144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:03]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Möller fyrir ræðu hans sem hann notar bæði til að beina spurningum til fjárlaganefndarmeirihlutans og lýsa sjónarmiðum sínum með efnistökum. Og breytingartillagan sem þar er komin fram, ég vil bara segja það strax að að mörgu leyti fara hugmyndir okkar saman og ábendingar hans eru vel þegnar og þakkaðar hér.

En það kvikna líka spurningar undir þeirri ræðu. Fyrst vil ég spyrja — af því að hann beindi því sérstaklega til meiri hlutans varðandi Isavia og arðtöku út úr Isavia, en ef hann hefði hlustað á það sem ég tók fram í ræðu minni um fjárlagafrumvarpið, ef hann hefði heyrt hana þá hefði kannski mörgum spurningum verið svarað sem hann sló hér fram, hann hefði ekki þurft að spyrja — hvort hann sé ósammála því að við ættum að taka eða gera þessa arðsemiskröfu á Isavia og nota til viðhalds flugvalla. Ég vil jafnframt taka fram, af því að hann spurði að því beint, að þær framkvæmdir sem eru tíundaðar í greinargerð okkar eru framkvæmdir sem voru merktar árið 2014 og 2015 af Isavia sjálfu, þannig að fjárlaganefndarmeirihlutinn átti ekkert við þann forgangslista. En verði það síðan niðurstaðan að þessi arðtaka verði að veruleika þá tel ég að innanríkisráðherra taki ákvörðun og að framkvæmd á þessu áhersluatriði okkar megi raða upp með öðrum hætti.

Síðan nefndi þingmaðurinn líka forgangsröðun í samgöngumannvirkjum. Við erum sammála um sunnanverða Vestfirði en hann nefndi líka Seyðisfjarðargöng og nefndi rannsóknir á Seyðisfjarðargöngum og framkvæmdir við þau. Önnur spurning mín til þingmannsins er: Vill hann taka Seyðisfjarðargöng fram fyrir í röðinni fyrir nauðsynlegar vegaframkvæmdir til að tengja sunnan- og norðanverða Vestfirði?