144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:08]
Horfa

Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hélt að ég væri að spyrja, ekki þingmaðurinn. En ég er alveg sammála því að auðvitað hefur þetta að gera með lífskjör okkar allra og því miður er staðan sú og við vitum það bæði að við erum ekki í stakk búin, þessi þjóð í dag, til að greiða hærri laun eða miklu hærri laun en við erum að greiða, því miður, og við erum eftirbátar nágrannaþjóða okkar. Við vitum það líka.

Vandamálið í þeirri tilteknu deilu sem við ræðum um er að launakröfur lækna námu 30–40%, einhvers staðar þar á milli, og maður hlýtur að spyrja: Hvað eigum við að ganga langt til að koma til móts við þær kröfur? Hvað er eðlilegt að mati þingmannsins? Við vitum það bæði að ef gengið yrði að einhverjum slíkum kröfum þá mundi það enda mjög illa vegna þess að mjög margar starfsstéttir kæmu á eftir og það mundi í kjölfarið leiða til hærri verðbólgu, hærri lána o.s.frv.

Spurningin er þessi: Hvað getum við gengið langt?