144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:08]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þær áherslur sem ég hef haft um jöfnun húshitunarkostnaðar frá því ég kom inn á þing komu meðal annars fram meðan ég var í meiri hluta á síðasta kjörtímabili árið 2013, sem var í fyrsta skipti frá árinu 2003, sem settir voru inn peningar til að auka niðurgreiðslukostnaðinn. Það hafði sem sé ekki gerst í tíu ár en var gert þá og var það ekki beint ár sem mikið smjör flæddi um, en þetta var sett inn.

En hv. þingmaður spyr um þær tillögur sem settar eru hérna fram. Ég hygg að ég gæti tekið aðra ræðu um ýmislegt sem ég hefði viljað sjá í þeim tillögum til viðbótar vegna þess að það vantar svo margt, en það sem hv. þingmaður talar um snýr að því sem ég gagnrýni í fjárlagafrumvarpinu þar sem annars vegar er um beinan niðurskurð að ræða, sem ég gerði að umtalsefni, til að ná hallalausum fjárlögum og hins vegar að láta liðina liggja eins og þeir hafa verið gerðir plús það sem við ræddum um virðisaukaskattsbreytinguna og ég gerði mjög miklar athugasemdir við. Ég held að ég hafi fyrstur bent á þá miklu hækkun sem yrði á húshitun við breytinguna. Þær 70 milljónir sem settar eru inn eru vonandi skref í rétta átt. (Forseti hringir.) Vonandi duga þær en ég vil svo ekki fara út í frekari umræður vegna þess að við erum að ræða það í hv. atvinnuveganefnd og ég held að þar sé besta tillagan.