144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:00]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er nú ekki jafn undrandi og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson. Ég deili að mörgu leyti áhyggjum, ef ekki að öllu leyti, hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur varðandi stöðuna í Ríkisútvarpinu.

Ég er alveg opinn fyrir því að ræða það hvað Ríkisútvarpið eigi að gera eða hvort við eigum að hafa Ríkisútvarp eða þar fram eftir götunum. Mér finnst mjög mikilvægt að vera opinn fyrir því að ræða þessi mál. En við erum með þjónustusamning þarna. Við höfum ákveðið að hafa Ríkisútvarp. Það á að sinna ákveðnum skyldum. Þá finnst mér að við eigum að reyna að gera það svona þokkalega.

Ég upplifi þetta þannig núna að Ríkisútvarpið sé bara komið á þann stað að ef það fær ekki auknar fjárheimildir eða fær ekki útvarpsgjaldið einfaldlega óbreytt þá getur það ekki sinnt þessu hlutverki sínu.

Ég velti því fyrir mér sem (Forseti hringir.) beinharðri spurningu: Það er ekki deilt um upphæð útvarpsgjaldsins, það er ágætt núna, en ríkið tók hluta af því á þessu ári. Hefur þá kannski myndast skuld ríkisins við Ríkisútvarpið? Má kannski setja málið þannig fram?