144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:51]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, mér mundi ekki finnast það. En mér finnst líka mikilvægt að vaða ekki inn í þetta umhverfi og halda því fram að þetta sé einfalt mál. Við töluðum þannig í Bjartri framtíð að við lofuðum engu. Við töluðum í markmiðum og vorum þannig að reyna að leggja áherslu á — og við tölum enn í markmiðum — að í pólitík eins og annars staðar í lífinu þá snýst þetta um að segja hvert maður vill fara og reyna síðan, eftir öllum þeim leiðum, í þessu umhverfi þar sem er fullt af ólíkum skoðunum, að reyna að ná samstöðu um að reyna að komast þangað.

Maður þurfti að hafa skilning á því eftir efnahagshrunið að það þurfti að skera niður og ég var fullur aðdáunar og fylgdist vel með Landspítalanum á þessum tíma og því hvernig fólk glímdi við þetta þar. Ég skynjaði það svolítið þannig að menn væru alltaf að bíða eftir því að það kæmi ljós við endann á göngunum, menn kæmust í gegnum þetta.

Ég held að læknaverkfallið sé meðal annars út af því að þetta ljós er ekki, það sést ekki. Ég rakti þetta í ræðunni áðan að Landspítalinn er enn þá 10% undir því sem hann var 2008 í fjárframlögum að raunvirði. Ég get alveg haft skilning á því að það geti tekið aðeins lengri tíma að rétta Landspítalann af og heilbrigðiskerfið og ég held að það krefjist líka ýmislegs. Ég held að kerfið krefjist kerfisbreytinga, það þarf að efla heilsugæsluna miklu meira, forvarnir og annað.

En það sem ég sakna langmest er að menn tala ekki skýrt. Þeir sem halda utan um fjárveitingavaldið núna tala bara eins og milljarður nægi. Þetta er bara komið og við eigum ekkert að vera að tala um þetta meira. Það er ekki þannig. Nú þarf að segja hvert við ætlum að fara og spyrja: Eruð þið með?