144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:48]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristján L. Möller þekkir þær tölur, þá fjárþörf sem er til staðar í kjördæmi hans og allt annað sem varðar heilbrigðiskerfið. Það er annað en hægt er að segja um hv. þm. Höskuld Þórhallsson en ég spurði hann fyrir nokkru hvort hann vissi hver fjárþörfin væri sem talað hefði verið um af forsvarsmönnum heilbrigðiskerfisins í kjördæmi hans og hversu mikið vantaði upp á tillögur ríkisstjórnar í fjárlögum og breytingartillögur sem voru settar fram af meiri hluta fjárlaganefndar. Þetta vissi hann ekki en hv. þingmaður veit það.

Ég fékk í dag skjal frá forstjóra Sjúkrahússins á Akureyri og þar kemur einmitt fram að breytingartillögur ríkisstjórnarinnar og meiri hluta fjárlaganefndar geri ráð fyrir 50 millj. kr. viðbót í almennan rekstur. Breytingin frá því í fyrra þarf a.m.k. að vera 120 millj. kr. þannig að 55 millj. kr. vantar í viðbót í styrkingu á rekstrargrunni gangi þetta eftir. Það vantar enn verulega upp á til að ná þeim framlögum sem voru 2008.

Ég spurði líka hv. formann fjárlaganefndar, Vigdísi Hauksdóttur, um þetta. Hún var ekki með það á takteinum en hv. þingmaður og formaður nefndarinnar hlýtur að fara að taka saman þessar tölur þannig að við sjáum hver fjárþörfin er, hvað þarf til að ná þessari, og ég vitna í orð forstjórans, nauðsynlegu þjónustu á heimaslóðum. Þetta er það sem vantar upp á á spítalanum á Akureyri.

Í seinna svari mínu getum við farið yfir það sem vantar í heilbrigðiskerfið á Norðurlandi í það heila, Heilbrigðisstofnun Norðurlands. En þingmaðurinn veit þetta. Eigum við ekki að forgangsraða í heilbrigðiskerfið?