess vegna fagna ég því mjög sem er í tillögu okkar minni hlutans á Alþingi. Þar eru settar inn ef ég man rétt 250 millj. kr. sem eru hugsaðar til að vinna upphaf biðlista sem skapast hafa út af verkfallinu. Ef svona upphæð verður ekki samþykkt tekur það okkur þrjú, fjögur ár að vinna upp biðlista sem hafa skapast. Við getum tekið sem dæmi augasteinsaðgerðir, hjartaþræðingar, liðaskiptaaðgerðir o.s.frv. Allt þetta fer aftur fyrir og það er ekki hægt að hafa þriggja ára biðlista eins og t.d. í augasteinsaðgerðum, það er bara ekki hægt að bjóða upp á það á velferðarlandinu Íslandi. Og menn skulu átta sig á því að fólk getur verið svo gott sem næstum því sjónlaust en fær síðan mikla bót þegar búið er að skipta um augasteina.

Ég hafði hugsað mér að gera að umtalsefni bréf frá hámenntuðum lækni sem birtist opinberlega þegar hann sagði upp störfum á Landspítalanum. Það er mjög sláandi að lesa það og ég vona að allir alþingismenn hafi séð það og lesið vegna þess að það er mjög merkilegt sem þar kemur fram. Ef ég hefði tíma mundi ég lesa það upp, en viðkomandi læknir heitir Jón Örvar Kristinsson, og er meltingarlæknir. Hann birti uppsagnarbréf sitt og lýsti öllu þessu ástandi, lýsti því m.a. hve margir læknir á þessu sviði hefðu sagt upp undanfarin ár og hve fáir sækja um. En það alvarlegasta og sem er gott dæmi þegar við tölum um verkfall lækna og launakjör þeirra er það sem hann segir að fyrir 60% starf á Landspítalanum var hann með 358 þús. kr. í mánaðarlaun og útborguð laun um 180 þús. kr. Ég held að ég þurfi ekki segja meira úr bréfinu til rökstuðnings fyrir því að þetta getur ekki gengið.

Það má auðvitað ræða margt fleira í sambandi við heilbrigðismál. Ég hef gert að umtalsefni flaggskip okkar, höfuðstöðvar heilbrigðisþjónustu á Íslandi, Landspítalann. Hann verður alltaf að vera sem bestur með fullkomnum tækjum og öllum okkar bestu læknum hér á Íslandi til að þjóna okkur en það má auðvitað minna á ýmislegt á landsbyggðinni líka.

Virðulegi forseti. Tíminn flýgur. Ég á aðeins fimm mínútur eftir af minni ræðu og ég boðaði það að ég mundi ræða aðeins um menntamál. Ég nefndi áðan þetta fiff eða þær reiknikúnstir sem eru í menntamálaráðuneytinu í kringum nemendaígildi í nokkrum framhaldsskólum úti á landi. Sá útreikningur er algerlega út í hött að mínu mati. Og ætla sér að setja inn að 25 ára og eldri megi ekki vera í framhaldsskóla, eigi enga samleið með unglingunum sem þar eru eins og sagt er, vísa ég á bug. Ég er andvígur því vegna þess að hér á Alþingi hefur engin ákvörðun verið tekin um slíkt. Þá ákvörðun á að ræða á Alþingi og taka hana að lokinni umræðu. Þetta á ekki að verða skrifborðsvinna reiknimeistara í excel í menntamálaráðuneytinu eða menntamálaráðherra sjálfs, alls ekki. Þetta er að verða alveg sérkapítuli. Af því að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar er búin að vera hér í nokkurn tíma að hlusta á ræðu mína þá trúi ég því og treysti og hvet fjárlaganefnd til að gefa sér góðan tíma þegar hún er búin með sínar annir við fjárlagagerð að fara í gegnum þetta eftir áramót og reyna að komast til botns í þessu og sjá þá vitleysu sem þarna er og getur ekki gengið lengur. (Gripið fram í.) Við alþingismenn getum ekki tekið á okkur að fá allar skammir og geta ekki svarað fyrir okkur eða fjallað um hvað er gert í þessum reiknikúnstum og tek ég dæmi rétt á eftir um útdeilingu á fé til háskólanna. En þetta með framhaldsskólann getur ekki gengið. Þess vegna fagna ég líka þeim tillögum og áherslum sem koma fram í breytingartillögum okkar og trúi ekki öðru en þetta verði skoðað og farið vel í gegnum og bætt verði við milli umræðna.

