144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:50]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég talaði í dag við Ólaf Ólafsson, fyrrverandi landlækni, sem gegndi því embætti til 25 ára. Við ræddum læknaverkfallið og ástandið þar. Það sem mér kom á óvart var að þetta er í fyrsta skipti í sögu landsins sem læknar fara í verkfall. Það kom mér virkilega á óvart, maður hefur ekkert hugsað út í það. Læknar hafa bara staðið vaktina jafnvel þó að alla tíð hafi verið lægri laun hérna, lélegri aðstaða og meira vinnuálag en í Skandinavíu. Menn fóru út, lærðu, unnu og komu heim.

Fyrrverandi landlæknir, Ólafur Ólafsson, sagði mér er að hér áður fyrr hafi 80% lækna komið aftur heim. Nú koma menn ekki aftur heim eða fáir og þeir staldra stutt við og fara aftur út. Þannig er ástandið hér núna. Núna er læknaverkfall í fyrsta skipti í sögunni. Það sem mig langar til að spyrja hv. þingmann um er hvort hún sé ekki sammála 90% landsmanna um að heilbrigðiskerfið eigi að fara í forgang á þessum fjárlögum.