144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:56]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni fyrir ágæta ræðu. Fjárlagafrumvarp er hverju sinni pólitískt stefnuplagg og því vel við hæfi að ræða það í ljósi þeirrar framtíðarsýnar sem við viljum mynda okkur. Hv. þingmaður tefldi fram ýmsum valkostum. Hann nefndi almannasamgöngur annars vegar og aðrar lausnir hins vegar, sagði sýnt að núverandi stjórnarmeirihluti væri lítið gefinn fyrir almannasamgöngur, væri byrjaður að kroppa í þá samninga sem gerðir voru í þá veru á sínum tíma og ég tek undir gagnrýni hans hvað þetta snertir sérstaklega.

Ég er sammála honum um margt en ekki alveg allt og langar til að ræða einn þátt sem ég er ekki á einu máli með hv. þingmanni. Ég er að sönnu á því að í öllum kerfum sé hægt að finna leiðir til að bæta þau og það á við með hið opinbera kerfi okkar á Íslandi, en þegar sagt er að framleiðni í opinbera kerfinu sé afar léleg á Íslandi og þá væntanlega með hliðsjón af samanburði við önnur kerfi þá held ég að það sé ekki rétt. Mér finnst margir hafa hamrað á þessu í langan tíma án þess að færa rök fyrir máli sínu. Ég var á sínum tíma starfandi sem fréttamaður og hafði innhlaup í danska sjónvarpið og útvarpið og ég var að gera þar hluti sem tugir manns gerðu á þeim bæjum og þannig held ég að sé mjög víða. Þess vegna finnst mér rangt þegar menn eru að fullyrða þetta öllum stundum að framleiðni sé lélegri hér en gerist annars staðar í opinbera kerfinu. Það er ekki hægt að alhæfa um kerfið, að sönnu er ekki hægt að gera það og ég er ekki að halda því fram að ekki sé hægt að bæta kerfið og gera það skilvirkara, en ég held að framleiðnin sem er þá notuð um mannskapinn sem vinnur verkin, hversu margir eru þar að verki, ég held að það sé bara ekki rétt.