144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:05]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Okkar skoðanir liggja vel saman þegar kemur að vegamálum og samgöngumálum. Fyrir það fyrsta til að svara síðustu spurningunni, nei. Ég tel svo ekki vera en ég tel að báðar þessar framkvæmdir séu það mikilvægar að þær verði að fara af stað og eiga sér stað samhliða.

Þeim vandræðagangi sem er varðandi Teigsskóg fer vonandi að ljúka og við förum að gera veginn þar samkvæmt leið, hvað heitir hún nú? Það er nefnilega þannig að við allar þær rannsóknir og skoðanir sem hafa verið gerðar er stafrófið búið, ég held því að það sé orðið B1, ef ég man rétt, og Vegagerðin hefur tekið mjög mikið tillit til þeirra athugasemda sem hafa komið út af umhverfissjónarmiðum gagnvart Teigsskógi. Þar held ég að búið sé að koma mjög mikið til móts við það að fara upp fyrir skóginn í raun og veru með 1% skerðingu á skóginum, ef ég man rétt.

Varðandi Seyðisfjörð þá nefndi ég þessa tvo staði, sunnanverða Vestfirði, Patreksfjörð, Bíldudal og Tálknafjörð, þá þéttbýlisstaði sem þar eru ásamt sveitum plús Seyðisfjörð, vegna þess að í byggðaáætlun sem við unnum á síðasta ári í atvinnuveganefnd er enn einu sinni fjallað um þá staði. Í byggðaáætlun frá síðustu ríkisstjórn var Norðfjörður þar inni. Þetta voru þeir þrír staðir sem ég taldi og held að við getum öll verið sammála um að þar séu samgöngur ekki boðlegar árið 2014. Nú getum við krossað við Norðfjarðargöng, þökk sé síðustu ríkisstjórn sem setti þá framkvæmd í gang og er á fullu og gengur vel, og þá er Norðfjörður frá. Þá eru eftir Seyðisfjörður og sunnanverðir Vestfirðir. Þegar ég gagnrýni lágar fjárveitingar til framkvæmdamála er ég meðal annars að gera það vegna þess að ég óttast að ef við kæmumst að niðurstöðu með sunnanverða Vestfirði þá hefðum við ekki fjármagn í það. Með Seyðisfjarðargöng eru eitt til tvö ár eftir eðlilega til rannsókna og hönnunar og þess vegna er gott að 70 millj. kr. eru settar þar inn til að vinna áfram að rannsóknum. Við settum 30 millj. kr. á þessu ári, ef ég man rétt, 10 millj. kr. árið 2013 þegar ákveðið var að setja þetta fram í fjárlögum sællar minningar með samþykkt sem þótti mjög merkileg.

Virðulegi forseti. Þetta hef ég viljað segja um þetta tvennt og vona að ég hafi komið því til skila að ég legg þetta jafn rétthátt en þarna er aðeins áramunur á.