Ég geri að lokum Háskólann á Akureyri að umtalsefni og það mikla starf þar fer fram, eitt mesta og besta byggðamál sem ráðist hefur verið í. Ég minni á að þingmenn Norðausturkjördæmis að minnsta kosti hafa fengið ályktun frá bæjarráði Akureyrar sem lýsir furðu sinni og áhyggjum af reiknikúnstum varðandi stöðu háskólanna. Ég skil ekki hvernig í ósköpunum er hægt að fá þær niðurstöður úr þessum útreikningum sem þar eru settir fram og koma fram í þeim gögnum sem ég hef vitnað í, þar sem fjallað er um skiptingu á fé til háskólanna. Eru það ekki 617 millj. kr. sem veittar eru til háskólans? Ég skil ekki hvernig hægt er að reikna það út að til Háskólans á Akureyri komi einungis 10 millj. kr. meðan einkarekinn háskóli, Háskólinn í Reykjavík, fær 250 millj. kr. (Gripið fram í.) Ég skil þetta ekki. Ég trúi því og treysti að innan fjárlaganefndar verði líka farið í gegnum þetta.

Ég ætla líka að ræða um það sem snýr að Háskólanum á Akureyri, en ég fagna því að þær 30 millj. kr. sem duttu niður fyrir ári síðan við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2014 komi inn í fjáraukann núna. Ég tel þó að laga þurfi orðalag í þeim skilgreiningum sem koma fyrir með því framlagi vegna þess að mér finnst ekki hægt að fjárlaganefnd setji inn einhverja fjarstýringu á því hvernig háskólayfirvöld á Akureyri eigi að reka sinn skóla. Ég tel að þau eigi bara að fá þessar 30 millj. kr. eða hvað það er og ráðstafa þeim, en við eigum ekki að gera það. En ég minni líka á að Háskólinn á Akureyri telur sig vanta 58 millj. kr. á fjárlögum 2015 miðað við fram lagt frumvarp til að geta haldið sinni starfsemi. Og ég ætla að segja það í lokin að Háskólinn á Akureyri stóð sig sérstaklega vel á erfiðleikaárum okkar í niðurskurði og það er aðdáunarvert hvernig stjórnendur þar stóðu sig. Þess vegna á þetta framlag að vera áfram inni til rannsóknarverkefna. Ef við viljum auka nám í heimskautarétti og gera það á hverju ári þurfum við að taka ákvörðun um að setja í það nýtt framlag. Ég minni svo á það að Háskólinn á Akureyri er í fararbroddi hvað varðar fjarkennslu og fær ekki pening fyrir það.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að ræða um sóknargjöld en tími minn er búinn. Ég hvet til þess að innan fjárlaganefndar verði skoðað það samkomulag sem gert var á síðasta kjörtímabili við kirkjuna og ég tel að við eigum að uppfylla það hiklaust. Ég tel að það sé ekki gert í fjárlagatillögunum. Ég treysti því að farið verði betur í gegnum það vegna þess að ég vil standa við það samkomulag sem gert er og alveg sérstaklega við kirkjuna.

Ég sagði í upphafi ræðu minnar að ég vildi gera að umtalsefni 6. gr. heimildir, ég teldi þær of víðtækar. Ég tel að Alþingi eigi ekki að samþykkja svo víðtæka, opna heimild til sölu eigna ríkisins eins og fram kemur heldur eigi að setja þær inn eins og var á þeim árum þegar ég var að byrja á Alþingi. Þá var sagt og ég tek t.d. sem dæmi utanríkisþjónustuna, að selja eigi sendiráð í þessari borg, punktur. (Forseti hringir.) Það á ekki að hafa þetta þannig að það sé bara hægt að gera hvað sem er. Það sama á við um 6. gr. heimild til ríkisins til að selja skólamannvirki. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég er búinn með minn tíma og heyri það á bjölluhringingu forseta og vil standa við að hætta á þessum tíma, ef ég fæ að taka saman gögnin mín og forseti hefur biðlund á meðan ég er að tína þau saman. Það getur vel verið að ég komi í aðra ræðu og ræði ýmis fjárlagamál sem ég hef ekki komist yfir.